2017-02-23 20:17:59 CET

2017-02-23 20:17:59 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Eimskipafélag Íslands hf. - Ársreikningur

Árið 2016 var metár hjá Eimskip


EBITDA hækkaði um 23,7% að teknu tilliti til einskiptisliðar


  -- Rekstrartekjur námu 513,9 milljónum evra, hækkuðu um 14,3 milljónir evra
     eða 2,9% frá 2015
     -- Tekjur hækkuðu um 16,3 milljónir evra eða 3,3% þegar tillit er tekið til
        2,0 milljóna evra söluhagnaður vegna skips sem innifalinn var í tekjum
        2015
  -- EBITDA nam 53,5 milljónum evra, hækkaði um 8,3 milljónir evra eða 18,3% frá
     2015
     -- Aðlöguð EBITDA hækkaði um 10,3 milljónir evra eða 23,7% þegar tillit er
        tekið til 2,0 milljóna evra söluhagnaðar
  -- Hagnaður nam 21,9 milljónum evra, hækkaði um 4,1 milljón evra eða 23,0% frá
     2015
  -- Eiginfjárhlutfall var 62,2% og nettóskuldir námu 41,6 milljónum í árslok
  -- Stjórn félagsins leggur til 6,80 króna arðgreiðslu á hlut, alls um 11,0
     milljónir evra
  -- Afkomuspá ársins 2017 er EBITDA á bilinu 57 til 63 milljónir evra



Gylfi Sigfússon forstjóri

„Ég er ánægður með að kynna árið 2016 sem metár hjá Eimskip. Tekjur voru 513,9
milljónir evra sem samsvarar 3,3% vexti miðað við aðlagaðar tekjur ársins 2015.
EBITDA hækkaði í 53,5 milljónir evra og er það 23,7% vöxtur miðað við 43,2
milljóna evra aðlagaða EBITDA á árinu 2015. Á árinu var gjaldfærð 1,1 milljón
evra vegna kostnaðar tengdum fjárfestingum í nýjum fyrirtækjum. Hagnaður ársins
nam 21,9 milljónum evra og jókst um 23,0%. Sjóðstreymi félagsins hélst áfram
sterkt og handbært fé frá rekstri jókst um 11,3 milljónir evra eða 30,3% á
milli ára. Tekjur af áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi námu 380,3
milljónum evra og hækkuðu um 6,2% og EBITDA jókst um 18,5% á sama tíma og 5,9%
vöxtur var í magni. Tekjur af flutningsmiðlun námu 133,6 milljónum evra og
drógust saman um 5,6% vegna lækkandi verða í alþjóðlegum flutningum. EBITDA var
samt sem áður 11,0 milljónir evra og hækkaði um 17,7% vegna kostnaðaraðhalds og
framlegð hélst þrátt fyrir lækkun á flutningsverðum. Heildarmagn í
flutningsmiðlun jókst um 4,8%. 

Rekstrartekjur fjórða ársfjórðungs námu 140,5 milljónum evra og hækkuðu um 9,9
milljónir evra eða 7,6%. EBITDA fjórðungsins nam 9,9 milljónum evra og hækkaði
um 1,6% samanborið við 2015. Tekjur í áætlunarsiglingum voru 101,7 milljónir
evra og hækkuðu um 7,0 milljónir evra eða 7,4%, en EBITDA áætlunarsiglinga
lækkaði um 3,0% vegna 0,8 milljóna evra kostnaðar tengdum fjárfestingum í nýjum
fyrirtækjum og verri afkomu í Noregi á fjórðungnum. Árið 2016 var metár í
rekstri Eimskips í Noregi hvað varðar tekjur og EBITDA, en reksturinn var
lakari á fjórða ársfjórðungi samanborið við árið á undan. Við gerum ráð fyrir
áframhaldandi vexti í tekjum og EBITDA í Noregi. Flutt magn í áætlunarsiglingum
var nánast óbreytt vegna magnminnkunar í Noregi. Tekjur af flutningsmiðlun námu
38,8 milljónum evra og hækkuðu um 2,8 milljónir evra eða 7,9% samanborið við
fyrra ár, einkum vegna kaupanna á Extraco. EBITDA af flutningsmiðlun var 2,1
milljón evra og hækkaði um 23,2%, sem skýrist af hækkandi flutningsverðum og
9,3% vexti í magni á fjórðungnum. 

