2011-04-27 16:05:13 CEST

2011-04-27 16:06:15 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Marel hf. - Ársreikningur

Marel kynnir afkomu fyrsta ársfjórðungs 2011


Árið byrjar vel hjá Marel


  -- Tekjur fyrsta ársfjórðungs 2011 námu 153,5 milljónum evra, sem er 19,1%
     aukning samanborið við tekjur af kjarnastarfsemi á fyrsta ársfjórðungi 2010
     [Q1 2010: 128,9 milljónir evra].[1]
  -- EBITDA var 23,3 milljónir evra, sem er 15,2% af tekjum [Q1 2010: 20,9
     milljónir evra af kjarnastarfsemi].
  -- Rekstrarhagnaður (EBIT) var 17,1 milljón evra, sem er 11,2% af tekjum [Q1
     2010: 15,1 milljón evra af kjarnastarfsemi].
  -- Hagnaður nam 8,8 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi 2011 [Q1 2010: 5,6
     milljónir evra af heildarstarfsemi].
  -- Sjóðstreymi er sterkt og nettó vaxtaberandi skuldir nema 247,6 milljónum
     evra í lok fyrsta ársfjórðungs 2011 [Q1 2010: 286,3 milljónir evra].
  -- Pantanabók heldur áfram að styrkjast í takt við stöðugt framboð nýrra vara
     og hagstæðar markaðsaðstæður. Fyrirliggjandi pantanir námu 169,3 milljónum
     evra í lok fyrsta ársfjórðungs 2011 [Q1 2010: 113,5 milljónir evra af
     kjarnastarfsemi].

Fyrsti ársfjórðungur 2011 var góður hjá Marel. Tekjur námu 153,5 milljónum
evra, sem er 19% aukning samanborið við sama tímabil fyrir ári. Enn á ný náði
fyrirtækið markmiði sínu um rekstrarhagnað upp á 10-12% af veltu. Þá voru nýjar
pantanir fleiri en afgreiddar pantanir. Fyrir vikið hélt pantanabókin áfram að
styrkjast og nam hún 169,3 milljónum evra í lok fyrsta ársfjórðungs, samanborið
við 162,2 milljónir evra í lok ársfjórðungsins á undan og 113,5 milljónir evra
á sama tíma fyrir ári. 



Theo Hoen, forstjóri:

 „Árið fer vel af stað og við erum ánægð með afkomu fyrsta ársfjórðungs. Það er
góður vöxtur hjá okkur miðað við sama tímabil fyrir ári, hagnaður hefur aukist
og það er gott jafnvægi milli þeirra fjögurra geira sem við sérhæfum okkur í.
Enn á ný náðum við langtímamarkmiði okkar um rekstrarhagnað upp á 10-12% af
veltu. 

Pantanastaðan er áfram góð og virði fyrirliggjandi pantana aldrei verið hærra.
Stórar pantanir berast nú jafnt og þétt og sala staðlaðra lausna er stöðug. Við
njótum enn góðs af því að hafa á undanförnum tveimur árum fjárfest af sama
krafti og áður í nýsköpun og vöruþróun. Sú velgengni sem nýja IBS 4600
beikonskurðarvélin okkar naut í Bandaríkjunum á fyrsta ársfjórðungi er skýrt
dæmi um það.[2]

Akoman á fyrsta ársfjórðungi og vaxandi pantanabók gefa góð fyrirheit fyrir
árið í heild.“ 



Pantanabók vex enn

Marel nýtur áfram góðs af sterkri markaðsstöðu og stöðugu framboði nýrra vara.
Nýjar pantanir, að meðtöldum þjónustutekjum, námu 160,7 milljónum evra á fyrsta
ársfjórðungi 2011, samanborið við 135 milljónir á sama tímabili fyrir ári. Sem
fyrr voru nýjar pantanir fleiri en afgreiddar pantanir, enda er fjöldi stórra
pantana sambærilegur við það sem hann var fyrir fjármálakreppuna. Pantanabókin
heldur þar af leiðandi áfram að vaxa og hefur aldrei verið stærri. Virði
pantana nam 169,3 milljónum evra í lok fyrsta ársfjórðungs 2011 samanborið við
113,5 milljónir evra á sama tíma fyrir ári. 

Handbært fé frá rekstri er áfram traust og nemur 14,1 milljón evra á fyrsta
ársfjórðungi, fyrir fjármagnsliði og skatta. Efnahagsreikningurinn er sterkur
og eru nettó skuldir félagsins nú 247,6 milljónir evra samanborið við 286,3
milljónir í lok fyrsta ársfjórðungs 2010. 



Horfur

Markaðsaðstæður hafa áfram batnað. Marel hefur styrkt markaðsstöðu sína enn
frekar og sterk pantanabók gefur góð fyrirheit um framhaldið á komandi mánuðum.
Engu að síður má gera ráð fyrir að afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga
vegna sveiflna í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna. 



Kynningarfundur 28. apríl 2011

Marel boðar til kynningarfundar um afkomu félagsins fimmtudaginn 28. apríl kl.
8:30 í húsnæði félagsins að Austurhrauni 9, Garðabær. Fundinum verður einnig
netvarpað: www.marel.com/webcast 



Birtingardagar fyrir reikningsárið 2011 og aðalfundur 2012

  -- 2. ársfjórðungur 2011                                                      
     27. júlí 2011
  -- 3. ársfjórðungur 2011                                                      
     26. október 2011
  -- 4. ársfjórðungur 2011                                                      
     1. febrúar 2012
  -- Aðalfundur Marel hf.                                                       
     29. febrúar 2012


Frekari upplýsingar veita:

Jón Ingi Herbertsson, fjárfesta- og almannatengsl. Sími: 563-8451

Erik Kaman, fjármálastjóri. Sími: 563-8072

Sigsteinn Grétarsson, forstjóri Marel ehf. Sími: 563-8072



Um Marel

Marel er í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja Íslands og er í fararbroddi á
heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á
fiski, kjöti og kjúklingi. Fyrirtækið starfrækir skrifstofur og dótturfyrirtæki
í meira en 30 löndum, auk 100 umboðsmanna og dreifingaraðila. 

Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:

Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og
áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna
við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við
vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif
að rekstraumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir
í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað
þetta varðar. 







[1] Sölu helstu eigna félagsins utan kjarnastarfsemi var lokið á fyrsta
ársfjórðungi 2010 þegar Carnitech A/S og Food & Dairy Systems voru seld.
Afkomutölur frá Carnitech A/S eru taldar með í heildarafkoma ársins 2010 fram
til 1. febrúar 2010 og tölur frá Food & Dairy Systems til 31. mars 2010. Þegar
afkoma fyrsta ársfjórðungs 2011 er borin saman við árið á undan er þess vegna
gagnlegra að miða við afkomu af kjarnastarfsemi árið 2010 en heildarafkomu. 



[2] IBS 4600 er fyrsta beikonskurðarvélin á markaðnum sem útbúin er fjórum
sjálfstæðum innmötunarbrautum. Hver braut er með eigið tölvusjónkerfi sem mælir
fitumagn í hverju stykki þegar það er sneitt og er þykkt sneiðanna ákvörðuð út
frá fitumagni. Sneiðarnar eru síðan sendar áfram í örbylgjueldunartæki.