2015-09-04 19:34:06 CEST

2015-09-04 19:35:07 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Landsbankinn hf. - Fyrirtækjafréttir

Samruni Landsbankans og Sparisjóðs Norðurlands samþykktur


Samruni Landsbankans og Sparisjóðs Norðurlands hefur nú verið samþykktur af
eftirlitsaðilum og tekur formlega gildi í dag, 4. september 2015. Bankaráð
Landsbankans samþykkti samrunann fyrir hönd bankans á fundi sínum í dag en áður
hafði fundur stofnfjárhafa Sparisjóðsins veitt samþykki sitt. 

Sameinað fyrirtæki verður rekið undir nafni Landsbankans, starfsmenn sjóðsins
verða starfsmenn Landsbankans, allar eignir og skuldbindingar sparisjóðsins
renna inn í bankann og hann tekur við rekstri allra útibúa sjóðsins. 

Sparisjóður Norðurlands rekur útibú og afgreiðslur á Dalvík, Raufarhöfn,
Þórshöfn, Kópaskeri, Suðureyri og á Bolungarvík.  Engar breytingar verða á
þjónustu við viðskiptavini fyrst um sinn, útibú og afgreiðslur verða opin á
sama tíma og jafnan, reikningsnúmer haldast óbreytt, kort gilda áfram og
aðgangur að netbanka verður óbreyttur. Viðskiptavinum verða síðan sendar
upplýsingar um þær breytingar sem samrunanum fylgja og mun starfsfólk
Landsbankans leggja sig fram um að þær valdi sem minnstum truflunum. 

Viðskiptavinum er ráðlagt að snúa sér til síns útibús eða þjónustuvers
Landsbankans með fyrirspurnir (410 4000, info@landsbankinn.is) og á vef bankans
eru svör við algengum spurningum. 

Samkvæmt því samkomulagi sem fyrir liggur munu stofnfjáreigendur í sparisjóðnum
fá greitt með hlutabréfum í Landsbankanum. Heildarendurgjald til þeirra verður
594 milljónir króna. 

Sparisjóður Norðurlands varð til við sameiningu Sparisjóðs Svarfdæla,
Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis þann 4. júlí 2013 og Sparisjóður
Bolungarvíkur bættist við þann 30. júní 2014. Stofnfé Sparisjóðsins nam
1.008.791 þús.kr. og var í eigu 361 aðila. Stærstu eigendur voru ríkissjóður
Íslands, 79,2%, Tryggingasjóður sparisjóða, 14,9%, Eignasafn Seðlabanka
Íslands, 1,7% og Rekstrarfélag verðbréfasjóða ÍV, 1,7%. Aðrir áttu minna en 1%. 

Stjórn sparisjóðsins leitaði til Landsbankans 9. júní 2015, til að kanna áhuga
á samruna vegna óvissu um framtíð sjóðsins. Samruni var háður samþykki bæði
Fjármálaeftirlits og Samkeppniseftirlits sem nú liggur fyrir. 



Nánari upplýsingar: Kristján Kristjánsson, pr@landsbankinn.is 410 4011 eða 899
9352.