Eimskip og grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line undirrituðu í maí 2016
viljayfirlýsingu um mögulegt samstarf um smíði á þremur gámaskipum og
samnýtingu á afkastagetu. Félögin undirrituðu í janúar samkomulag um samstarf,
en það bíður kynningar og staðfestingar frá viðeigandi samkeppnisyfirvöldum ef
við á. Eimskip undirritaði á sama tíma samning við skipasmíðastöð í Kína um
smíði á tveimur 2.150 gámaeininga skipum með ísklassa og Polar Code. Skipin
munu uppfylla ítarlegar kröfur um umhverfisstaðla og eru hönnuð með sparneytni
að leiðarljósi. Samningsverð hvors skips nemur um 32 milljónum dollara og er
gert ráð fyrir að skipin verði afhent á árinu 2019. Royal Arctic Line
undirritaði einnig samning um smíði á einu sambærilegu skipi við sömu
skipasmíðastöð. 

Eimskip festi í október 2016 kaup á 90% hlut í flutningsmiðlunarfyrirtækinu
Extraco í Rotterdam. Eimskip tilkynnti síðan í janúar um kaup á 80% hlut í
Mareco sem er með höfuðstöðvar í Antwerpen í Belgíu. Fyrirtækin sérhæfa sig í
frystiflutningsmiðlun. Heildarfjárfesting vegna fyrirtækjanna tveggja var um 29
milljónir evra,  áætlaðar heildartekjur vegna þeirra nema um 80 milljónum evra
á ári og EBITDA hlutfall um 6-8%. Fjárfestingarnar tvær eru í takt við stefnu
félagsins þar sem þau starfa bæði á okkar mörkuðum, hvort um sig er sérhæft og
mun skapa samlegð í okkar flutningsmiðlunarþjónustu. Eimskip ætlar að halda
áfram að vaxa í flutningsmiðlun og við bjóðum Extraco og Mareco velkomin í
samstæðuna. Með tengingu við samstæðu  Eimskips og aukið bolmagn munum við
skapa samlegð og útvíkka þjónustu við viðskiptavini okkar. Hvert og eitt
flutningsmiðlunarfyrirtæki eykur sérþekkingu hópsins og gefur færi á að deila
þekkingu og reynslu. Fyrirtækin hafa ekki yfir miklum rekstrarfjármunum að ráða
en auka umsvif og fjölbreytni samstæðunnar. Fjárfestingarnar skapa vöxt í
afkomu og handbæru fé. Við höldum áfram að leita að tækifærum með því að
fjárfesta í fleiri flutningsmiðlunarfyrirtækjum. 

Í byrjun nóvember 2016 tilkynnti Eimskip um undirritun samnings um kaup á
norska flutningafyrirtækinu Nor Lines, með fyrirvara um samþykki norskra
samkeppnisyfirvalda. Þann 20. febrúar tilkynnti samkeppniseftirlitið í Noregi
að það hefði athugasemdir við kaup Eimskips á Nor Lines. Eimskip hefur 15
viðskiptadaga til að leggja fram gagnrök sín í málinu og að því loknu hefur
eftirlitið aðra 15 viðskiptadaga til að taka endanlega ákvörðun. Eimskip mun
meta athugasemdir norska samkeppniseftirlitsins og senda inn gagnrök sín. 

Í tengslum við fjárfestingarverkefni Eimskips hefur félagið samið við
Íslandsbanka um lánalínu til 18 mánaða að fjárhæð 47 milljónir evra. Félagið
vinnur nú að því að meta nokkur hagstæð tilboð í langtímafjármögnun vegna
skipa. 

