2007-11-27 09:39:32 CET

2007-11-27 09:39:32 CET


REGLAMENTUOJAMA INFORMACIJA

Anglų Islandų
Alfesca hf. - Árshlutareikningar

- 3 mánaða uppgjör 2007/2008


Góð afkoma heldur áfram 

Sala nam 134 milljónum evra - jókst um 20%

EBITDA varð 7,3 milljónir evra  - jókst um 108%


Helstu atriði úr rekstrinum

  Sala nam 134 milljónum evra, jókst um 20%

  Innri söluvöxtur nam 5%

  EBITDA varð 7,3 milljónir evra  - jókst um 108%

  Hagnaður eftir skatta nam 0,8 milljónum evra samanborið við 1,8 milljóna evra
   tap í fyrra 

  Veltufé frá rekstri nam 7 milljónum evra

  Hækkað hráefnisverð hafði áhrif á afkomuna

  Samþætting Adrimex og Le Traiteur Grec gengur samkvæmt áætlun

  Fyrirtækjakaup eru til skoðunar


Xavier Govare forstjóri:

„Fjárhagsárið 2007-2008 byrjar mjög vel þrátt fyrir óvenjulega miklar hækkanir
á hrávöruverði sem Alfesca eins og aðrir matvöruframleiðendur hafa staðið
frammi fyrir. Þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður er afkoma félagsins á
ársfjórðungnum ánægjuleg þar sem heildarsala jókst um 20% samanborið við sama
tímabil í fyrra, nam samtals 134 milljónum evra, en innri vöxtur félagsins nam
5%. 

Það er uppörvandi að sjá að vöxturinn á rætur að rekja til allra grunnstoðanna
í starfsemi félagsins en á „pro-forma“ grundvelli jókst sala á reyktum laxi og
fiski um 5%, pönnukökum (blinis) og smurvörum um 7%, rækjum og skelfiski um 4%
en sala á andalifrarkæfu (foie gras) og andakjöti var stöðug milli ára enda er
venjulega sala á þeim vörum róleg yfir sumartímann. 

EBITDA samstæðunnar á ársfjórðungnum varð 7,3 milljónir evra sem er 108%
aukning miðað við sama tíma í fyrra. Á samanburðargrundvelli varð aukning
EBITDU mjög góð eða 83%. 

Þessi góði árangur hefur náðst þrátt fyrir áhrif tveggja utanaðkomandi þátta
sem höfðu neikvæð áhrif á fyrsta ársfjórðungi. Fyrst ber að telja að slæmt
veðurfar í Evrópu síðastliðið sumar hafði slæm áhrif á sölu sumarvara
félagsins, t.d. útigrill-línu félagsins í rækju og andakjöti auk smurvara og
ídýfa. Í öðru lagi leiddu óvenjulegar hækkanir á hrávöruverði, sem byrjuðu
síðastliðið vor, til hækkunar á breytilegum kostnaði við framleiðslu á
andaafurðum annars vegar og pönnukökum og smurvörum hins vegar. 

Þegar litið er til grundvallarþátta þessara hræringa á markaðnum gerum við ráð
fyrir að erfiðar markaðsaðstæður og hærra hráefnisverð muni hafa áhrif fram á
næsta almanaksár. Við höfum þegar gert ráðstafanir vegna hærra hráefnisverðs og
gengið til samstarfs við viðskiptavini okkar um nauðsynlegar verðhækkanir til
að mæta auknum tilkostnaði. 

Stefnumörkun Alfesca er að skila sér í góðri afkomu en hún hefur reynst bæði
árangursrík og viðeigandi. Það er uppörvandi að sjá hve vel gengur að samþætta
nýkeypt fyrirtæki rekstrinum en þau eru þegar byrjuð að skila samlegð í þeim
mæli sem gera mátti ráð fyrir. 

Horfur í rekstri Alfesca eru góðar þar sem þróunin á neytendamarkaði er jákvæð
og staða fyrirtækja félagsins á markaði er sterk. Alfesca mun halda áfram að
nýta tækifæri til vaxtar sem felast í hagfelldri þróun á neysluvenjum og
styrkja stöðu sína með því að leggja áfram áherslu á vöruþróun og skilvirkni í
framleiðslunni.“