2017-03-22 19:48:54 CET

2017-03-22 19:48:54 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Landsbankinn hf. - Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Landsbankinn hf.: Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2017


Aðalfundur Landsbankans hf. vegna ársins 2016 fór fram í Hörpu 22. mars. Á
dagskrá fundarins voru hefðbundin aðalfundarstörf.

Fundurinn samþykkti tillögu um að greiddur verði arður til hluthafa vegna
reikningsársins 2016 sem nemur 0,55 krónum á hlut, eða um 13 milljörðum króna
sem samsvarar um 78% af hagnaði ársins, sem verði greiddur út í lok mars. Einnig
samþykkti fundurinn tillögu um sérstaka arðgreiðslu sem nemur 0,50 krónum á
hlut, eða um 11,8 milljörðum króna, og verði arðgreiðslan innt af hendi 20.
september 2017. Samanlagðar arðgreiðslur Landsbankans á árinu 2017 munu því nema
um 24,8 milljörðum króna.

Á fundinum var greint frá nýrri arðgreiðslustefnu sem bankaráð samþykkti 7. mars
sl. Í stefnunni kemur fram að Landsbankinn stefnir að því að reglulegar
arðgreiðslur til hluthafa verði að jafnaði 60-80% af hagnaði fyrra árs. Í
samræmi við fjármögnunarstefnu bankans er einnig stefnt að sérstökum
arðgreiðslum til þess að auka hagkvæmni í fjármagnsskipan bankans. Við ákvörðun
um fjárhæð arðgreiðslna verði tryggt að bankinn uppfylli lögbundnar kröfur á
hverjum tíma og viðhaldi sterkri fjárhagsstöðu. Þannig verði tekið mið af áhættu
í innra og ytra umhverfi, vaxtarhorfum og að bankinn viðhaldi til framtíðar
traustri eigin- og lausafjárstöðu.

Eftirtalin voru kjörin aðalmenn í bankaráð Landsbankans:

  * Berglind Svavarsdóttir
  * Einar Þór Bjarnason
  * Helga Björk Eiríksdóttir
  * Hersir Sigurgeirsson
  * Jón Guðmann Pétursson
  * Magnús Pétursson
  * Sigríður Benediktsdóttir

Helga Björk Eiríksdóttir var kjörin formaður bankaráðs.

Eftirtalin voru kjörin varamenn í bankaráð:

  * Ásta Dís Óladóttir
  * Samúel Guðmundsson

Aðalfundur samþykkti óbreytta starfskjarastefnu fyrir Landsbankann. Þá var
samþykkt tillaga um að þóknun til bankaráðsmanna verði 400.000 kr. á mánuði,
þóknun til stjórnarformanns verði 700.000 kr. á mánuði og þóknun til
varaformanns verði 500.000 kr. Því til viðbótar skuli greiða bankaráðsmönnum
200.000 kr. á mánuði fyrir þátttöku í starfi undirnefnda bankaráðs en auk þess
fái formenn undirnefnda bankaráðs greiddar 25.000 kr. á mánuði. Þóknun til
varamanns í bankaráði verði 200.000 kr. fyrir hvern fund í bankaráði eða fund
með Fjármálaeftirlitinu um hæfismat en þó aldrei hærri en þóknun aðalmanns innan
hvers mánaðar. Greiðsla til hvers varamanns skal nema að lágmarki 400.000 kr. á
ári.

Á fundinum var samþykkt heimild þess efnis að Landsbankinn eignist eigin hluti
allt að 10% af nafnverði hlutafjár. Lægsta og hæsta fjárhæð sem Landsbankinn má
reiða fram sem endurgjald fyrir hvern hlut skal vera bókfært virði hvers hlutar,
þ.e. samsvara hlutfalli á milli eigin fjár sem tilheyrir hluthöfum bankans og
hlutafjár, samkvæmt síðasta birta ársuppgjöri eða árshlutauppgjöri áður en kaup
á eigin hlutum fara fram. Heimild þessi gildir fram að aðalfundi Landsbankans
árið 2018. Ráðstöfun Landsbankans á eigin hlutum sem keyptir verða á grundvelli
þessarar heimildar er háð samþykki hluthafafundar.

Nánari upplýsingar veita:

Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi, pr@landsbankinn.is og í síma 410 6263 /
899 3745

Hanna Kristín Thoroddsen, fjárfestatengsl, ir@landsbankinn.is og í síma 410 7310




[]