2015-01-21 17:44:42 CET

2015-01-21 17:45:43 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Marel hf. - Fyrirtækjafréttir

Frekari samþætting í rekstri Marel


Marel tilkynnir í dag um mikilvæg skref í átt til frekari einföldunar og
hagræðingar í rekstri félagsins: 


• Vöruframboð félagsins hefur verið endurskoðað með það að markmiði að auka
slagkraftinn á þeim sviðum þar sem félagið hefur skýrt samkeppnisforskot og
sterka markaðsstöðu. Á þeim grundvelli mun félagið hætta framleiðslu á frystum
í Singapore. Félagið mun engu að síður bjóða áfram frysta í vörulínum sínum með
samstarfssamningi við leiðandi framleiðendur á því sviði. Undirbúningur þessara
aðgerða er þegar hafinn og búist er við að framleiðslueiningunni í Singapore
verði að fullu lokað fyrir mitt ár 2015. Kostnaður þessu tengdur er bókaður sem
einskiptiskostnaður í fjórða ársfjórðungi 2014 en búast má við ávinningi fyrir
félagið og auknum rekstarhagnaði frá og með seinni helmingi þessa árs. 

• Framleiðslustarfsemi Marel í Des Moines, Iowa verður  sameinuð starfseiningu
félagsins í Gainesville, Georgíu. Markmiðið með þessum fyrirhuguðu breytingum
er samþætting í rekstri starfseininganna sem mun styrkja samkeppnisstöðu
félagsins. Aðgerðin er til samræmis við þá stefnu félagsins að hámarka
framleiðslukerfið og auka áherslu á stærri einingar þar sem mismunandi iðnaðir
koma saman undir einu þaki. Flutningar á framleiðslustarfsemi frá Des Moines
til Gainesville munu hefjast í janúar 2015 og verður aðgerðinni að fullu lokið
fyrir árslok 2015. Kostnaðurinn sem af aðgerðinni hlýst verður bókaður sem
einskiptiskostnaður í fyrsta ársfjórðungi 2015 og ávinningsins verður vart frá
og með árinu 2016. 

• Þessu til viðbótar tilkynnir Marel nú um fjárfestingu í nýrri
nýsköpunarmiðstöð í Des Moines sem sinnir einkum lausnum fyrir kjötiðnað og
fyrir frekari vinnslu matvæla.  Nýja nýsköpunarmiðstöðin mun leysa af hólmi
núverandi starfsstöð og stefnt er að sölu á landi og byggingum þar á móti nýrri
fjárfestingu. 

Aðgerðir þær sem tilkynnt er um í dag munu hafa í för með sér fækkun
starfsmanna sem nemur 150 stöðugildum. Marel mun í gegnum allt ferlið styðja
við þá starfsmenn sem aðgerðirnar hafa áhrif á. 

Í kjölfar þessara breytinga mun starfsemi Marel í Bandaríkjunum samanstanda af:
framleiðslueiningu í Gainesville, framleiðslueiningu í Seattle, Washington,
sölu- og þjónustumiðstöð í Lenexa, Kansas og að lokum nýsköpunarmiðstöð í Des
Moines. Allar fjórar einingarnar munu halda áfram sölu- og þjónustustarfsemi.
Eftir breytingarnar verða starfsmenn Marel í Bandaríkjunum um 600 og munu þeir 
þjónusta Bandaríkjamarkað sem er í örum vexti um þessar mundir. 

Nánari upplýsingar um framgang áætlunar Marel um skýrari rekstraráherslur verða
veittar þegar ársuppgjör félagsins verður kynnt þann 4. febrúar næstkomandi.