2024-05-10 22:44:00 CEST

2024-05-10 22:44:00 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Lánamál ríkisins - Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

S&P staðfestir A+ lánshæfiseinkunn Íslands með stöðugum horfum



Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings hefur staðfest A+ lánshæfiseinkunn Íslands. Horfur fyrir einkunnina eru stöðugar.

Stöðugar horfur endurspegla það viðhorf að útlit er fyrir betri hagvaxtarhorfur og lítinn halla á ríkisfjármálum og í viðskiptum við útlönd. Það endurspeglar einnig þær forsendur matsfyrirtækisins að áhrif jarðhræringa verði takmörkuð á efnahagsstarfsemi, ríkisfjármál eða greiðslujöfnuð þjóðarbúsins. Einkunnin endurspeglar áfram betri hagvaxtarhorfur á Íslandi í samanburði við flest önnur lönd sem matsfyrirtækið metur í Vestur-Evrópu.

Ferðaþjónusta, sem stendur að baki 30% útflutningstekna, stendur vel og umsvif í greininni eru orðin meiri en 2019 á flesta mælikvarða, þar á meðal í fjölda erlendra ferðamanna. S&P gerir ráð fyrir að innlend eftirspurn styðji við hagvöxt frá og með 2024 sem er studd af mikilli fólksfjölgun og áframhaldandi vexti nýrra atvinnugreina. Má þar nefna líftækni, fiskeldi á landi og í sjó, upplýsingatækni og viðskiptaþjónustu auk hefðbundinna útflutningsgreina eins og sjávarafurða og álframleiðslu. S&P bendir líka á að Ísland er sjálfu sér nægt um innlenda orkuþörf, fyrst og fremst með vatnsorku og jarðvarma.

Stjórnvöld halda áfram að ná árangri í að auka aðhald í opinberum fjármálum, sem ætti að styðja við peningastefnu Seðlabankans í viðleitni til að ná niður verðbólgu. Lítil erlend skuldsetning Íslands og sterkur gjaldeyrisforði veitir frekari viðnámsþrótt. Sterk stofnanaumgjörð og skilvirk stefnumótun stjórnvalda styðja einnig við einkunnina.

Þættir sem halda engu að síður aftur af einkunninni eru sveiflukennt eðli íslenska hagkerfisins sem er útsett fyrir náttúruógnum eins og eldvirkni, og takmörkuð skilvirkni peningastefnu sem rekja má til mikilla áhrifa ytri þátta á þróun innlendrar verðbólgu.

Að mati S&P gæti lánshæfiseinkunn Íslands hækkað ef staða opinberra fjármála styrkist umtalsvert umfram það sem fyrirtækið væntir nú, til dæmis vegna minni hallareksturs og lægri nettóskuldastöðu hins opinbera eða lækkunar á áhættuskuldbindingum ríkisins. Lánshæfiseinkunnin gæti einnig hækkað ef matsfyrirtækið sæi vísbendingar um aukna fjölbreytni hagkerfisins sem myndi auka viðnámsþrótt þess.

S&P gæti lækkað einkunnina ef staða ríkisfjármála eða erlend staða hagkerfisins versnar umtalsvert í samanburði við spár. Það gæti til dæmis gerst ef viðvarandi eldvirkni hefði neikvæð áhrif í ferðaþjónustu með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á hagvöxt og opinber fjármál.

Nánari upplýsingar eru á www.fjr.is