2015-04-29 19:08:44 CEST

2015-04-29 19:09:45 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Marel hf. - Ársreikningur

Marel afkoma fyrsta ársfjórðungs 2015- Aukning í tekjum og bætt rekstrarniðurstaða


Aukning í tekjum og bætt rekstrarniðurstaða

  --  Tekjur á fyrsta ársfjórðungi 2015 námu 209,3 milljónum evra [1F 2014:
     154,8m].
  --  Leiðrétt EBITDA* á fyrsta ársfjórðungi var 36,9 milljónir evra sem er
     17,6% af tekjum. [1F 2014: 11,6m]. EBITDA var 29,4 milljónir evra sem er
     14% af tekjum [1F 2014: 8,1m].
  --  Leiðréttur rekstrarhagnaður* (adj. EBIT) á fyrsta ársfjórðungi 2015 var
     23,8 milljónir evra, sem er 11,4% af tekjum. [1F 2014: 4,6m]. EBIT var 16,2
     milljónir evra sem er 7,8% af tekjum [1F 2014: 1,0m].
  --  Hagnaður fyrsta ársfjórðungs 2015 nam 12,6 milljónum evra [1F 2014: 1,9m
     tap]. Hagnaður á hlut var 1,73 evru sent [1F 2014:  tap á hlut 0,25 evru
     sent].
  --  Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 39,5 milljónum
     evra á fyrsta ársfjórðungi 2015 [1F 2014: 19,4 milljónir evra]. Nettó
     vaxtaberandi skuldir í lok fjórðungsins námu 161,7 milljónum evra [1F 2014:
     208,4 milljónir evra].
  --  Pantanabókin stóð í 178 milljónum evra í lok fyrsta ársfjórðungs
     samanborið við 174,9 milljónir evra í lok árs 2014.

Árið 2015 byrjar vel fyrir Marel. Félagið hefur náð góðri aukningu í
rekstrarhagnaði og afkomu eftir skatt samanborið við fyrri fjórðunga og á sú
niðurstaða rætur sínar að rekja til góðrar sölu og pantanastöðu til viðbótar
við bætta rekstrarafkomu í kjölfar hagræðingaraðgerða. Fjárhagsstaðan er sterk
sem hefur skilað sér í að skuldsetningarhlutfall félagsins er 1,48 sem gerir
félaginu kleift að styðja enn frekar við vöxt og samkeppnishæfni til framtíðar.
Góður meðbyr er á helstu mörkuðum Marel og skilyrði á fjármálamörkuðum eru
hagstæð. 


Tveir mikilsverðir atburðir áttu sér stað eftir uppgjörsdag fyrsta ársfjórðungs
2015 og fram að birtingu uppgjörs: 


• Samið var um sölu á starfsemi Marel á háhraða skurðartækni (High Speed
Slicing) sem staðsett er í Norwich, Bretlandi í febrúar. Formleg eigendaskipti
áttu sér stað í apríl. Salan mun hafa væg jákvæð áhrif á rekstrarreikning
annars ársfjórðungs og skila jákvæðu sjóðstreymi sem nemur 9,5 milljónum evra. 

• Fasteign félagsins í Oss í Hollandi var seld í apríl á 2,4 milljónir evra.
Starfsemin í Oss var á síðasta ári flutt í fjöliðnaðarsetur Marel í Boxmeer til
að auka skilvirkni og bæta nýtingu. Aðgerðin gerir félagið að auki betur í
stakk búið til að takast á við sveiflur í rekstrinum og í eftirspurn eftir
mismunandi vörum í mismunandi iðnuðum. 

Frá því að áætluninni um einfaldara og skilvirkara Marel var hleypt af
stokkunum og til loka fyrsta ársfjórðungs 2015 og að teknu tilliti til þeirra
atburða sem eru nefndir hér að ofan er heildarkostnaður til greiðslu vegna
hagræðingaraðgerða  12 milljónir evra en kostnaður í rekstrarreikningi fyrir
sama tímabil er 27 milljónir evra. 

Marel gerir ráð fyrir áframhaldandi innri vexti 2015 og góðri aukningu í 
rekstrarhagnaði og afkomu eftir skatt. Megináherslan er sem fyrr, á aukna
skilvirkni í markaðssókn og rekstri með það að markmiði að rekstrarhagnaður
ársins 2017 verði yfir 100 
milljónum evra.


Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:"Við erum ánægð með niðurstöðu fyrsta ársfjórðungs 2015. Með markvissri
markaðssókn og sterku vöruframboði höfum við náð að nýta okkur þann meðbyr sem
nú ríkir á mörkuðum Marel. Í kjölfarið sjáum við áframhaldandi aukningu í  sölu
með góðum afkomubata. 


Gott jafnvægi er á milli uppbyggingarverkefna fyrir viðskiptavini (e.
Greenfield) og  endurnýjunarverkefna og vöxtur er í þjónustutekjum. Við höfum
fjárfest vel í nýsköpun og við  kynnum stöðugt til sögunnar nýjar og spennandi
lausnir sem gera kjúklinga-, kjöt- og fiskframleiðendum kleift að draga úr sóun
og minnka notkun á vatni og rafmagni sem gerir framleiðslu matvæla sjálfbærari
til framtíðar. 

