2015-04-29 18:40:54 CEST

2015-04-29 18:41:55 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Icelandair Group hf. - Ársreikningur

Afkoma á fyrsta ársfjórðungi umfram væntingar


  -- EBITDA var neikvæð um 2,3 milljónir USD en var neikvæð um 13,3 milljónir
     USD á fyrsta ársfjórðungi 2014.
  -- Mikil farþegaaukning, góð nýting og lægra eldsneytisverð skýrir að mestu
     afkomubatann milli ára.
  -- Flutningatekjur jukust um 6%, en heildartekjur drógust saman um 3%
  -- Eiginfjárhlutfall var 34% í lok mars.
  -- Handbært fé frá rekstri 117,7 milljónir USD samanborið við 121,4 milljónir
     USD árið áður.



Björgólfur Jóhannsson, forstjóri

„Afkoma á fyrsta ársfjórðungi var umfram áætlanir okkar og töluvert umfram
afkomu fyrsta ársfjórðungs 2014. Helstu skýringar eru mikil aukning farþega í
millilandaflugi og góð nýting bæði í fluginu og á hótelum félagsins, auk þess
sem lægra eldsneytisverð hefur talsverð áhrif á samanburð við fyrra ár.
Framboðsaukning á tímabilinu var 12% en á sama tíma jókst fjöldi farþega um
19%. Sætanýting var 79,2% og hefur aldrei verið hærri á fyrsta ársfjórðungi.
Herbergjanýting á hótelum félagsins var einnig mjög góð eða 75,2% samanborið
við 67,3% á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Icelandair Group hefur verið í
fararbroddi að byggja upp ferðaþjónustu á Íslandi utan háannar og sýna þessar
nýtingatölur frá hótelunum árangurinn af starfi okkar. Rekstur annarrar
starfsemi samstæðunnar gekk einnig vel á fjórðungnum. 

Rekstur félagsins er mjög háður ytri aðstæðum, svo sem sveiflum á gengi
gjaldmiðla og eldsneytisverði. Styrking Bandaríkjadals gagnvart Evrópumyntum
hefur í för með sér neikvæð áhrif á afkomu félagsins, sérstaklega á háannatíma.
 Í upphafi árs gáfum við út EBITDA spá sem nam USD 160-165 milljónum.  Sú spá
byggði á að gengiskrossinn milli EUR/USD yrði að meðaltali 1,15 á árinu, en
uppfærðar forsendur gera ráð fyrir að krossinn verði að meðaltali 1,07 á
síðustu níu mánuðum ársins. Þá gerum við ráð fyrir að eldsneytisverð án tillits
til varna lækki frá upphaflegri spá og verði 600 USD/tonn á síðustu þremur
fjórðungum ársins. Að teknu tilliti til þessa er EBITDA spá fyrir árið í heild
óbreytt, þrátt fyrir að afkoman hafi verið umfram væntingar á fyrsta
fjórðungi.“ 





Frekari upplýsingar veita:

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri
bubbi@icelandairgroup.is
896 1455

Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála
bogi@icelandairgroup.is
665 8801