2017-05-23 19:19:35 CEST

2017-05-23 19:19:35 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Eimskipafélag Íslands hf. - Ársreikningur

Tekjuvöxtur 29,7% á fyrsta ársfjórðungi 2017


EBITDA 9,3 milljónir evra, mikill innri vöxtur og góður árangur nýrra
fyrirtækja en sjómannaverkfall hafði neikvæð áhrif 


  -- Tekjur námu 146,9 milljónum evra, hækkuðu um 33,7 milljónir evra eða 29,7%
     frá Q1 2016
     -- Magn í áætlunarsiglingum jókst um 3,0% og tekjur hækkuðu um 8,9
        milljónir evra eða 10,7%
     -- Magn í flutningsmiðlun jókst um 28,9% og tekjur hækkuðu um 24,8
        milljónir evra eða 82,6%, aðallega vegna nýrra félaga
  -- EBITDA nam 9,3 milljónum evra, dróst saman um 0,3 milljónir evra eða 3,3%
     frá Q1 2016
     -- Aðlöguð EBITDA nam 11,6 milljónum evra og jókst um 20,5% að teknu
        tilliti til verkfallsins á Íslandi (1,5 milljónir evra) og annarra
        einskiptisliða (0,8 milljónir evra)
  -- Hagnaður nam 0,2 milljónum evra samanborið við 1,8 milljóna evra hagnað í
     Q1 2016
  -- Eiginfjárhlutfall var 56,6% og nettóskuldir námu 50,4 milljónum evra í lok
     mars
  -- Afkomuspá ársins 2017 er óbreytt, EBITDA á bilinu 57 til 63 milljónir evra

Gylfi Sigfússon forstjóri

„Rekstrartekjur Eimskips á fyrsta ársfjórðungi 2017 jukust um 29,7% samanborið
við sama tímabil í fyrra og námu 146,9 milljónum evra. Vöxturinn skýrist þannig
að 18,2% er vegna nýrra fyrirtækja í samstæðunni og 11,5% vegna innri vaxtar,
þrátt fyrir sjómannaverkfallið hér á landi sem hafði áhrif á flutt magn frá
landinu. Innri vöxtur er tilkominn vegna vaxtar í flutningsmagni og hækkandi
verða á alþjóðaflutningamarkaði. 

Sjómannaverkfallið, sem stóð yfir frá 15. desember 2016 til 19. febrúar 2017,
hafði neikvæð áhrif á flutt magn af fiski og tengdri þjónustu. EBITDA nam 9,3
milljónum evra samanborið við 9,6 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.
Neikvæð áhrif verkfallsins á EBITDA námu 1,5 milljónum evra. Stjórnvaldssekt
Fjármálaeftirlitsins að fjárhæð 0,4 milljónir evra, sem Eimskip er ósammála og
mun vísa til dómstóla, var gjaldfærð á fjórðungnum og kostnaður tengdur kaupum
á nýjum fyrirtækjum nam 0,4 milljónum evra. Að teknu tilliti til þessara
einskiptisliða nam aðlöguð EBITDA 11,6 milljónum evra og hækkaði um 20,5% á
milli ára. Rekstur nýju félaganna Mareco og Extraco gengur vel og er í samræmi
við væntingar okkar, en hlutdeild þeirra í EBITDA fjórðungsins nam 1,5
milljónum evra. Að teknu tilliti til verkfallsins og annarra einskiptisliða
skilaði innri vöxtur starfseminnar 3,8% aukningu EBITDA, þrátt fyrir aukinn
kostnað vegna aukinnar afkastagetu siglingakerfis félagsins og minna
flutningsmagns í Noregi. 

Rekstrargjöld hækkuðu um 32,8% samanborið við fyrsta ársfjórðung 2016. Þar af
hækkuðu laun og launatengd gjöld um 19,6%, einkum vegna styrkingar íslensku
krónunnar. Hækkun skýrist einkum af nýjum fyrirtækjum í samstæðunni,
launakostnaði, hærri flutningsgjöldum frá alþjóðlegu skipafélögunum, hærri
olíukostnaði, vexti í afkastagetu siglingakerfisins og ofangreindum
einskiptisliðum. Hagnaður fjórðungsins nam 0,2 milljónum evra samanborið við
1,8 milljónir evra í fyrra, einkum vegna 1,0 milljónar evra hækkunar á
afskriftum vegna aukinna fjárfestinga. 

