2016-08-31 23:56:43 CEST

2016-08-31 23:56:43 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Íbúðalánasjóður - Ársreikningur

Árshlutareikningur Íbúðalánasjóðs janúar - júní 2016


Viðsnúningur í rekstri á fyrstu sex mánuðum ársins


  -- Rekstrarafgangur Íbúðalánasjóðs nam 2.510 milljónum króna
  -- Eiginfjárgrunnur sjóðsins styrkist – eiginfjárhlutfallið vel yfir
     langtímamarkmiði
  -- Gæði útlána aukast og vanskil minnka verulega
  -- Góð ávöxtun eigna utan lánasafns

Árshlutareikningur Íbúðalánasjóðs fyrir fyrri hluta ársins 2016 var staðfestur
af stjórn sjóðsins í dag. Rekstrarniðurstaða ársins var jákvæð sem nemur 2.510
milljónum króna samanborið við 379 milljóna króna tap á sama tímabili árið á
undan. Viðsnúningurinn í rekstrinum nemur tæpum þremur milljörðum króna. 

Eiginfjárhlutfall sjóðsins er nú 6,45% en var 5,46% í upphafi ársins.
Hlutfallið er reiknað með sama hætti og eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja.
Langtímamarkmið sjóðsins er að hlutfallið sé yfir 5,0%. Eigið fé Íbúðalánasjóðs
í lok tímabilsins er 21.781 milljónir króna en var 19.271 milljónir króna í
árslok 2015. 

Rekstrarafkoma sjóðsins heldur áfram að batna

Vaxtatekjur tímabilsins námu samtals 28.048 milljónum króna samanborið við
vaxtatekjur að fjárhæð 30.253 milljónum króna fyrir sama tímabil árið 2015.
Hreinar vaxtatekjur námu 525 milljónum króna á tímabilinu en voru neikvæðar um
473 milljónir króna fyrir sama tímabil árið 2015. Styrking efnahags sjóðsins
vegna áherslu á sölu fullnustueigna ásamt fjárfestingu í vaxtaberandi
skuldabréfum skýrir að mestu aukninguna á hreinum vaxtatekjum. Á síðari hluta
ársins má gera ráð að hreinar vaxtatekjur aukist enn frekar, m.a. vegna sölu
Leigufélagsins Kletts ehf. 

Rekstrarkostnaður sjóðsins á tímabilinu nam 909 milljónum króna en þar af voru
87 milljónir  einskiptiskostnaður vegna hagræðingaraðgerða og undirbúnings
sjóðsins vegna nýrra laga um almennar íbúðir nr. 52/2016. Að frádregnum
einskiptisliðum lækkar rekstrarkostnaður sjóðsins milli ára um 9,5%. Lækkunin
verður þrátt fyrir umtalsverðar hækkanir launa í kjölfar kjarasamninga. 

Stöðugildum fækkaði um 20% frá fyrra ári og voru þau 76 þann 30. júní 2016
samanborið við 95 á sama tímabili árið 2015. Í áætlunum sjóðsins er gert ráð
fyrir að fækkun stöðugilda skili sér að hluta á síðari helmingi ársins í lækkun
rekstrarkostnaðar en verði komnar að fullu til framkvæmda á árinu 2017.
Rekstrarkostnaður sem hlutfall af heildareignum sjóðsins nam 0,23% á
ársgrundvelli. 

Á tímabilinu seldi sjóðurinn Leigufélagið Klett ehf. og innleysti við það
söluhagnað að fjárhæð 1.427 milljónir króna. 

Enn dregur úr vanskilum bæði heimila og lögaðila

Þann 30. júní 2016 voru útlán sjóðsins 614 milljarðar króna og höfðu útlán
lækkað um 34 milljarða króna frá áramótum. Þar af eru um 9,5 milljarðar vegna
skuldaúrræða stjórnvalda. Lántaka sjóðsins nam 776 milljörðum króna og lækkaði
um 8,4 milljarða á tímabilinu. Heildareignir sjóðsins námu 798 milljörðum
króna. 

Í lok tímabilsins voru 98% heimila sem eru í viðskiptum við Íbúðalánasjóð með
lán sín í skilum. Vanskil heimila hafa minnkað verulega á milli tímabila. Um
2,5% heimila voru með þrjá eða fleiri gjalddaga í vanskilum þann 30. júní 2016
samanborið við 4,3% heimila á sama tíma árið 2015. Virðisrýrnun útlána nam
8.033 milljónum króna í lok tímabilsins og lækkar um 8.115 milljónir króna frá
upphafi árs. 

Tryggingarstaða lánasafnsins batnar

Um 96% af bókfærðu virði lánasafns Íbúðalánasjóðs liggur á veðbili innan við
90% af fasteignamati undirliggjandi veðandlags við lok tímabilsins.
Fasteignaverð hefur hækkað umfram verðlag á tímabilinu og vanskil minnkað
umtalsvert og því hefur tryggingarstaða lánasafnsins styrkst. Yfirgnæfandi
hluti lána sjóðsins er á fyrsta veðrétti auk þess sem fasteignamat er að öllu
jöfnu varkár verðmatsaðferð fyrir markaðsvirði eignar. 

Eignir utan lánasafns jukust

Eignir utan lánasafns að meðtöldu lausafé jukust milli ára og eru 161
milljarður króna. Skýrist það fyrst og fremst af góðum árangri í sölu
fullnustueigna og uppgreiðslum lána. Raunávöxtun eigna utan lánasafns á
tímabilinu var 3,39%. Þann 25. maí sl. var skipuriti sjóðsins breytt og sett á
laggirnar nýtt svið, fjárstýringarsvið, sem er ábyrgt fyrir umsýslu eigna
sjóðsins utan efnahags. 



Íbúðum í eigu Íbúðalánasjóðs fækkar

Í lok tímabilsins voru 825 íbúðir í eigu sjóðsins og hafði þeim fækkað um 523
íbúðir á fyrri hluta ársins. Bókfært virði íbúða sjóðsins er 12,3 milljarðar
króna, á sama tíma og fasteignamat eignanna nemur 15,7 milljörðum króna. Bundið
fé í íbúðum til sölu lækkar um 8,3 milljarða króna á tímabilinu og er umbreytt
í vaxtaberandi eignir. Á tímabilinu seldi sjóðurinn 667 íbúðir og leysti til
sín 144 íbúðir. Um 47% eigna sjóðsins sem eru til sölu eru í útleigu. Fækkun
íbúða í eigu sjóðsins og þar af leiðandi minni fjárbinding í íbúðum auk sölu á
Leigufélaginu Kletti mun hafa jákvæð áhrif á hreinar vaxtatekjur sjóðsins á
komandi misserum. 

Nánari upplýsingar veita Hermann Jónasson forstjóri og Sigurður Jón Björnsson
framkvæmdastjóri fjármálasviðs í síma 569 6900.