2008-11-17 17:29:04 CET

2008-11-17 17:30:04 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Íbúðalánasjóður - Fyrirtækjafréttir

- Áætlað tap Íbúðalánasjóðs vegna falls þriggja stærstu banka landsins


Íbúðalánasjóður hefur ekki farið varhluta af þeirri kreppu sem ríkt hefur á
fjármagnsmörkuðum undanfarnar vikur og ljóst er að sjóðurinn verður fyrir
verulegum skakkaföllum vegna falls þriggja stærstu banka landsins. Staða
sjóðsins er þó enn sem áður sterk. Einföld ríkisábyrgð er á skuldbindingum
Íbúðalánasjóðs og sjóðurinn er, þrátt fyrir þessi áföll, vel í stakk búinn til
að sinna því hlutverki sem honum er ætlað samkvæmt lögum.
Sjóðurinn átti um 43 milljarða króna í innlánum, skuldabréfum og
afleiðusamningum hjá íslensku bönkunum í byrjun október og má ætla að tap
sjóðsins af þessum eignum muni nema átta til tólf milljörðum króna. Hvert
endanlegt tap sjóðsins verður, kemur þó ekki í ljós fyrr en í uppgjöri við
skilanefndir bankanna. Þá skiptir miklu máli hvort eignir Íbúðalánasjóðs í
bönkunum verða skuldajafnaðar á móti skuldum sjóðsins við bankana. 

Samkvæmt áhættu- og fjárstýringarstefnu sjóðsins ber sjóðnum að hafa yfir að
ráða ákveðnu lausu fé til að geta mætt afborgunum af skuldum sínum og veitt lán
til íbúðarkaupenda í ákveðinn tíma án þess að þurfa að sækja nýtt lánsfé út á
markaðinn. Þetta lausa fé hefur sjóðurinn ávaxtað innanlands, með innlánum og
kaupum á markaðsbréfum innlendra lánastofnana. Í lögum um húsnæðismál er kveðið
á um heimild Íbúðalánasjóðs til að eiga viðskipti með fjármögnunarbréf sín og
önnur verðbréf.
Ekki er kveðið á um ákveðið eiginfjárhlutfall í lögum um Íbúðalánasjóð, en í
reglugerð er gert ráð fyrir að það sé að jafnaði yfir 5% og gera þurfi
viðeigandi yfirvöldum viðvart ef það stefni í að fara niður fyrir 4%. Eigið fé
sjóðsins í lok júní nam 20,6 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall hans var 8%.
Miðað við að tap sjóðsins verði tíu milljarðar króna, verður eigið fé hans 10,6
milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 4,1%. 

Stjórn Íbúðalánasjóðs fjallaði um stöðu sjóðsins á stjórnarfundi í dag og málið
hefur verið kynnt félagsmálaráðherra og eftirlitsstofnununum,
Fjármálaeftirlitinu og Ríkisendurskoðun. 

Frekari upplýsingar veitir:
Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs í síma 569 6900 eða  892
7624