2008-01-31 09:57:19 CET

2008-01-31 09:57:19 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Bakkavör Group hf. - Fyrirtækjafréttir

- Bakkavör Group kaupir bandarískt matvælafyrirtæki


Reykjavík, 31. janúar 2008. Bakkavör Group hefur keypt bandarískan
matvælaframleiðanda, Two Chefs on a Roll,  sem framleiðir fersk og frosin
tilbúin matvæli í Kaliforníu. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á kökum og
eftirréttum, súpum og ídýfum fyrir bandarískan markað. Kaupverðið er
trúnaðarmál. 

Two Chefs on a Roll var stofnað af matreiðslumönnunum Lori Daniel and Eliot
Swartz árið 1985 sem lítið heildsölufyrirtæki með eftirrétti. Í dag framleiðir
fyrirtækið hins vegar fjölbreytt úrval ferskra og frosinna tilbúinna matvæla
undir vörumerkjum viðskiptavina sinna og er með um 350 starfsmenn. Two Chefs on
a Roll er staðsett í Carson, Los Angeles, en nýverið opnaði fyrirtækið einnig
verksmiðju í Jessup  í Pennsylvaníu. Velta félagsins á nýliðnu ári var 2,4
milljarðar króna (38,6 milljónir bandaríkjadala). 

Fyrirtækið verður hluti af Bakkavör Group frá kaupdegi. Kaupin á Two Chefs on a
Roll, sem er fyrsta fjárfesting Bakkavarar í Bandaríkjunum, er langtímaverkefni
sem mun krefjast talsverðra fjárfestinga á næstu misserum. 

Ráðning forstjóra Bakkavör USA

Til að styðja við sókn félagsins inn á bandarískan markað hefur Bakkavör Group
stofnað nýtt dótturfélag, Bakkavör USA, og ráðið John Dutton sem forstjóra.
John Dutton hefur yfirgripsmikla reynslu af rekstri framleiðslufyrirtækja á
sviði ferskra tilbúinna matvæla eftir að hafa bæði byggt upp og stýrt
fjölmörgum fyrirtækjum í Bretlandi og á meginlandi Evrópu í yfir 25 ár. John
Dutton starfaði m.a. sem framkvæmdastjóri hjá Geest PLC sem og sat í stjórn
félagsins um 11 ára skeið, þar til hann stofnaði sitt eigið fyrirtæki, Rannoch
Foods,  árið 2002. Bakkavör Group keypti hluta Rannoch Foods á nýliðnu ári
þegar félagið keypti Exotic Farm Produce. 

Eftirspurn eftir ferskum tilbúnum matvælum eykst í Bandaríkjunum

Bandaríski markaðurinn fyrir fersk tilbúin matvæli er talinn vera yfir 1.240
milljarða króna (20 milljarða dala) virði og óx um 4,5% á milli ára. Áætlað er
að þessi markaður muni vaxa að meðaltali um 7% á ári næstu árin og að árið 2012
muni virði hans nema yfir 1.800 milljörðum króna (28,5 milljörðum dala). Líkt
og í Bretlandi leggja bandarískir neytendur í auknum mæli upp úr þægindum,
hollustu og gæðum matvæla, gegn sanngjörnu verði. Í samræmi við þá þróun eykst
eftirspurnin eftir ferskum tilbúnum matvælum hröðum skrefum í Bandaríkjunum. 

*Heimild: Packaged Facts


Ágúst Guðmundsson forstjóri:

„Við erum stolt af því að kynna upphaf starfsemi Bakkavarar í Bandaríkjunum með
kaupum á spennandi fyrirtæki á sviði tilbúinna matvæla, sem fellur vel að
stefnu félagsins. Two Chefs on a Roll er vel rekið fyrirtæki með öflugan hóp
stjórnenda. Við erum ánægð með að hafa fengið John Dutton aftur til liðs við
okkur til að leiða uppbyggingu félagsins í Bandaríkjunum en hann hefur mikla
þekkingu og reynslu af uppbyggingu og rekstri framleiðslufyrirtækja á þessu
sviði í Evrópu.“ 

 

Frekari upplýsingar veita:

Ágúst Guðmundsson, forstjóri
Sími: 550 9700

Hildur Árnadóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs
Sími: 550 9706

Ásdís Pétursdóttir, fjárfestatengsl
Sími: 858 9715

Um Bakkavör Group 

Bakkavör Group er leiðandi alþjóðlegt matvælafyrirtæki sem sérhæfir sig í
framleiðslu ferskra tilbúinna matvæla. Bakkavör Group rekur 57 verksmiðjur og
er með um 20 þúsund starfsmenn í níu löndum. Höfuðstöðvar félagsins eru í
Reykjavík og er félagið skráð á OMX Nordic Exchange á Íslandi. (www.icex.is -
auðkenni BAKK). 

Bakkavör Group var stofnað árið 1986 og hefur starfsemi félagsins vaxið
verulega á síðastliðnum 20 árum. Í dag er félagið leiðandi í framleiðslu á
ferskum tilbúnum matvælum á alþjóðavísu. Félagið hefur leiðandi markaðstöðu í
Bretlandi í lykilvöruflokkum sínum og framleiðir yfir 4.700 vörutegundir í 17
vöruflokkum. Vörur félagsins eru seldar undir vörumerkjum viðskiptavina.
Meginhluti starfseminnar fer fram í Bretlandi en auk þess er félagið nú með
starfsemi í Frakklandi, Belgíu, Spáni, Tékklandi, Suður-Afríku, Kína, Íslandi
og í Bandaríkjunum. 

Skráning á póstlista Bakkavör Group: investor.relations@bakkavor.com