Öll iðnaðarsetur okkar, kjöt, fiskur, kjúklingur og áframvinnsla, skila nú
betri rekstrarniðurstöðu. Ég vil þakka öllum starfsmönnun Marel fyrir þeirra
framlag. Á sama tíma og við erum að hagræða og einfalda reksturinn hefur okkur
tekist að styrkja samstarf við viðskiptavini okkar og afla nýrra viðskiptavina.
Markmið okkar er alltaf það sama, að auka virði viðskiptavina og hluthafa.“ 


Heimild til kaupa á eigin hlutabréfum
Stjórn Marel hefur veitt stjórnendum félagsins heimild til að kaupa allt að 25
milljónir hluta í Marel fyrir hönd félagsins. Viðskiptin geta átt sér stað í
einu eða fleiri skrefum og gildir heimildin út árið 2015. Hlutirnir eru ætlaðir
sem endurgjald í mögulegum fyrirtækjakaupum. Fyrirtækjakaup eru eftir sem áður
háð samþykki stjórnar Marel. 


Einfaldara og skilvirkara Marel
Tveggja ára áætlun um einfaldara og skilvirkara Marel (e. Simpler, Smarter,
Faster) gengur eins og ráðgert var. Markmiðið er að gera markaðssókn
skilvirkari, mæta þörfum viðskiptavina með skilvirkari hætti og lækka
kostnaðargrunn  félagsins. Sérstök áhersla er lögð á hámörkun í
framleiðslukerfinu og aukna skilvirkni í nýsköpun og vöruþróun. 

Hámörkun framleiðslukerfisins gengur samkvæmt áætlun. Á fyrsta ársfjórðungi
2015 var tilkynnt um hagræðingaraðgerðir í Singapúr, Danmörku, Bandaríkjunum og
Bretlandi auk þess sem tilkynnt var um sölu á einingu sem stendur utan
kjarnastarfsemi á Spáni. Marel gekk frá samkomulagi um sölu á starfsemi sinni í
háhraða skurðartækni í febrúar en gengið var frá sölunni í apríl. 

Frá því að áætlunin um einfaldara og skilvirkara Marel var hleypt af stokkunum
og til loka fyrsta ársfjórðungs 2015 að teknu tilliti til þeirra atburða sem
hafa átt sér stað í apríl 2015 er heildarkostnaður til greiðslu vegna
hagræðingaraðgerða í 12 milljónir evra en kostnaður í rekstrarreikningi er
fyrir sama tímabil í 27 milljónir evra. Áætlaður heildarkostnaður til greiðslu
vegna hagræðingaraðgerða er 25 milljónir evra á tímabilinu 2014-2015 en
kostnaður í rekstrarreikningi er ekki að fullu ljós á þessum tímapunkti. 


Aðgerðir til hagræðingar í rekstri á fyrsta ársfjórðungi 2015:


• Marel hættir eigin framleiðslu á frystum í Singapúr. Marel mun í samstarfi
við  Heinen og VDL sem eru leiðandi framleiðendur á frystum áfram bjóða frysta
í vörulínum sínum sem styðja við  heildarlausnir Marel fyrir  fisk-, kjöt- og
kjúklingaframleiðendur. 
• Endurskipulagning á starfsemi í Bandaríkjunum. Framleiðslustarfsemi Marel í
Des Moines, Iowa verður sameinuð starfseiningu félagsins í Gainesville,
Georgíu. Á sama tíma verður fjárfest í nýrri nýsköpunarmiðstöð í Des Moines.
Aðgerðinni verður að fullu lokið fyrir árslok 2015. 
• Endurskipulagning á starfsemi í Danmörku. Starfsemi Marel í Borgundarhólmi
verður flutt til Árósa. Aðgerðinni verður að fullu lokið fyrir árslok 2015. 
• Sala á einingu  utan kjarnastarfsemi á Spáni. Félagið Stork Inter Iberica var
selt til Fjárfestingasjóðs. 
• Endurskipulagning á starfsemi í Bretlandi. Starfsemi Marel í háhraða
skurðartækni var seld til Middleby Corporation. Aðrir vöruflokkar sem heyra
undir starfsemi félagsins í Norwich, þ.e. mótunarvélar og þjarkar voru ekki
hluti af sölunni þar sem þeir falla undir kjarnastarfsemi Marel og styðja við
vöruframboð og stefnu félagsins. 


Starfsemi eininga í Singapúr, Spáni og Bretlandi sem nú hefur verið hætt
skilaði tekjum í kringum 30 milljónum evra árið 2014. Starfsemin skilaði
lítilli framlegð og neikvæðri rekstrarafkomu. Tekjur þeirrar starfsemi sem nú
hefur verið hætt skilaði 6 milljónum evra í tekjur á fyrsta ársfjórðungi  2015
og var staða pantana hjá þessari starfsemi 4 milljónir evra í lok fyrsta
ársfjórðungs 2015. 

Horfur
Marel gerir ráð fyrir áframhaldandi innri vexti 2015 og góðri aukningu í 
rekstrarhagnaði og afkomu eftir skatt. Megináherslan er sem fyrr, á aukna
skilvirkni í markaðssókn og rekstri með það að markmiði að rekstrarhagnaður
ársins 2017 verði yfir 100 milljónum evra. 

Til meðal og lengri tíma litið, telur Marel að nýsköpun og sterk markaðsstaða
um allan heim í öllum iðnuðum félagsins muni skila góðum vexti og aukinni
arðsemi. Framtíðarhorfur eru góðar og gert er ráð fyrir því að markaðsvöxtur
nemi 4-6% á næstu árum. Markmið Marel er að halda áfram að vaxa hraðar en
markaðurinn. 

Engu að síður má gera ráð fyrir að afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga
vegna efnahagsþróunar á heimsvísu, sveiflna í pöntunum og tímasetningar stærri
verkefna.