2015-03-16 10:14:15 CET

2015-03-16 10:15:16 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Icelandair Group hf. - Fyrirtækjafréttir

Breyttar áherslur í flugflota dótturfélaga Icelandair Group


Stjórn Icelandair Group hefur samþykkt að gera áherslubreytingar á
flugflotastefnu dótturfélaganna Flugfélags Íslands og Icelandair. 

Allar fimm Fokker 50 vélar Flugfélags Íslands verða seldar og þrjár Bombardier 
Q400 munu koma í þeirra stað.  Eftir breytinguna verður Flugfélag Íslands með
fimm flugvélar í rekstri, þrjár Q400 og tvær Bombardier  Q200.  Q400
flugvélarnar taka 74 farþega en Fokker 50 flugvélarnar taka 50 farþega.  Við
þessa breytingu verður einföldun og hagræðing í rekstri Flugfélagsins þar sem
flugvélum fækkar auk þess sem samlegð er mun meiri í rekstri nýja flotans en
þeim gamla þar sem allar flugvélarnar verða frá sama framleiðanda.  Q400
vélarnar eru jafnframt hraðskreiðari og langdrægari en Fokker 50 flugvélarnar
og því sér félagið fram á tækifæri til sóknar á nýja markaði.  Með nýju
flugvélunum verður hægt að sinna innanlandsmarkaðnum betur þar sem um stærri
vél er að ræða auk þess sem ferðatími styttist aðeins.  Félagið stefnir að því
að fjölga erlendum ferðamönnum enn frekar um borð í flugvélum félagsins. 

Á árinu 2015 verða 23 Boeing 757-200 flugvélar í rekstri Icelandair sem taka
183 farþega og ein 757-300 flugvél sem tekur 220 farþega.  Af þessum 24
flugvélum eru 22 í eigu félagsins en tvær á leigu og verður þeim skilað næsta
haust.  Tekin hefur verið ákvörðun um að leysa þær af hólmi með tveimur Boeing
767-300 vélum sem taka um 260 farþega. Þær munu fljúga í leiðarkerfinu frá og
með vorinu 2016.  Há sætanýting á mörgum flugleiðum félagsins allan ársins
hring, auk takmarkana á afgreiðslutímum á sumum flugvöllum gerir það fýsilegt
að taka inn stærri flugvélar.  Jafnframt hefur stækkun flugflota félagsins
undanfarin ár gert það að verkum að það er aukin hagkvæmni í því að hafa fleiri
stærðir af flugvélum í flotanum.  Boeing 767 flugvélarnar eru um margt líkar
Boeing 757 flugvélunum hvað varðar viðhald og þjálfun áhafna og þekkir félagið
rekstur slíkra véla vel.  Loftleiðir-Icelandic, dótturfélag Icelandair Group,
hefur um árabil verið með slíkar vélar í leiguverkefnum og hefur Icelandair séð
um viðhald þeirra. Boeing 767 flugvélarnar eru mun langdrægari en Boeing 757
vélarnar og með þeim munu skapast ný tækifæri fyrir leiðarkerfi Icelandair. 

Á þessu stigi liggur ekki fyrir hvort flugvélarnar verði leigðar eða keyptar.

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group: „Það hefur verið mikið
hagræði af því að hafa einsleitan flota hjá Icelandair en þegar leiðarkerfið og
flugflotinn nær ákveðinni stærð þá verður það fýsilegra að hafa fleiri stærðir
flugvéla í flotanum.  Há sætanýting allan ársins hring auk takmarkana á
afgreiðslutímum á sumum flugvöllum styðja jafnframt við þessa ákvörðun. Hvað
varðar Flugfélag Íslands þá mun einföldun flotans skila meiri breidd í framboði
auk þess sem  þjálfun áhafna verður einfaldari. 

Með þessum áherslubreytingum í flugflota í farþegaflugi Icelandair Group sjáum
við fram á aukin vaxtartækifæri á komandi árum.  Bæði Boeing 767 flugvélarnar
og Q400 flugvélarnar geta sinnt mörkuðum sem núverandi flugvélakostur getur
ekki og með þeim getum við farið inn á fleiri markaðssvæði en áður og tengt þau
við núverandi leiðarkerfi.“ 





Frekari upplýsingar veita:



Björgólfur Jóhannsson, forstjóri
bubbi@icelandairgroup.is
896 1455

Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála
bogi@icelandairgroup.is
665 8801