Tekjur af áætlunarsiglingum félagsins námu 92,1 milljón evra á fjórðungnum og
hækkuðu um 8,9 milljónir evra eða 10,7%. Magn í áætlunarsiglingum jókst um 3,0%
samanborið við sama tímabil í fyrra. EBITDA af áætlunarsiglingum dróst saman um
2,5 milljónir evra á fjórðungnum, aðallega vegna verkfallsins og annarra
einskiptisliða hér að ofan sem námu alls 2,3 milljónum evra. Rekstur
flutningsmiðlunar gekk vel, en magn jókst um 28,9% og tekjur námu 54,8
milljónum evra og hækkuðu um 24,8 milljónir evra eða 82,6%. Ný félög í
samstæðunni skýra 69,4% af tekjuvextinum en 13,2% koma frá annarri
flutningsmiðlunarstarfsemi. EBITDA af flutningsmiðlun hækkaði um 113,1%, en
79,6% voru vegna nýrra fyrirtækja og 33,5% vegna innri vaxtar. 

Eimskip og Royal Arctic Line á Grænlandi undirrituðu í janúar samkomulag um
samstarf, en það er háð kynningu og staðfestingu frá viðeigandi yfirvöldum ef
við á. Eimskip undirritaði á sama tíma samning við skipasmíðastöð í Kína um
smíði á tveimur 2.150 gámaeininga skipum með ísklassa og Polar Code sem
uppfylla munu kröfur um nýja umhverfisstaðla. Gert er ráð fyrir að skipin verði
afhent á árinu 2019. Samningsverð hvors skips nemur um 32 milljónum dollara þar
sem 40% eru greidd á meðan á smíði stendur og 60% við afhendingu. Eimskip
tryggði í apríl 80% fjármögnun af smíðaverði skipanna frá þýska bankanum KfW
IPEX-Bank GmbH, en lánið er í evrum, til 15 ára og á mjög hagstæðum
vaxtakjörum. Royal Arctic Line undirritaði einnig samning um smíði á einu
sambærilegu skipi við sömu skipasmíðastöð. 

Eimskip keypti 80% hlut í flutningsmiðlunarfyrirtækinu Mareco í Belgíu í
janúar. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Antwerpen, það hefur starfsstöð í Sao
Paulo í Brasilíu og er sérhæft í frystiflutningsmiðlun, einkum til Vestur-,
Mið- og Suður-Afríku. Helstu vörutegundir eru sjávarafurðir, kjúklingur,
svínakjöt og nautakjöt. Mareco flytur um 32 þúsund gámaeiningar á ári og eru
áætlaðar árstekjur þess um 60 milljónir evra. 

Snemma í apríl tilkynnti Eimskip um kaup á 51% hlut í CSI Group LLC sem er með
höfuðstöðvar í Boston í Bandaríkjunum fyrir um 1,0 milljón evra. Kaupin styrkja
stöðu Eimskips á markaði með gáma þar sem CSI er sérhæft í viðskiptum með gáma.
Árstekjur CSI nema um 5,0 milljónum evra með um 10% EBITDA hlutfalli. 

Þann 3. apríl 2017 höfnuðu norsk samkeppnisyfirvöld kaupum Eimskips á norska
flutningafyrirtækinu Nor Lines AS. Eimskip mun halda áfram að leita leiða til
að styrkja starfsemi sína í Noregi. 

Eimskip vinnur áfram að innri vexti og kaupum á fyrirtækjum sem falla að
starfsemi félagsins og auka virði þess. Félagið mun því halda áfram að meta
nýja kosti í fjárfestingum á fyrirtækjum og skipum. 

Fyrsti ársfjórðungur var í samræmi við væntingar okkar eins og kynnt var við
útgáfu ársuppgjörs 2016 í febrúar, þar með talið áætluð áhrif
sjómannaverkfallsins hér á landi. Fyrsti ársfjórðungur er venjulega sá
fjórðungur sem skilar lægstri framlegð í rekstri félagsins. Afkomuspá Eimskips
fyrir árið 2017 er óbreytt frá því sem kynnt var í febrúar og er EBITDA á
bilinu 57 til 63 milljónir evra.“ 

Frekari upplýsingar

  -- Gylfi Sigfússon forstjóri, sími: 525 7202
  -- Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs,
     sími: 525 7202
  -- Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla, sími: 825 7220, netfang:
     investors@eimskip.is