2017-03-07 15:45:14 CET

2017-03-07 15:45:14 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Orkuveita Reykjavíkur - Ársreikningur

Planið gekk upp - Ársreikningur OR 2016


Reykjavík, 2017-03-07 15:44 CET (GLOBE NEWSWIRE) -- Aðgerðaáætlunin sem
Orkuveita Reykjavíkur hefur fylgt frá því snemma árs 2011 og nefnd er Planið
gekk upp og vel það. Hún átti að skila liðlega 50 milljörðum króna í betri
sjóðstöðu en niðurstaðan varð um 60 milljarðar. Þetta kemur fram í lokaskýrslu
fyrirtækisins um Planið sem  lauk um áramót. 

Ársreikningur OR fyrir árið 2016 var samþykktur af stjórn í dag. Rekstrarafkoma
er svipuð og síðustu ár en hátt gengi  íslensku krónunnar skilar fyrirtækinu
verulegum reiknuðum hagnaði. Hagnaðurinn nam 13,4 milljörðum króna á árinu.
Arðsemi eigin fjár var 12,0%. 

Lokaskýrsla Plansins

Frá því eigendur OR, þar sem Reykjavíkurborg er langstærst, og stjórn
fyrirtækisins samþykktu Planið, í mars 2011, hefur fyrirtækið gefið opinbera
skýrslu ársfjórðungslega um árangur þess. Samkvæmt lokaskýrslunni batnaði
sjóðstaða OR um 60,2 milljarða króna vegna aðgerðanna sem gripið var til.
Upphaflegt markmið var 51,3 milljarðar króna. Mest munar um að innri aðgerðir
fyrirtækisins skiluðu 20% meiru en lagt var upp með. Ytri þættir Plansins
skiluðu 13% umfram markmið. Í heildina fengust tæp 18% af árangri Plansins með
gjaldskrárbreytingum. 

Sparnaður í rekstri OR á tímabili Plansins nam 8,0 milljörðum króna og var 60%
umfram upphafleg markmið. 

Lægri rekstrarkostnaður en 2010

Í ársreikningnum sem samþykktur var í dag kemur fram að rekstrarafkoma
fyrirtækjanna í samstæðu OR er stöðug og góð. Rekstrarhagnaður EBIT nam 15
milljörðum króna, sem er 3,7% betri afkoma af rekstri en 2015. Rekstrartekjur
uxu um 1,1 milljarð króna milli áranna 2015 og 2016 og gjöldin um 880
milljónir. Kjarasamningsbundnar launahækkanir eiga talsverðan þátt í vaxandi
kostnaði en einnig hefur verkefnum fjölgað með auknum umsvifum í samfélaginu og
rekstur notkunarmæla er aftur kominn í hús eftir útvistun. 

Ef litið er til áranna 2010-2016 og miðað er við fast verðlag sést meðal annars
að rekstrargjöld ársins 2016 voru lægri að raunviði en ársins 2010. Þetta má
rekja til þess niðurskurðar á rekstrarkostnaði sem ráðist var í við upphaf
Plansins og aðhalds í rekstri síðan. OR og dótturfyrirtækin munu búa að þeirri
sparnaðarmenningu sem byggð hefur upp til framtíðar. Um síðustu áramót skilaði
sparnaður í rekstri sér beint til viðskiptavina þegar ýmis veitugjöld voru
lækkuð. 

Gengisáhrif á heildarniðurstöðu ársins

Samanlagðir fjármagnsliðir ársreiknings OR voru jákvæðir í fyrsta skipti um
árabil. Mest munar um að hækkað gengi krónunnar hefur þau áhrif að erlend lán
eru metin á færri krónur en áður og mismunurinn er færður fyrirtækinu til tekna
í ársreikningnum. Gengismunur nam 8,5 milljörðum króna samkvæmt ársreikningnum
. 

OR hefur greitt niður skuldir jafnt og þétt síðustu ár. Lækkun nettóskulda frá
árinu 2009 nemur tæpum 100  milljörðum króna. Samhliða hefur eiginfjárhlutfall
nærri þrefaldast. 

Bjarni Bjarnason, forstjóri

Það er mikilvægt að Planið gekk upp og að okkur tókst að nýta það til umbóta á
miklu fleiri sviðum í rekstrinum en fjármálunum einum. Samstaða meðal eigenda
fyrirtækisins, stjórnar og starfsfólks öll þau ár sem við höfum unnið eftir því
hefur verið ánægjuleg. 

Gildi Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaganna eru framsýni, hagsýni og
heiðarleiki. Ég tel að lokaskýrsla Plansins sem nú birtist almenningi beri með
sér að við höfum sýnt hagsýni í rekstrinum. Það munum við gera áfram. Nú blasa
við okkur margháttaðar breytingar og það reynir á framsýni okkar svo við grípum
tækifærin sem í breytingunum felast. Þar má sem dæmi nefna umhverfisvænni
samgöngur og snjallvæðingu innviðanna sem okkur er trúað fyrir. Það er
mikilvægt að taka réttar ákvarðanir í þeim efnum til lengri tíma litið og að
undirbúa þær vel. Hér eftir sem hingað til munum við kappkosta að gera
almenningi heiðarlega grein fyrir því hvernig reksturinn stendur á hverjum tíma
og hvaða áskoranir blasa við okkur. 

Rekstraryfirlit stjórnenda

Fjárhæðir eru í milljónum           2012      2013      2014      2015      2016
 króna á verðlagi hvers árs                                                     
                                                                                
                                                                                
Rekstrartekjur                    37.905    39.209    38.526    40.357    41.423
Rekstrarkostnaður               (12.861)  (13.126)  (13.681)  (15.183)  (16.062)
Þar af orkukaup og –flutningur   (4.866)   (5.402)   (5.335)   (6.400)   (6.205)
EBITDA                            25.044    26.084    24.845    25.174    25.361
Afskriftir                      (10.371)   (8.927)   (9.152)  (10.747)  (10.392)
Rekstrarhagnaður EBIT             14.673    17.157    15.693    14.428    14.968
                                                                                
Afkoma tímabilsins               (2.295)     3.350     8.871     4.176    13.352
                                                                                
Sjóðstreymi:                                                                    
Innleystar vaxtatekjur               138       210       742       677       461
Greidd vaxtagjöld                (5.411)   (4.967)   (4.293)   (3.948)   (4.146)
Handbært fé frá rekstri           18.935    20.033    22.084    21.815    21.324
Veltufé frá rekstri               19.880    19.675    18.881    22.563    20.240



Athygli er vakin á því að í tilkynningum vegna síðustu árshlutareikninga OR
hafa tölur í samsvarandi töflum yfir innleystar vaxtatekjur og greidd
vaxtagjöld áranna 2012 og 2013 verið rangar og sýnt vaxtatekjur og vaxtagjöld
úr rekstrarreikningi í stað sjóðsteymisyfirlits. 


         Nánari upplýsingar:
         Bjarni Bjarnason
         forstjóri OR
         516 7707