2012-02-29 18:31:06 CET

2012-02-29 18:32:06 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Marel hf. - Niðurstöður hluthafafunda

SAMÞYKKTIR AÐALFUNDAR MAREL HF.


29. FEBRÚAR 2012

Aðalfundur Marel hf. sem fram fór í höfuðstöðvum félagsins þann 29. febrúar
2012 var vel sóttur af hluthöfum. Allar tillögur voru samþykktar samhljóða. 



Meðfylgjandi eru niðurstöður fundarins:



1.  Ársreikningur og skýrsla stjórnar voru samþykkt.



2.  Tillaga um greiðslu arðs

Samþykkt var að greiða út arð vegna reikningsársins 2011 sem nemur 0,95 evru
sent á hlut, en slík arðgreiðsla samsvarar um 20% af hagnaði ársins.
Viðmiðunardagsetning arðgreiðslu (réttur til arðgreiðslu) verður við lok
viðskipta á aðalfundardegi og arðleysisdagur því 1. mars 2012. Samþykkt að
arðgreiðsla verði innt af hendi þann 14. mars 2012. 



3. Tillaga um stjórnarlaun vegna ársins 2012 og greiðslu til endurskoðanda
fyrir liðið starfsár 

Samþykkt var að stjórnarlaun vegna ársins 2012 verði hækkuð frá fyrra ári og
verði sem hér segir:  Stjórnarformaður fá 7.500 evrur á mánuði, formaður
endurskoðunarnefndar fær 5.000 evrur á mánuði og aðrir stjórnarmenn 2.500 evrur
hver á mánuði. Stjórnarlaun skulu greidd 15. dag hvers mánaðar. Samþykkt var að
greiðslur til endurskoðenda fyrir liðið starfsár skuli vera samkvæmt reikningum
þeirra. 



4. Starfskjarastefna félagsins var staðfest

Starfskjarastefnan er eftirfarandi:

1. gr. Tilgangur

Starfskjarastefna Marel hf. miðar að því að Marel hf. og dótturfélög þess séu
samkeppnishæf og geti ráðið til sín framúrskarandi starfsfólk sem nauðsynlegt
er til uppfylla framtíðarsýn fyrirtækisins á alþjóðamarkaði. Starfskjarastefnan
nær yfir helstu atriði í starfs- og launakjörum forstjóra og stjórnenda Marel
hf. Hjá félaginu starfar starfskjaranefnd, sem í sitja þrír til fjórir
stjórnarmenn. 

2. gr. Starfskjör stjórnarmanna

Stjórnarmönnum skal greidd föst mánaðarleg þóknun í samræmi við ákvörðun
aðalfundar ár hvert, svo sem kveðið er á um í 79. gr. a laga um hlutafélög.
Gerir stjórnin tillögu um þóknunina fyrir komandi starfsár og skal í þeim efnum
taka mið af þeim tíma sem stjórnarmenn verja til starfans, þeirri ábyrgð sem á
þeim hvílir, og afkomu félagsins 

3. gr. Starfskjör forstjóra

Gera skal skriflegan ráðningarsamning við forstjóra. Kjör hans skulu vera
samkeppnishæf á alþjóðamarkaði. Fjárhæð grunnlauna og annarra greiðslna til
forstjóra skal taka mið af menntun, reynslu og fyrri störfum. Tilgreina skal
önnur starfskjör í ráðningarsamningnum, svo sem greiðslur í lífeyrissjóð,
orlof, hlunnindi og uppsagnarfrest. 

Við gerð ráðningarsamnings við forstjóra skal haft að leiðarljósi að ekki komi
til frekari greiðslna við starfslok en fram koma í ráðningarsamningi. Heimilt
er þó við sérstök skilyrði að mati stjórnar að gera sérstakan starfslokasamning
við starfslok forstjóra. 

4. gr. Umbun til æðstu stjórnenda

Forstjóra er heimilt að leggja fram tillögu fyrir stjórn og starfskjaranefnd
félagsins um að umbuna æðstu stjórnendum til viðbótar grunnlaunum í formi
afhendingar hluta, árangurs-tengdra greiðslna, hlutabréfa, kaupréttar og annars
konar greiðslna sem tengdar eru hluta-bréfum í félaginu eða þróun verðs á
hlutabréfum í félaginu, lífeyrissamninga og starfsloka-samninga. 

Við ákvörðun um hvort veita skuli æðstu stjórnendum umbun til viðbótar
grunnlaunum skal taka mið af stöðu, ábyrgð, frammistöðu og framtíðarmöguleikum
viðkomandi stjórnanda innan félagsins. 
5. gr. Upplýsingagjöf

Á aðalfundi skal stjórn gera grein fyrir kjörum forstjóra, framkvæmdastjóra og
stjórnarmanna. Upplýsa skal um heildarfjárhæð greiddra launa á árinu, greiðslur
frá öðrum félögum í sömu fyrirtækjasamstæðu, fjárhæð kaupauka og kaupréttar,
annars konar greiðslur sem tengjast hlutabréfum í félaginu, starfslokagreiðslur
ef einhverjar eru, auk heildarfjárhæðar annarra greiðslna. 

Starfskjarastefnu þessa skal birta á heimasíðu félagsins

6. gr. Samþykkt starfskjarastefnu og fleira

Starfskjarastefna félagsins skal tekin til afgreiðslu á aðalfundi og skal hún
tekin til endurskoðunar ár hvert og borin undir aðalfund til samþykktar eða
synjunar. 

Starfskjarastefnan er bindandi fyrir stjórn félagsins að því er varðar ákvæði
um kaupréttarsamninga og hvers konar samninga eða greiðslur er fylgja þróun
verðs á hlutabréfum í félaginu, sbr. 2. mgr. 79. gr. a. hlutafélagalaga. Að
öðru leyti er starfskjarastefnan leiðbeinandi fyrir félagið og stjórn þess.
Stjórn félagsins skal færa til bókar í fundargerðarbók veigamikil frávik frá
starfskjarastefnunni og skulu þau frávik studd greinargóðum rökum. Gera skal
grein fyrir frávikum á næsta aðalfundi félagsins. 



5. Kosning stjórnar

Eftirtaldir aðilar voru kosnir í stjórn félagsins til næsta aðalfundar:

Arnar Þór Másson, Reykjavík

Árni Oddur Þórðarson, Reykjavík

Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Reykjavík

Friðrik Jóhannsson, Reykjavík

Helgi Magnússon, Seltjarnarnes

Margrét Jónsdóttir, Seltjarnarnes

Theo Bruinsma, Oss, Hollandi



6. Kosning endurskoðanda

Samþykkt var að endurskoðunarskrifstofan KPMG ehf. yrði endurskoðandi félagsins.



7. Tillaga um heimild stjórnar til kaupa á eigin hlutafé félagsins

Samþykkt var að félaginu verði heimilt, í samræmi við 55. gr. hlutafélagalaga
nr. 2/1995, að kaupa allt að 10% af eigin hlutafé á gengi sem sé ekki hærra en
10% yfir og ekki lægra en 10% undir skráðu meðalgengi bréfa félagsins tveimur
vikum á undan kaupunum. 

Heimild þessi gildi næstu 18 mánuði frá samþykki. Eldri heimildir þessa efnis
falli jafnframt niður.