2016-08-25 20:04:52 CEST

2016-08-25 20:04:52 CEST


BIRTINGARSKYLDAR UPPLÝSNINGAR

Enska Íslenska
Eimskipafélag Íslands hf. - Ársreikningur

EIMSKIP: EBITDA hækkaði um 21,6% á öðrum ársfjórðungi 2016


Hagnaður eftir skatta hækkaði um 58,7%


  -- Rekstrartekjur námu 126,1 milljón evra, drógust saman um 0,5 milljónir evra
     eða 0,4%
  -- Flutt magn í áætlunarsiglingum jókst um 9,1% og tekjur hækkuðu um 4,9
     milljónir evra
  -- Flutningsmagn í flutningsmiðlun dróst saman um 1,2% og tekjur lækkuðu um
     5,4 milljónir evra vegna áhrifa af lækkandi verðum í alþjóðlegri
     flutningsmiðlun
  -- EBITDA nam 16,2 milljónum evra samanborið við 13,3 milljónir evra og jókst
     um 21,6%
  -- Hagnaður nam 8,8 milljónum evra samanborið við 5,5 milljónir evra og jókst
     um 58,7%
  -- Eiginfjárhlutfall var 62,0% og nettóskuldir námu 31,4 milljónum evra í lok
     júní
  -- Afkomuspá ársins 2016 er óbreytt, eða EBITDA á bilinu 49 til 53 milljónir
     evra

GYLFI SIGFÚSSON FORSTJÓRI

„Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, EBITDA, nam 16,2 milljónum evra á öðrum
ársfjórðungi 2016 og hækkaði um 21,6% samanborið við sama tímabil í fyrra.
Rekstrartekjur fjórðungsins voru 126,1 milljón evra og drógust saman um 0,4%.
Flutningsmagn í áætlunarsiglingum félagsins á Norður-Atlantshafi jókst um 9,1%
frá öðrum ársfjórðungi síðasta árs. Tekjur af áætlunarsiglingum hækkuðu um 4,9
milljónir evra. Góður vöxtur var í flutningum tengdum Íslandi og Noregi, en
samdráttur var í Færeyjum. Tekjur af flutningsmiðlun drógust saman um 5,4
milljónir evra vegna áhrifa af lækkandi verðum í alþjóðlegri flutningsmiðlun.
Magn í flutningsmiðlun dróst saman um 1,2% samanborið við sama tímabil í fyrra.
Stafar breytingin einkum af samdrætti í frystiflutningsmiðlun frá Kína, en
aðrir markaðir hafa verið í vexti. 

Vegna breytinga á siglingakerfi, hagræðingarverkefna, aukins kostnaðaraðhalds
og lækkandi verðs í alþjóðlegri flutningsmiðlun dróst rekstrarkostnaður að
meðtöldum launakostnaði saman um 3,0% á fjórðungnum og er það góður árangur í
ljósi mikilla kostnaðarhækkana vegna kjarasamninga á Íslandi. 

Jákvæður viðsnúningur á gengismun nam 2,1 milljón evra á fjórðungnum og var
hagnaður eftir skatta 8,8 milljónir evra, sem er vöxtur um 58,7% frá öðrum
ársfjórðungi 2015. Handbært fé frá rekstri nam 15,7 milljónum evra á
fjórðungnum samanborið við 11,8 milljónir evra á sama tímabili í fyrra og nam
handbært fé 47,5 milljónum evra í lok júní. Þetta er besti árangur sem náðst
hefur á öðrum ársfjórðungi í rekstri félagsins frá árinu 2009 hvað varðar
EBITDA, EBIT, hagnað og handbært fé frá rekstri. 

Rekstrartekjur félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins námu 239,4 milljónum evra
og voru óbreyttar á milli ára. EBITDA tímabilsins nam 25,8 milljónum evra og
jókst um 6,7 milljónir eða 35,2% evra frá sama tímabili í fyrra. Hagnaður
tímabilsins jókst um 50,6% og nam 10,6 milljónum evra. Flutt magn í
áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 8,6% samanborið við fyrstu sex
mánuði fyrra árs og magn í flutningsmiðlun jókst um 2,2%. 

Eimskip og grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line undirrituðu í maí
viljayfirlýsingu um að tengja Grænland við alþjóðlegt siglingakerfi Eimskips.
Félögin hafa frá þeim tíma unnið að því að móta og meta mögulegt samstarf um
fjárfestingu í gámaskipum og samtengingu siglingakerfa. Verkefnið gengur
samkvæmt áætlun og gerum við ráð fyrir að ákvörðun liggi fyrir fljótlega. 

Frá því í maí hefur undirbúningur fjárfestingarverkefna gengið vel og Eimskip
stefnir að því að ljúka á þriðja og fjórða ársfjórðungi kaupum á nokkrum
fyrirtækjum í Evrópu sem falla undir okkar kjarnastarfsemi. Félagið er nú í
samstarfi við alþjóðleg lögfræði- og endurskoðunarfyrirtæki til að ljúka
áreiðanleikakönnunum. 

Eins og áður hefur komið fram er það áfram markmið okkar að vaxa, bæði með
innri vexti og með kaupum á  fyrirtækjum sem falla að starfsemi félagsins og
auka virði þess. Við munum halda áfram á sömu braut í að vinna að fjárfestingum
í fyrirtækjum og skipum. Við munum ekki auka hlutafé til að ljúka mögulegum
fjárfestingum en munum hins vegar nota handbært fé og auka lántökur til að koma
skuldsetningu fyrirtækisins í eðlilegra horf, þó þannig að efnahagsreikningur
félagsins verði áfram sterkur. 

Horfur um þriðja ársfjórðung eru í samræmi við okkar væntingar og er afkomuspá
fyrir árið 2016 óbreytt frá því sem kynnt var í maí, eða EBITDA á bilinu 49 til
53 milljónir evra.“ 

FREKARI UPPLÝSINGAR

  -- Gylfi Sigfússon forstjóri, sími: 525 7202
  -- Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs,
     sími: 525 7202
  -- Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla, sími: 825 7220, netfang:
     investors@eimskip.is