2011-01-10 18:58:48 CET

2011-01-10 18:59:47 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Icelandair Group hf. - Fyrirtækjafréttir

Icelandair Group hf. - Mikil farþegafjölgun hjá Icelandair 2010 og sætanýting sú besta í sögunni




  --  1,5 milljónir farþega á árinu 2010, 14.4% fleiri en 2009.
  --  78,4% sætanýting 2010, sú besta í sögu Icelandair
  --  Stefnt að miklum vexti árið 2011
  --  Bókanir ferðamanna til Íslands á fyrsta ársfjórðungi nú 10% fleiri en á
      sama tíma á síðasta ári

Sætanýting Icelandair í reglulegu áætlunarflugi á síðasta ári var sú besta í
sögu félagsins eða 78,4%, sem er 3,4 prósentustigum betri en árið á undan þegar
hún var 75%. Sætanýting hefur farið batnandi á undanförnum árum með nákvæmari
stýringu og eftirliti. 

Framboð Icelandair var aukið um 14% á síðasta ári og farþegum fjölgaði í heild
um 14,4% eða um 200 þúsund manns, úr 1,3 milljónum árið 2009 upp í 1,5
milljónir árið 2010. 

Icelandair skiptir farþegum sínum gjarnan eftir þremur mörkuðum, þ.e. ferðamenn
á leið til Íslands, Íslendinga á leið til útlanda og farþega á leið milli
Evrópu og Norður-Ameríku með viðkomu á Keflavíkurflugvelli. Á árinu 2010 varð
umtalsverð breyting á hlutföllum milli þessara þriggja markaðshópa. Farþegar
til Íslands og frá Íslandi voru ámóta margir og árið á undan, en farþegum á
leið um Keflavíkurflugvöll milli heimsálfanna fjölgaði um 51% og voru tæplega 
40% af heildinni. 

“Þetta eru jákvæðar tölur og staðfesting á góðum árangri frábærs starfsfólks
félagsins á síðasta ári. Afleiðingar eldgossins reyndu verulega á sveigjanleika
og rekstur Icelandair á árinu en við tókum þeirri áskorun og styrktum stöðu
okkar, og þar skipti Inspired by Iceland átakið miklu máli”, segir Birkir Hólm
Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. 

Á þessu ári mun Icelandair auka framboð sitt um 17% frá síðasta ári og ef að
líkum lætur mun farþegum fjölga um 250 þúsund og fara í rúmlega 1,7 milljónir,
og verða fleiri en nokkru sinni áður. 

“Við fylgjum ákveðinni stefnu um vöxt þar sem við sjáum nú tækifæri á
markaðinum milli Evrópu og Norður Ameríku sem við ætlum okkur að grípa. Nú er
eftirspurn sterk og framboð hlutfallslega minna en oft áður, annars vegar vegna
þess að bæði Airbus og Boeing hafa lent á vandræðum með framleiðslu nýrra
flugvéla og hins vegar vegna þess að mikill vöxtur í Asíu togar til sín
flugvélar frá okkar samkeppnismörkuðum. Þetta mun breytast og vöxturinn árið
2012 verður væntanlega mun minni en á þessu ári”, segir Birkir. 

Icelandair hefur tryggt sér 13 Boeing 757 flugvélar fyrir farþegaflugið á næsta
sumri og lokaákvörðun verður tekin um hvort þeirri fjórtándu verður bætt í
flotann nú um mánaðamótin næstu þegar bókunarstaða annars vegar og áform um
skatta- og gjaldahækkanir hins vegar hafa skýrst nánar. 

“Bókunarstaðan nú í byrjun árs er í heild góð og við sjáum m.a. 10% fleiri
bókanir ferðamanna til Íslands nú á fyrsta ársfjórðungi.  Icelandair er nú með
auglýsingaherferðir í gangi á öllum helstu mörkuðum okkar erlendis og
framhaldið veltur mikið á því hvernig til tekst á næstu vikum”, segir Birkir
Hólm Guðnason. 

Meðfylgjandi eru flutningatölur Icelandair Group fyrir desember 2010