2016-03-02 15:18:03 CET

2016-03-02 15:18:03 CET


REGLAMENTUOJAMA INFORMACIJA

Anglų Islandų
Marel hf. - Fyrirtækjafréttir

Marel tilkynnir breytingar á framkvæmdastjórn, skipulagi og markaðssetningu


Marel tilkynnir um breytingar á framkvæmdastjórn, skipulagi og markaðssetningu
(e. corporate identity)  sem nú verður undir einu nafni og vörumerki.
Breytingarnar miða að því að einfalda og styrkja markaðssókn Marel og styðja
við vöxt og velgengni félagsins til framtíðar. 

Marel er leiðandi á heimsvísu í þróun hátæknibúnaðar og kerfa til vinnslu á
kjöti, fiski og kjúklingi.  Marel hefur nú breytt skipulagi sínu og mun í
framtíðinni birta rekstrarniðurstöður fyrir þrjá iðnaði í stað fjögurra áður.
Héðan í frá munu viðskiptavinir Marel vinna með Marel Poultry, Marel Meat og
Marel Fish og munu iðnaðarnir þrír bjóða heildarlausnir frá frumvinnslu til
seinni stiga vinnslunnar og fullvinnslu. Fullvinnsla verður til áfram sem
eining innan Marel sem mun vinna þvert á iðnaðina þrjá: kjúkling, kjöt og fisk.
Allir iðnaðir Marel eru nú sameinaðir undir vörumerki Marel, með eitt slagorð
og endurskilgreinda framtíðarsýn og gildi. 

Vöruframboð Marel er sterkt og á það rætur sínar að rekja til áherslu og
fjárfestinga í nýsköpun sem og stefnumótandi kaupa á fyrirtækjum. Marel hefur
notið velgengni í frumvinnslu og á seinni stigum vinnslu og mun nú halda áfram
að grípa vaxtartækifæri í fullvinnslu í kjúklinga-, kjöt- og fiskiðnaði. Þetta
skref er einnig í fullu samræmi við þá sýn okkar að starfa með viðskiptavinum á
þeirri vegferð að umbreyta matvælavinnslu í heiminum til hins betra með því að
vinna mat á sjálfbæran og hagkvæman hátt. Ný gildi Marel eru Unity, Innovation
og Excellence. 

Eftirfarandi breytingar hafa nú verið gerðar á framkvæmdastjórn Marel:

Kjöt: Remko Rosman, forstjóri MPS, sem Marel lauk kaupum á í janúar sl., mun
taka sæti í framkvæmdastjórn félagsins og verða framkvæmdastjóri Marel Meat.
Áætlun um fulla sameiningu MPS og Marel hefur verið hrint af stokkunum. MPS
verður áfram til sem vörumerki þar til í janúar 2017 þegar það rennur að fullu
inn í Marel. 

Fullvinnsla: David Wilson, sem áður var framkvæmdastjóri kjötiðnaðar Marel mun
nú leiða fullvinnslu innan allra þriggja iðnaða Marel. Hann verður áfram í
framkvæmdastjórn félagsins en með breytt starfssvið og áherslur. Þegar Marel
kynnti rekstrarniðurstöðu sína fyrir árið 2015 var sagt að niðurstaða í
fullvinnslu væri óásættanleg og að frekari breytinga og fjárfestinga væri þörf
til að styðja við starfsemina til framtíðar. David Wilson hefur leitt
breytingar á starfsemi félagsins í kjöti undanfarin ár með frábærum árangri og
mun hann nú leiða þennan hluta starfseminnar. Teymi Marel í fullvinnslu mun
halda áfram að sinna þörfum framleiðenda í kjúklinga-, kjöt- og fiskiðnaði með
áframhaldandi áherslu á aukna virðisaukningu. Gerrit den Bok sem var
framkvæmdastjóri fullvinnslu kveður Marel. 

Viðskipta og sölusvið (Commercial): Commercial er eitt af þremur sviðum Marel
sem vinnur þvert á alla iðnaðina. Undir sviðið heyrir alþjóðleg starfsemi,
þjónusta og vörusetur. Til einföldunar á skipulagi hefur verið ákveðið að
samþætta stjórnunarhlutverk sviðsins og mun Pétur Guðjónsson nú leiða það.
Sigsteinn Grétarsson sem áður leiddi Viðskipta- og sölusviðið kveður Marel. 



Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel:

„Marel hefur átt góðri velgengni að fagna síðustu misseri. Við störfum á
dynamískum markaði þar sem Marel er í lykilstöðu. Við erum nú að einfalda
skipulag innan félagsins til að geta mætt þörfum viðskiptavina okkar betur en
áður. 

 Ég vil bjóða Remko Rosman velkominn sem nýjan framkvæmdastjóra Marel Meat og
sem nýjan liðsmann í framkvæmdastjórn félagsins. Ég hef miklar væntingar til
forystuhæfileika hans og reynslu sem mun án vafa gagnast Marel. 

Við erum mjög ánægð með að David Wilson hefur samþykkt að taka við keflinu í
fullvinnslunni og leiða þær breytingar sem við erum að gera á starfsemi okkar
þar. David Wilson hefur staðið sig afar vel í störfum sínum hjá Marel og hefur
á síðustu árum endurreist arðsemi í kjöteiningu félagsins. Hann gegndi einnig
mikilvægu hlutverki í kaupum okkar á MPS. Það eru gríðarleg vaxtartækifæri í
fullvinnslu og við munum halda áfram að leggja áherslu á nýsköpun og
fjárfestingu til að gera okkur kleift að grípa þessi tækifæri og styðja við
viðskiptavini okkar í frekari virðisaukningu undir forystu David Wilson. 

Pétur Guðjónsson hefur undanfarin ár verið í forystu við að innleiða breytingar
á fyrirkomulagi alþjóðlegrar sölu og þjónustu hjá Marel. Marel er alþjóðlegt
fyrirtæki sem hefur sölu og þjónustu starfsemi í yfir 30 löndum um allan heim.
Sem yfirmaður Commercial mun Pétur leiða þessa alþjóðlegu starfssemi Marel
ásamt vörusetrum og þjónustu. 

Ég vil þakka Gerrit den Bok og Sigsteini Grétarssyni fyrir framlag þeirra og
störf til margra ára fyrir Marel og óska þeim velfarnaðar í framtíðinni.“ 

Aðalfundur Marel verður haldin í dag 2, mars  klukkan 16:00 þar sem þessar
breytingar  verða kynntar nánar. Þá verður einnig hægt að lesa meira um
breytingarnar í Ársskýrslu Marel sem kemur út síðar í dag.