2010-04-30 16:48:48 CEST

2010-04-30 16:49:46 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Icelandair Group hf. - Ársreikningur

-Uppgjörstilkynning vegna 4. ársfjórðungs og ársins 2009


Afkoma á fjórða ársfjórðungi 2009
+ Heildarvelta var 18,2 milljarðar króna og jókst um 4% árinu á sama tíma í
  fyrra. 
+ EBITDA var neikvæð um 219 milljónir króna en var neikvæð um 894 milljónir
  króna á sama tíma í fyrra. 
+ EBIT var neikvæð um 2,4 milljarða króna en var neikvæð um 8,7 milljarða króna
  á sama tíma í fyrra. Afskriftir voru 2,7 milljarðar króna sem er lækkun um 5,1
  milljarð frá fyrra ári. 
+ Fjármagnskostnaður var 2,9 milljarðar króna samanborið við 630 milljónir króna
  árið áður. 
+ Tap eftir skatta var 9,6 milljarðar króna en var 10,6 milljarðar króna á sama
  tíma í fyrra

Afkoma árið 2009
+ Heildarvelta var 80,3 milljarðar króna og jókst um 11% á milli ára.
+ EBITDA var 8,1 milljarður króna en var 3,1 milljarður króna árið á undan. 
+ EBIT var 1,5 milljarðar króna en var neikvæð um 7,4 milljarða króna á árinu á
  undan. Afskriftir voru 6,7 milljarðar króna sem er lækkun um 3,7 milljarða
  frá fyrra ári. 
+ Fjármagnskostnaður var 6,0 milljarðar króna samanborið við 1,9 milljarða
  króna árið áður. 
+ Tap eftir skatta var 10,7 milljarðar króna en var 7,5 milljarðar króna árið
  2008. 
+ Handbært fé í lok ársins 2009 var 1,9 milljarðar króna, en var 4,1 milljarður
  árið áður. 
+ Heildareignir námu 89,1 milljarði í lok árs 2009 og eiginfjárhlutfall var
  16,4 % í lok árs 2009, en var 20,1% í lok árs 2008.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri:
„Það liggur fyrir að árið 2009 var afar erfitt í alþjóðlegum flugrekstri. Á
árinu 2009 var hins vegar hagnaður bæði hjá Icelandair og Flugfélagi Íslands og
bæði félög eru að skila sinni bestu afkomu í langan tíma. Jafnframt var
hagnaður af starfsemi Loftleiða, Bluebird og Iceland Travel. Fyrir þennan
árangur þakka ég starfsfólki okkar sérstaklega. Hins vegar er mikið tap á árinu
vegna ábyrgða sem Icelandair Group veitti SmartLynx árið 2007, vegna olíuvarna
hjá Travel Service og síðast en ekki síst vegna mikillar skuldsetningar
móðurfélagsins sem á rætur sínar að rekja til ársins 2006. Tap ársins 2009 má
fyrst og fremst rekja til vandamála vegna of mikillar skuldsetningar
fyrirtækisins í góðærinu. 

Fjármagnskostnaður á árinu 2009 nam sex milljörðum króna og jókst um ríflega
fjóra milljarða króna frá árinu 2008. Mestu munar þar um tveggja milljarða
króna tap af framvirkum samningum vegna gengisvarna á árinu 2009 en á árinu
2008 var 1,4 milljarða hagnaður tekjufærður vegna hagnaðar af framvirkum
samningum. Vaxtagjöld jukust um 500 milljónir króna frá árinu 2008 og námu
samtals 4,2 milljörðum árið 2009. 
Erlendar fjárfestingar hafa verið félaginu erfiður ljár í þúfu. Á árinu 2009
voru 4,2 milljarðar króna gjaldfærðir vegna taprekstrar og afskrifta
viðskiptakrafna og óefnislegra eigna vegna lettneska flugfélagsins SmartLynx.
Til viðbótar nam gjaldfærsla vegna tékkneska flugfélagsins Travel Service um
1,9 milljarði króna á árinu. Þar af nam gjaldfærsla eldsneytisvarna um einum
milljarði króna og 900 milljónum vegna sölu á hlut í félaginu undir bókfærðu
virði. Hvorugt félag tilheyrir kjarnastarfsemi Icelandair Group og stjórn
fyrirtækisins hefur ákveðið að selja bæði félögin. 

Viðskiptalíkan hefur þannig verið einfaldað verulega og áherslur félagsins
verða á þjónustu við ferðamenn og í rekstri alþjóðlegs leiðakerfis í flugi.
Breytingarnar munu styrkja stöðu Icelandair Group sem rekstrarfélags í
alþjóðlegri ferðaþjónustu. Stjórn félagsins hefur ákveðið að hætta að
skilgreina samstæðuna sem fjárfestingarfélag eins og ákvörðun stjórnar á sölu á
eignarhlutum í SmartLynx, Bluebird og Travel Service sýnir. 
Fjárhagsleg endurskipulagning félagsins er á lokastigum. Það hefur legið fyrir
lengi að Icelandair Group er of skuldsett og vaxtabyrði þess er of há.
Nauðsynlegt er að sú endurskipulagning efnahagsreiknings sem stóð yfir allt
árið 2009 klárist á næstunni þannig að tryggt sé að rekstur félagsins standi
undir vaxta- og greiðslubyrði af lánum. 
Það er trú mín að eftir endurskipulagninguna muni félagið vera vel í stakk búið
til að sækja fram með rekstri alþjóðlegs leiðakerfis og alhliða þjónustu við
ferðamenn.“ 

Kynningarfundur föstudaginn 30. apríl 2010
Opinn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn föstudaginn
30.apríl nk á aðalskrifstofum Icelandair Group, 3h.við Hótel Loftleiði
,Reykjavíkurflugvelli. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group mun
kynna afkomuna og svara spurningum ásamt stjórnendum félagsins. Kynningin hefst
kl. 16:30. 


Frekari upplýsingar veita:
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sími: 896-1455
Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group, sími: 665-8801