2024-07-08 11:28:00 CEST

2024-07-08 11:28:02 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Icelandair Group hf. - Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Icelandair: Tvær milljónir farþega á fyrri helmingi ársins


Icelandair flutti 514 þúsund farþega í júní, 1% færri en í júní í fyrra. Þar af voru 31% á leið til Íslands, 15% frá Íslandi, 49% voru tengifarþegar og 4% ferðuðust innanlands. Sætanýting var 83% og stundvísi var 85,2%, 14,5 prósentustigum meiri en í fyrra.

Það sem af er ári hefur Icelandair flutt tvær milljónir farþega, 7% fleiri en á sama tímabili í fyrra. Eftirtektarverð breyting hefur orðið í skiptingu á milli markaða en tengifarþegum fjölgaði um 15% í júní á meðan farþegum til landsins hefur fækkað á milli ára. Þetta sýnir sveigjanleika leiðakerfisins sem gerir félaginu kleift að auka áhersluna á aðra markaði þegar breytingar verða í eftirspurn. Nú, þegar minni eftirspurn er eftir ferðum til Íslands, hefur félagið fjölgað tengifarþegum umtalsvert.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Farþegafjöldi okkar í júní var svipaður og í fyrra en eftirspurn eftir ferðum til landsins hefur minnkað, samanborið við síðasta ár. Nú sem fyrr höfum við nýtt sveigjanleikann í leiðakerfinu og lagt aukna áherslu á tengifarþega, en um helmingur farþega okkar í júní eru tengifarþegar á leiðinni á milli Evrópu og Norður-Ameríku.

Icelandair er lítið flugfélag í mikilli alþjóðlegri samkeppni á Norður-Atlantshafsmarkaðnum. Það var því áhugavert að sjá nýlega greiningu sem leiddi í ljós að við erum það flugfélag sem flýgur flestar ferðir yfir Atlantshafið á mjóþotum. Í þessu liggur einmitt eitt helsta samkeppnisforskot okkar. Við nýtum landfræðilega legu Íslands til þess að bjóða upp á tíðar ferðir á milli yfir 50 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku með millilendingu á Íslandi á minni og hagkvæmari þotum en mörg félög sem við erum í samkeppni við geta gert. Þannig getum við hafið flug á áfangastaði sem hafa fáar alþjóðlegar tengingar fyrir og boðið bestu leiðirnar yfir Atlantshafið. Nýleg dæmi um áfangastaði sem hafa gengið sérstaklega vel eru Raleigh-Durham, Detroit og Pittsburgh í Bandaríkjunum.

Það er mjög ánægjulegt að sjá áframhaldandi góða stundvísi og þann frábæra árangur sem við höfum náð með sameiginlegu átaki alls starfsfólks. Stundvísi er mjög mikilvægur þáttur í þeirri auknu ánægju viðskiptavina sem við höfum séð í öllum helstu ánægjumælingum.“