2016-11-16 18:12:49 CET

2016-11-16 18:12:49 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Arion Bank hf. - Ársreikningur

Afkoma Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins 2016


Hagnaður Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins 2016 nam 17,3 milljörðum króna
samanborið við 25,4 milljarða króna á sama tímabili 2015. Arðsemi eigin fjár
var 11,2% samanborið við 19,8% fyrir sama tímabil árið 2015. Reiknaður hagnaður
af reglulegri starfsemi nam 5,7 milljörðum króna samanborið við 11,5 milljarða
á fyrstu níu mánuðum ársins 2015. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi
nam 3,7% samanborið við 9,5% á fyrstu níu mánuðum ársins 2015. 

Heildareignir námu 1.038,5 milljörðum króna í lok september samanborið við
1.011,0 milljarða króna í árslok 2015 og eigið fé hluthafa bankans nam 206,9
milljörðum króna í lok september, samanborið við 192,8 milljarða króna í árslok
2015. Efnahagur bankans er sterkur og lögð hefur verið áhersla á trygga
lausafjárstöðu í aðdraganda afnáms fjármagnshafta. 

Eiginfjárhlutfall bankans í lok september var 26,1% en var 24,2% í árslok 2015.
Hlutfall eiginfjárþáttar A hækkaði og nam 25,5% samanborið við 23,4% í árslok
2015. 

Helstu rekstrar- og kennitölur bankans eru eftirfarandi:

Í milljónum króna                       9 mán. '16  9 mán. '15  3F 2016  3F 2015
Hreinar vaxtatekjur                         22.058      20.287    7.432    7.112
Hreinar þóknanatekjur                       10.213      10.726    3.466    3.292
Hreinar fjármunatekjur                       4.339      10.176      844      453
Hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga          710       6.956       16    2.739
Aðrar rekstrartekjur                         2.642       2.232      781      709
--------------------------------------------------------------------------------
Rekstrartekjur                              39.962      50.377   12.539   14.305
Laun og launatengd gjöld                  (12.252)    (10.320)  (3.826)  (3.153)
Annar rekstrarkostnaður                   (10.393)     (9.016)  (3.425)  (3.012)
Bankaskattur                               (2.190)     (2.168)    (705)    (779)
Hrein virðisbreyting                         6.827       (114)    5.882     (33)
--------------------------------------------------------------------------------
Hagnaður fyrir skatta                       21.954      28.759   10.467    7.328
Tekjuskattur                               (5.261)     (3.639)  (3.170)  (1.272)
Afkoma af aflagðri starfsemi eftir             569         277      206       15
 skatta                                                                         
--------------------------------------------------------------------------------
Hagnaður tímabilsins                        17.262      25.397    7.503    6.071
--------------------------------------------------------------------------------
                                                                                
Helstu kennitölur                                                               
Arðsemi eigin fjár                           11,2%       19,8%    14,4%    14,2%
Vaxtamunur á vaxtaberandi eignir              3,1%        3,0%     3,1%     3,1%
Kostnaðarhlutfall                            56,7%       38,4%    57,8%    43,1%
Tier 1 hlutfall                              25,5%       22,2%    25,5%    22,2%



Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Afkoman á fyrstu níu mánuðum ársins er viðunandi. Grunnrekstur bankans hefur
verið aðeins undir væntingum enda hafa ytri aðstæður sumpart verið óhagstæðar.
Þróun á hlutabréfamarkaði á tímabilinu hefur neikvæð áhrif, en bankinn er enn
með stöður í skráðum félögum. Grunnrekstur bankans er engu að síður traustur og
eiginfjárstaða bankans heldur áfram að styrkjast. Alþjóðlega lánshæfismats
fyrirtækið Standard & Poor´s horfði til sterkrar eiginfjárstöðu bankans, bætts
aðgengis að erlendum lánsfjármörkuðum sem og sterkrar stöðu íslensks
efnahagslífs þegar fyrirtækið hækkaði nýlega lánshæfismat Arion banka í BBB/A-2
með jákvæðum horfum. Vaxtaálag á erlendum útgáfum bankans á eftirmarkaði hefur
lækkað mikið sem ber vott um þá eftirspurn sem er til staðar á alþjóðlegum
lánsfjármörkuðum eftir skuldabréfum bankans. 

Í lok september gengu kaup Arion banka á tryggingafélaginu Verði í gegn og
bætast þar með skaðatryggingar í vöruframboð bankans, en líftryggingar hafa
verið hluti af vöruframboðinu um árabil. Vörður hefur þar með bæst í hóp
dótturfélaga Arion banka og mun starfa náið með bankanum þegar kemur að sölu
trygginga. Viðskiptavinir beggja munu njóta góðs af.“ 



Fundur með markaðsaðilum

Arion banki mun halda símafund á ensku fyrir markaðsaðila, fimmtudaginn 17.
nóvember, klukkan 13:00. Á fundinum mun Stefán Pétursson, fjármálastjóri Arion
banka, fara yfir helstu atriði í uppgjöri bankans. Áhugasamir geta sent
tölvupóst á ir@arionbanki.is og fá í kjölfarið sendar nánari upplýsingar
varðandi þátttöku á símafundinum. 



Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka,
haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.