2014-03-20 19:46:21 CET

2014-03-20 19:47:30 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Arion Bank hf. - Fyrirtækjafréttir

Aðalfundur Arion banka 2014


Aðalfundur Arion banka 2014 var haldinn síðdegis í dag, fimmtudaginn 20. mars,
í höfuðstöðvum bankans í Borgartúni. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin
aðalfundarstörf þar sem ársreikningur bankans var samþykktur. Breytingar á
launum stjórnar voru samþykktar. Einnig var starfskjarastefna bankans samþykkt.
Jafnframt var ákveðið að Ernst & Young hf. gegni áfram hlutverki sínu sem
endurskoðandi bankans. 

Á fundinum voru eftirfarandi kjörnir í stjórn bankans: Benedikt Olgeirsson,
Björgvin Skúli Sigurðsson, Guðrún Johnsen, Kirstín Þ. Flygenring, Måns Höglund,
Monica Caneman og Þóra Hallgrímsdóttir. Þannig skipa konur meirihluta stjórnar,
eru fjórar af sjö stjórnarmönnum. Kirstín er fulltrúi Bankasýslu ríkisins í
stjórninni, aðrir eru tilnefndir af Kaupskilum. 

Af þremur varamönnum í stjórn eru tvær konur, en varamenn í stjórn bankans voru
kjörnir Björg Arnardóttir, Sigurlaug Ásta Jónsdóttir og Ólafur Örn Svansson. 

Á fundinum var samþykkt tillaga stjórnar um að greiða út arð sem nemur um 60%
af hagnaði bankans eða 7,8 milljörðum króna vegna ársins 2013. 



Skýrsla stjórnar 2013

Monica Caneman, formaður stjórnar Arion banka, flutti skýrslu stjórnar. Monica
ræddi þá fjölmörgu áfanga sem náðust á árinu 2013 í starfi Arion banka. Meðal
annars opnun erlendra lánsfjármarkaða, en snemma á árinu 2013 tryggði bankinn
sér erlenda fjármögnun með vel heppnaðri útgáfu skuldabréfa í norskum krónum,
án sérstakra trygginga. Þar með var Arion banki fyrsti íslenski bankinn til að
sækja sér erlenda fjármögnun frá árinu 2007. Monica sagði útgáfuna vera lið í
því að auka fjölbreytni í fjármögnun bankans en einnig mikilvægt skref í að
gera bankann betur í stakk búinn til þess að þjónusta viðskiptavini sína. Að
auki gaf Arion banki út sértryggð skuldabréf á Íslandi, verðtryggð og
óverðtryggð. Þessu tengt ræddi Monica  lánshæfismat sem Arion banki fékk í
upphafi árs 2014 frá alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækinu Standard & Poor‘s
(S&P). Lánshæfismatið, BB+ með stöðugum horfum, opnar enn frekar aðgang bankans
að erlendum lánsfjármörkuðum. 

Í máli sínu ræddi Monica jafnframt þau verkefni stjórnvalda sem hún telur vera
mikilvægust í dag. Þau verkefni snúa að aukinni fjárfestingu, innlendri og
erlendri, og að afnámi gjaldeyrishafta. Að hennar mati hefur því miður helst
til lítið miðað í þessum efnum á undanförnu ári. Ennfremur sagði Monica: „Margt
í orðræðu og verkum stjórnvalda undanfarin misseri hefur ekki verið nægjanlega
vel til þess fallið að auka tiltrú innlendra og erlendra aðila á íslensku
efnahagslífi. Starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja, ekki síst
fjármálafyrirtækja, er enn of hverfult. Miklar breytingar hafa orðið á
lagaumhverfi fjármálafyrirtækja og er nýleg margföldun bankaskatts gott dæmi
þar um. Þar er um að ræða stórkostlega hækkun skatta sem ekki eru tengdir
tekjum eða afkomu, heldur skuldum. Vilji stjórnvöld að hér séu starfræktar
öflugar fjármálastofnanir sem eru burðugar og geta stutt við íslenskt
atvinnulíf, þarf að skapa meiri stöðugleika um starfsemi þeirra.“ 

 Sagði Monica það jákvætt að hún hefði orðið vör við góðan vilja núverandi
stjórnvalda, ásetning um samstarf og vilja til að styðja vel við íslenskt
atvinnulíf. Hún lagði ríka áherslu á að varðandi lagaumhverfi íslenskra
fjármálafyrirtækja væri mikilvægt að horfa til nágrannaríkja Íslands og
Evrópulanda og byggja á þeirri reynslu sem þar hefur skapast. Séríslenskt
regluverk væri óæskilegt því það skekkti samkeppnisstöðu íslenskra
fjármálafyrirtækja og atvinnulífs. Monica nefndi einnig í þessu sambandi að svo
virtist sem íslenskum fjármálafyrirtækjum væru settar þrengri skorður en
sambærilegum fyrirtækjum á Norðurlöndum þegar kemur að samstarfi, t.d. hvað
varðar innviði kerfisins. „Þannig förum við á mis við tækifæri til að draga úr
kostnaði í fjármálakerfinu öllu án þess að dregið yrði úr nauðsynlegri
samkeppni fyrirtækja á milli. Eru þessar þröngu skorður umhugsunarefni þar sem
mikilvægt verkefni íslenskra fjármálafyrirtækja er að draga úr kostnaði og er
allra hagur að það takist vel.“ 