Eimskip mun í lok febrúar gera breytingar á siglingakerfi sínu með það fyrir
augum að styrkja enn frekar kerfið og þjónustu þess. Með breytingunum og
fjölgun um eitt 700 gámaeininga skip mun afkastageta félagsins til og frá
Evrópu og Norður-Ameríku aukast um 7-11%. Nýrri siglingaleið, rauðu leiðinni,
verður bætt við og þjónustu grænu og gráu leiðarinnar verður breytt. Boðið
verður upp á vikulega þjónustu í strandsiglingum til að styðja við aukin umsvif
á Íslandi. Í byrjun maí mun Helsingborg taka við af Halmstad sem viðkomuhöfn
félagsins í Svíþjóð. Breytingin mun efla enn frekar þjónustu við viðskiptavini
okkar. 

Eimskip hefur selt gámaskipið Brúarfoss, byggt árið 1992, og keypt Sophia, 700
gámaeininga skip smíðað á árinu 2008 sem verður afhent í maí. Við vinnum áfram
að endurnýjun skipaflota okkar til að geta veitt viðskiptavinum okkar sem bestu
og áreiðanlegustu þjónustu. Við munum halda áfram að nýta okkur aðstæður á
skipamarkaði og fjárhagslegan styrk okkar til að kaupa notuð skip á hagstæðu
verði. Eftir breytingarnar á skipaflotanum mun Eimskip verða með 21 skip í
rekstri. 

Markmið Eimskips er að vaxa bæði með innri vexti og kaupum á fyrirtækjum sem
falla að starfsemi félagsins og auka virði þess. Félagið mun því  halda áfram
að meta nýja kosti í fjárfestingum á skipum og fyrirtækjum. Hlutafé verður ekki
aukið vegna fjárfestinga en lántökur verða auknar, þó þannig að
efnahagsreikningur félagsins verði áfram sterkur. 

Stjórn félagsins leggur til að arður verði hækkaður úr 6,50 krónum á hlut í
6,80 krónur á hlut, eða um 4,6% í íslenskum krónum, og verði alls 1.269,1
milljónir króna. Arður í evrum hækkar úr 8,6 milljónum  evra í um 11,0
milljónir evra, en það samsvarar 27,7% hækkun sem endurspeglar styrkingu
íslensku krónunnar. 

Horfur fyrir árið 2017 eru jákvæðar og félagið gerir ráð fyrir vexti í
innflutningi til Íslands. Horfur eru einnig góðar fyrir Færeyjar og Noreg.
Reiknað er með að vöxtur verði í magni, tekjum og hagnaði í flutningsmiðlun á
árinu meðal annars vegna nýju félaganna og þar sem gert er ráð fyrir hækkandi
verðum í alþjóðlegri flutningsmiðlun. Extraco og Mareco munu skapa ný tækifæri
og samlegð fyrir Eimskip bæði hvað varðar nýja vöruflokka og flutningaleiðir.
Samkeppni verður áfram mikil, sérstaklega í starfsemi félagsins á
Norður-Atlantshafi. Verkfallið í sjávarútvegi á Íslandi í janúar og febrúar mun
hafa neikvæð áhrif á afkomu fyrsta ársfjórðungs. Við gerum ráð fyrir að
fiskveiðikvóti ársins verði nýttur að fullu og að flutningar á fiski flytjist
þar með af fyrsta yfir á annan ársfjórðung og að þeir dreifist yfir árið.
Aukinn innflutningur til Íslands mun að hluta bæta upp fyrir minnkaðan
útflutning á fiski á fyrsta ársfjórðungi. Áætluð EBITDA fyrir árið 2017 er á
bilinu 57 til 63 milljónir evra.“ 



Frekari upplýsingar

  -- Gylfi Sigfússon forstjóri, sími: 525 7202
  -- Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs,
     sími: 525 7202
  -- Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla, sími: 825 7220, netfang:
     investors@eimskip.is