2015-11-11 18:13:44 CET

2015-11-11 18:14:48 CET


REGLERAD INFORMATION

Engelska Isländska
Arion Bank hf. - Ársreikningur

Afkoma Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins 2015


Hagnaður Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins 2015 nam 25,4 milljörðum króna
samanborið við 22,6 milljarða króna á sama tímabili 2014. Markast afkoma
tímabilsins mjög af óreglulegum liðum líkt og á árinu 2014. Skipta þar mestu
einskiptisatburðir eins og sala bankans á hlutum í fasteignafélaginu Reitum,
alþjóðlega drykkjaframleiðandanum Refresco Gerber og Símanum hf. í tengslum við
skráningu félaganna í kauphöll. Arðsemi eigin fjár var 19,8% samanborið við
19,9% á sama tímabili árið 2014. Hagnaður af reglulegri starfsemi á tímabilinu
nam 13,5 milljörðum króna samanborið við 11,4 milljarða á sama tímabili 2014.
Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi nam 11,2% á fyrstu níu mánuðum
ársins samanborið við 10,1% á sama tímabili 2014. Heildareignir námu 1.009,5
milljörðum króna samanborið við 933,7 milljarða króna í árslok 2014. 

Eiginfjárhlutfall bankans í lok tímabilsins var 23,5% en var 26,3% í árslok
2014. Lækkunin er einkum tilkomin vegna arðgreiðslu að fjárhæð 12,8 milljarðar
króna og fyrirframgreiðslu á víkjandi lánum frá ríkinu að fjárhæð 20 milljarðar
króna. Hlutfall eiginfjárþáttar A nam 22,2% samanborið við 21,8% í árslok 2014. 

Helstu atriði árshlutareikningsins

  -- Hagnaður eftir skatta nam 25,4 mö.kr. samanborið við 22,6 ma.kr. á sama
     tímabili 2014.
  -- Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 13,5 mö.kr. samanborið við 11,4 ma.kr.
     á sama tímabili 2014.
  -- Eiginfjárhlutfall nam 23,5% í lok tímabils samanborið við 26,3% í árslok
     2014.
  -- Arðsemi eigin fjár var 19,8% samanborið við 19,9% á sama tímabili 2014. Af
     reglulegri starfsemi nam arðsemin 11,2% á tímabilinu, samanborið við 10,1%
     á sama tímabili 2014.
  -- Hreinar vaxtatekjur námu 20,3 mö.kr. samanborið við 18,3 ma.kr. á sama
     tímabili 2014.
  -- Hreinar þóknanatekjur námu 10,7 mö.kr. samanborið við 10,1 ma.kr. á sama
     tímabili 2014.
  -- Rekstrartekjur hækka umtalsvert á milli ára og námu 50,4 mö.kr. samanborið
     við 38,3 ma.kr. á sama tímabili 2014. Mikil hækkun rekstrartekna er einkum
     tilkomin vegna söluhagnaðar og hækkunar á verðmati á eignarhlutum í Reitum
     fasteignafélagi hf., Refresco Gerber og Símanum hf. í tengslum við
     skráningu félaganna á markað 2015.
  -- Hrein virðisbreyting er neikvæð á tímabilinu og nemur 0,1 ma.kr.,
     samanborið við 2,9 ma.kr. jákvæða virðisbreytingu á sama tímabili 2014.
     Hrein virðisbreyting lána hjá dótturfélaginu AFL - sparisjóði var neikvæð á
     tímabilinu og nam 1,7 ma.kr. eins og kom fram í hálfsárs uppgjöri bankans.
     Hrein virðisbreyting annarra lána samstæðunnar var jákvæð um sambærilega
     fjárhæð.
  -- Tekjuskattur nam 3,6 mö.kr. samanborið við 4,4 ma.kr. á sama tímabili 2014.
  -- Kostnaðarhlutfall var 38,4% en var 48,7% á sama tímabili 2014. Af
     reglulegri starfsemi nam kostnaðarhlutfall 49,7% samanborið við 54,6% á
     fyrstu níu mánuðum ársins 2014.
  -- Eigið fé bankans var 174,8 ma.kr. en nam 162,2 mö.kr. í lok árs 2014. 

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:"Afkoma Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins er góð. Hún markast nokkuð af
hagnaði af sölu á eignarhlutum í félögum í óskyldum rekstri í tengslum við
skráningu þeirra á markað. Ljóst er að í framtíðinni mun draga úr áhrifum
slíkra þátta á afkomu bankans sem þá verður borin uppi af hefðbundinni
fjármálastarfsemi. Við erum vel undir þetta búin enda höfum við á undanförnum
árum lagt áherslu á að styrkja grunnstoðirnar í rekstri bankans. 

Mörg stór og spennandi verkefni hafa verið kláruð á fyrstu níu mánuðum ársins.
Bankinn hefur staðið að baki öllum þremur nýskráningum í kauphöll það sem af er
ári og þannig eflt hlutabréfamarkaðinn og komið endurskipulögðum félögum í
dreift eignarhald. Mikill áhugi er á hlutafjárútboðum og framkvæmd þeirra. Við
tökum mark á málefnalegri gagnrýni og munum breyta verklagi okkar þar sem við
á. Arion banki kemur einnig að byggingu fimm stjörnu hótels við Hörpu og í
október gerðum við samning um kaup á tryggingafélaginu Verði sem bíður
afgreiðslu eftirlitsaðila. 

Eins og við höfum áður getið um hefur tekist vel að auka fjölbreytni í
fjármögnun bankans á liðnum misserum. Þróun á eftirmarkaði með skuldabréf
bankans á alþjóðlegum mörkuðum er jákvæð og hækkun lánshæfismats S&P upp í
fjárfestingaflokk mun bæta enn frekar aðgengi að alþjóðlegum lánsfjármörkuðum.“ 



Fundur með markaðsaðilum

Arion banki mun halda símafund á ensku fyrir markaðsaðila, fimmtudaginn 12.
nóvember, klukkan 13:00. Á fundinum mun Stefán Pétursson, fjármálastjóri Arion
banka, fara yfir helstu atriði í uppgjöri bankans. Áhugasamir geta sent
tölvupóst á ir@arionbanki.is og fá í kjölfarið sendar innhringiupplýsingar. 



Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka,
haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.