Að lokum vék Monica að viðurkenningu fagtímaritsins The Banker, sem gefið er út
af The Financial Times. Fagritið tilnefndi Arion banka undir lok árs 2013 banka
ársins á Íslandi. Monica vakti líka athygli á því að þetta hafi verið í fyrsta
sinn síðan 2007 sem íslenskur banki fær slíka viðurkenningu frá tímaritinu. Það
beri þeim árangri sem náðst hefur hér á landi við uppbyggingu fjármálakerfisins
vott. Monica kom inn á rökstuðning tímaritsins fyrir valinu á Arion banka sem
banka ársins, en þar var minnst á góðan árangur undanfarinna ára sem og  þá
forystu sem bankinn hefur tekið á Íslandi þegar kemur að fjármögnun, framboði
íbúðalána, skuldaúrvinnslu og nýstárlegum þjónustuleiðum. Monica þakkaði
starfsfólki bankans sérstaklega fyrir þann mikla árangur sem hefur náðst á
undanförnum árum. 



Markmiðum náð

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, fjallaði um uppgjör bankans
fyrir árið 2013. Höskuldur telur afkomu ársins ágæta og í öllum meginatriðum í
takt við áætlanir. Höskuldur ræddi sérstaklega góðan stöðugleika í
kjarnastarfsemi bankans. Höskuldur sagði arðsemi upp á 9,2% viðunandi,
sérstaklega í ljósi stórhækkaðs bankaskatts, og sagði fjárhagslega stöðu
bankans sterka með eiginfjárhlutfall upp á 23,6%. 

Jávætt var að mati Höskuldar að ný útlán Arion banka á árinu 2013 námu 120
milljörðum króna og er þar um að ræða 60% aukningu frá fyrra ári. 

Þó nokkuð sé um einskiptisatburði og virðisbreytingar á árinu hefur dregið úr
áhrifum þeirra á afkomu bankans. Hrein áhrif slíkra þátta á afkomu ársins eru
neikvæð og er arðsemi af reglulegri starfsemi 10,5%, eða 1,3 prósentustigum
hærri en arðsemi ársins. 

Höskuldur kom einnig inn á jákvæðar breytingar á lánasafni Arion banka sem fela
í sér minni áhættu í rekstri bankans. Í lok árs 2013 námu lán til einstaklinga
um 49% af lánum til viðskiptavina og er það að mati Höskuldar ákjósanleg staða
og nokkuð sem unnið hefur verið að innan bankans á undanförnum árum. Árið 2010
var hlutfall einstaklingslána aðeins um 25% af útlánum bankans til
viðskiptavina. Stærstu áfangarnir í þessari þróun eru annars vegar yfirtaka á
lánasöfnum Dróma, Frjálsa og Hildu undir lok árs 2013 og hins vegar kaup
bankans á íbúðalánasafni Kaupþings árið 2011. Höskuldur sagði að stefnt hafi
verið að því að ná þessu jafnvægi í lánasafni bankans m.a. vegna þess að lán
til einstaklinga eru almennt vel tryggð og fela í sér minni áhættu fyrir
bankann. Íbúðalánamarkaðurinn er mikilvægur markaður fyrir Arion banka og hefur
verið lögð rík áhersla á undanförnum árum á nýjungar og að bjóða viðskiptavinum
bankans góð kjör og spennandi lánamöguleika. 

Höskuldur ræddi einnig breytingar sem urðu á árinu á fjármögnun Arion banka.
Aukin fjölbreytni og gæði eru nú í fjármögnun bankans í kjölfar annars vegar
útgáfu nýrra skuldabréfa, bæði hér á landi og erlendis, og hins vegar
markvissrar vinnu við að auka bindingu innlána. Höskuldur sagði að þrátt fyrir
að ekki hefði verið til staðar fjármögnunarþörf hefði verið mikilvægt að ráðist
í þessar breytingar á fjármögnuninni til að treysta til framtíðar þennan
mikilvæga grunn í starfsemi bankans. Breytingarnar eru til þess fallnar að
draga úr áhættu í starfsemi bankans. Minni áhætta í kjölfar hærra hlutfalls
einstaklingslána og aukinna gæða í fjármögnun endurspeglast í lægri vaxtamun,
sem var 2,9% á árinu. 

Í máli sínu kom Höskuldur einnig inn á verulega aukningu á opinberum álögum sem
settu mark sitt á uppgjör bankans fyrir árið 2013. Vegna rekstrar ársins mun
Arion banki greiða 6,6 milljarða króna í skatta og þar af um 2,9 milljarða
vegna bankaskatts, sem margfaldaður var undir lok árs 2013. Bankaskatturinn
leggst á skuldir fjármálafyrirtækja sem að mestu eru innlán viðskiptavina. Í
lok árs 2013 námu innlán viðskiptavina Arion banka tæpum 472 milljörðum króna
eða um 60% af skuldum bankans. 

Höskuldur  sagði að lokum að á árinu hefði verið lögð rík áhersla á að draga úr
kostnaði sem og almennt aðhald í rekstri og að markmiðum bankans hefði verið
náð. Áfram yrði áhersla á rekstrarkostnað bankans með það að markmiði að ná
fram auknu hagræði í rekstrinum. 



Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs
Arion banka, 
s.856 7108, haraldur.eidsson@arionbanki.is.