2007-11-30 10:45:24 CET

2007-11-30 10:45:24 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
FL GROUP hf. - Fyrirtækjafréttir

FL Group selur í AMR


FL Group hefur selt stærstan hluta eignar sinnar í AMR, móðurfélagi American
Airlines. Sala bréfanna er í samræmi við stefnu FL Group að auka fjölbreytni
eignasafns síns og mun félagið í kjölfarið skoða áhugaverð fjárfestingatækifæri
á markaði. Sala hlutarins styrkir sjóðsstöðu FL Group um 10 milljarða króna. 

Frá því að FL Group hóf að fjárfesta í AMR í lok árs 2006 hefur rekstur
félagsins verið með miklum ágætum og tekið stakkaskiptum frá fyrri árum. FL
Group sendi opinbert bréf til stjórnar AMR í september, þar sem það kynnti
tillögur sínar um hvernig mætti auka virði félagsins, m.a. með sölu
vildarklúbbs félagsins og aukinni upplýsingagjöf. Í kjölfarið fór af stað mikil
fjölmiðlaumræða í Bandaríkjunum; um væntanlega samþjöppun á markaði, aukna
upplýsingagjöf til fjárfesta og sölu eininga sem ekki falla undir
kjarnastarfsemi flugfélaganna. Umræðan leiddi einnig til þess að aðrir
hluthafar AMR og annarra flugfélaga stigu fram með svipaðar áherslur. Þann 28.
nóvember síðastliðinn tilkynnti AMR um fyrirhugaða sölu á dótturfélagi sínu,
American Eagle, sem áætlað er að ljúki á næsta ári. 

Umfjallanir greiningaraðila í Bandaríkjunum hafa að miklu leyti verið í samræmi
við áherslur FL Group, sem telja falin tækifæri liggja í rekstri AMR. Hinsvegar
hafa hlutabréf í félaginu lækkað umtalsvert á árinu en þá lækkun má að mestu
skýra með mikilli hækkun olíuverðs og spám markaðsaðila um minni hagvöxt í
Bandaríkjunum. Til að mynda hefur hráolíuverð í Bandaríkjunum hækkað um 60% á
árinu. 
 
Þrátt fyrir að jákvæð skref hafi verið stigin af hálfu stjórnar AMR til að auka
virði hluthafa félagsins og jákvæða umræðu í Bandaríkjunum, telur FL Group að
of mikil óvissa ríki um þau áform og hvenær þeim yrði hrint í framkvæmd. Auk
þess eru blikur á lofti um áframhaldandi hækkun olíuverðs og hugsanlegan
samdrátt í bandarísku efnahagslífi. Í því ljósi var það ákvörðun félagsins að
selja megnið af hlut sínum í AMR og skoða aðra fjárfestingakosti á markaði í
kjölfarið. 

Fjárhagsleg áhrif
Í lok þriðja ársfjórðungs var markaðsvirði hlutar FL Group í AMR um 31,2
milljarðar króna. Á árinu 2007 hefur eignin lækkað um 15 milljarða króna, þar
af hafa um 13 milljarðar nú þegar verið gjaldfærðir á fyrstu níu mánuðum
ársins. Eftir söluna á félagið um 1,1% eignarhlut í AMR. 


Frekari upplýsingar veitir:

Halldór Kristmannsson
Framkvæmdastjóri Samskiptasviðs 
Sími: 591 4400 / 669 4476
Póstfang: halldor@flgroup.is 


 
Um FL Group
FL Group er alþjóðlegt fjárfestingafélag með áherslu á þrjú fjárfestingasvið,
FIG, Private Equity og Capital Markets.  FIG hefur umsjón með
áhrifafjárfestingum í fjármálafyrirtækjum og tryggingafélögum.  Private Equity
heldur utan um óskráðar eignir ásamt skráðum eignum sem falla að
fjárfestingarstefnu félagsins.  Capital Markets svið félagsins hefur umsjón með
markaðsviðskiptum sem lúta að skammtíma fjárfestingum sem og framkvæmd afleiðu-
og verðbréfaviðskipta tengdum eignasafni félagsins 
Höfuðstöðvar FL Group eru í Reykjavík en félagið er einnig með skrifstofur í
London og Kaupmannahöfn. FL Group fjárfestir í félögum um allan heim en leggur
sérstaka áherslu á fjárfestingar í Evrópu. FL Group er skráð á OMX Nordic
Exchange í Reykjavík (OMX: FL) og hluthafar félagsins eru rúmlega 4.000
talsins. 

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu FL Group, www.flgroup.is.