2016-05-27 10:20:13 CEST

2016-05-27 10:20:13 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Eimskipafélag Íslands hf. - Breyting á stjórn/framkvæmdastjórn/endurskoðendum

Skipulagsbreytingar hjá Eimskip


Í ljósi breytinga sem átt hafa sér stað í rekstrarumhverfi Eimskips og umfangi
hefur félagið ákveðið að breyta stjórnskipulagi sínu svo það taki mið af
breyttum áherslum og aukinni alþjóðastarfsemi. Breytingarnar munu taka gildi
þann 1. júní 2016. 

Félagið hefur á undanförnum misserum fjárfest í fyrirtækjum bæði hérlendis og
erlendis og er því nauðsynlegt að aðlaga skipulagið að breyttum tímum og auknum
vexti. Samfara fjárfestingum er nauðsynlegt að leggja aukna áherslu á
samræmingu mannauðsstefnu félagsins og fyrirtækjamenningar og vinna jafnframt
að aukinni skilvirkni í rekstri með samþættingu þeirra fyrirtækja sem fjárfest
hefur verið í. 

Meginbreytingarnar felast í því að nýju stoðsviði, mannauðssviði sem Elín
Hjálmsdóttir mun stýra, er ætlað að samræma mannauðsstefnu og
fyrirtækjamenningu Eimskips í þeim löndum þar sem félagið starfar. 

Yfirstjórn alþjóðasviðs sem Bragi Þór Marinósson stýrir flyst til Hollands til
að fylgja eftir fjárfestingum sem félagið hefur lokið og eru í vinnslu. 

Skiparekstur félagsins mun heyra undir fjármála- og rekstrarsvið. Ásbjörn
Skúlason starfar áfram sem framkvæmdastjóri þýska fyrirtækisins Eimskip & KCie
með aðsetur í Þýskalandi, en fyrirtækið ber ábyrgð á  rekstri, viðhaldi og
endurnýjun á skipaflota Eimskips. 

Skrifstofa forstjóra mun fara með lögfræðileg málefni, markaðs- og kynningarmál
ásamt fjárfestatengslum og samræmingu á verkefnum tengdum fjárfestingum. 

Undir forstjóra félagsins, Gylfa Sigfússon, falla fimm meginsvið:

Fjármála- og rekstrarsvið (Finance and Operation), framkvæmdastjóri er Hilmar
Pétur Valgarðsson. Meginábyrgð sviðsins er stýring fjármála Eimskips á
alþjóðavísu, tryggingar og fasteignir, rekstur upplýsingakerfa, auk þess sem
skiparekstur fellur nú undir sviðið. 

Flutningasvið (North Atlantic Container Liner Services), framkvæmdastjóri er
Matthías Matthíasson. Meginábyrgð sviðsins er sala og þjónusta í tengslum við
áætlunarsiglingar félagsins, stórflutningar (bulk) til og frá Íslandi og
flutninga- og gámastýring. 

Innanlandssvið (Iceland Domestic Operations and Services), framkvæmdastjóri er
Guðmundur Nikulásson. Meginábyrgð sviðsins er rekstur á innanlandskerfi
Eimskips á Íslandi, þ.e. starfsstöðvar Eimskips um allt land, rekstur
hafnarsvæða, flutningabifreiða, vöruhúsa,  frysti- og kæligeymslna, sem og
ferjurekstur. 

Alþjóðasvið (International Operations and Logistics), framkvæmdastjóri er Bragi
Þór Marinósson. Meginábyrgð sviðsins er rekstur starfsstöðva Eimskips erlendis
og flutningaþjónustu um heim allan. Aðalskrifstofa alþjóðasviðs mun verða
staðsett í Hollandi. 

Mannauðssvið (Human Resources), framkvæmdastjóri er Elín Hjálmsdóttir og kemur
hún ný inn í framkvæmdastjórn. Meginábyrgð sviðsins er stefnumótun, framkvæmd
og eftirfylgni mannauðsmála hjá Eimskip á alþjóðavísu. 

Elín hóf störf hjá Eimskip árið 2004 og starfaði í fyrstu við launa- og
kjaramál og síðar ráðningar. Hún tók við starfi deildarstjóra ráðninga og
starfsþróunar árið 2006 en árið 2008 tók hún við starfi starfsmannastjóra
Eimskips á Íslandi. Í kjölfar skipulagsbreytinga árið 2009 tók hún við starfi
starfsmannastjóra Eimskips samstæðunnar. 

Elín lauk  B.Sc. gráðu í viðskiptafræði árið 2002 og MBA gráðu frá Háskólanum í
Reykjavík árið 2005.