2012-03-30 17:58:54 CEST

2012-03-30 17:59:55 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Lánamál ríkisins - Fyrirtækjafréttir

Stefna í lánamálum ríkissjóðs fyrir árin 2012 – 2015


Fjármálaráðuneytið kynnir stefnu í lánamálum ríkissjóðs 2012 - 2015.

Stefnan endurspeglar áform stjórnvalda um framkvæmd lánsfjármögnunar á
tímabilinu. Í stefnunni er lýst núverandi samsetningu lána ríkissjóðs, helstu
áhættuþáttum við lánastýringu og áhættuskuldbindingum ríkissjóðs. Þá er lýst
skipulagi við framkvæmd lánamála. Fjármálaráðuneytið ber ábyrgð á lánaumsýslu
ríkisins, mótar stefnu í lánamálum og tekur ákvarðanir um útgáfu verðbréfa.
Lánamál ríkisins, sérstök deild innan Seðlabankans, sér um framkvæmd stefnunnar
í samræmi við samning milli bankans og fjármálaráðuneytisins . 

Stefna í lánamálum er nú birt öðru sinni. Tvær breytingar hafa verið gerðar á
markmiðum og viðmiðum við stýringu lánamála frá fyrri útgáfu. Annars vegar er
viðmiðunarreglum um samsetningu lánasafns ríkissjóðs breytt lítillega. Hins
vegar er gerð sú breyting á markmiði um       endanlega stærð útgáfuflokka
ríkisbréfa að þegar flokkur er eingöngu gefinn út til 2 ára verði endanleg
stærð að lágmarki 15 ma.kr. Að öðru leyti er markmið um endanlega stærð flokka
ríkisbréfa óbreytt. 

  Helstu markmið við lánastýringu ríkisins eru:

  -- Að tryggja að lánsfjárþörf og fjárhagslegum skuldbindingum ríkissjóðs sé
     mætt með lágmarkskostnaði til lengri tíma litið, að teknu tilliti til
     varfærinnar áhættustefnu.

  -- Að tryggja að endurgreiðsluferill lána sé í samræmi við greiðslugetu
     ríkisins til lengri tíma litið.

  -- Að viðhalda og stuðla að frekari uppbyggingu á skilvirkum frum- og
     eftirmarkaði með innlend ríkisverðbréf.

  -- Að höfða til breiðs hóps fjárfesta í ríkisverðbréfum og nýta fjölbreytta
     fjármögnunarmöguleika.

  -- Stefnan verður uppfærð og endurskoðuð árlega. 

Uppbygging markflokka ríkisbréfa miðar að því að  hver flokkur verði nægilega
stór til að tryggja virka verðmyndun á eftirmarkaði. Árlega verða gefnir út 2,
5 og 10 ára markflokkar ríkisbréfa. Til að draga úr endurfjármögnunaráhættu er
stefnt að því að endurgreiðsluferill ríkisverðbréfa verði sem jafnastur. Þá er
stefnt að því að meðallánstími verði 4 ár að lágmarki. 

Lán ríkissjóðs í erlendum gjaldmiðlum eru einkum tekin til að styrkja
gjaldeyrisforða Seðlabankans. Stefnt er að reglulegri útgáfu markaðsskuldabréfa
ríkissjóðs á alþjóðlegum mörkuðum og höfða skal til fjölbreytts hóps fjárfesta. 

Lesa má stefnuna í lánamálum ríkissjóðs 2012 - 2015 í heild sinni á vef
fjármálaráðuneytisins