2009-03-20 14:31:36 CET

2009-03-20 14:32:44 CET


SÄÄNNELTY TIETO

Englanti Islanti
Landsvirkjun - Ársreikningur

- Afkoma Landsvirkjunar árið 2008


Ársreikningur Landsvirkjunar var í dag, 20. mars 2009, samþykktur á fundi
stjórnar. 

Ársreikningur Landsvirkjunar er gerður samkvæmt alþjóðlegum
reikningsskilastöðlum (IFRS) eins og þeir hafa verið staðfestir af
Evrópusambandinu og er hann í Bandaríkjadölum sem er starfrækslugjaldmiðill
Landsvirkjunar frá og með ársbyrjun 2008.  Samanburðartölur fyrir árið 2007
hafa verið umreiknaðar á lokagengi Bandaríkjadals gagnvart íslenskri krónu í
árslok 2007.  Á árinu 2008 var tap af rekstri samstæðu Landsvirkjunar 344,5
milljónir Bandaríkjadala en rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta
(EBIT) var 246 milljónir Bandaríkjadala.  Handbært fé frá rekstri nam 184,4
milljónum Bandaríkjadala.  Í árslok námu heildareignir samstæðunnar 4.619,2
milljónum Bandaríkjadala og eigið fé nam 1.376,8 milljónum Bandaríkjadala.
Eiginfjárhlutfall er 29,8% í árslok 2008. 

Rekstrartekjur aukast um 83 milljónir Bandaríkjadala sem er að verulegu leyti
vegna aukinnar orkusölu með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar.  Rekstrarkostnaður án
afskrifta nam 100,5 milljónum Bandaríkjadala á árinu en var 105,8 milljónir
Bandaríkjadala árið áður.  Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur námu 660,6
milljónum Bandaríkjadala sem skýrist aðallega af lækkun á gangvirði innbyggðra
afleiða í orkusölusamningum sem tengdir eru álverði auk gengistaps. Gengistapið
og gangvirðisbreytingar eru að mestu leyti óinnleyst og verður að hafa það í
huga við mat á afkomu fyrirtækisins.  Meðalnafnvextir langtímalána voru um
4,51% á árinu 2008 en þeir voru um 4,69% árið áður. 

Gengisþróun og gangvirðisbreytingar á innbyggðum afleiðum munu sem áður ráða
miklu um afkomu Landsvirkjunar í ár.  Fyrirtækið hefur aðgang að lausafé og
lánum sem ásamt fé frá rekstri mun tryggja að fyrirtækið getur mætt núverandi
skuldbindingum sínum á þessu og næsta ári.  Landsvirkjun mun ekki ráðast í
nýjar framkvæmdir nema að félaginu takist að afla nýrra langtímalána. 

Nánari upplýsingar veitir Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, í
síma 515 9000. 

Ársreikningur Landsvirkjunar verður lagður fyrir aðalfund fyrirtækisins 3.
apríl nk.