2007-12-04 17:43:45 CET

2007-12-04 17:43:45 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
FL GROUP hf. - Fyrirtækjafréttir

Jón Sigurðsson tekur við starfi forstjóra FL Group


Jón Sigurðsson, sem verið hefur aðstoðarforstjóri FL Group frá árinu 2006,
hefur tekið við starfi forstjóra félagsins af Hannesi Smárasyni, sem lætur af
störfum. Hannes verður áfram í hópi stærstu hluthafa FL Group og mun taka sæti
í stjórn félagsins. 
	
Þá er stefnt að því að félag í eigu Hannesar kaupi 23% eignarhlut í Geysi Green
Energy af FL Group. Eignarhlutur FL Group í Geysi eftir viðskiptin yrði því
20,0%. 

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður FL Group:

“Samhliða kaupum á fasteignafélögum sem kynnt eru í dag og þeirri
hlutafjáraukningu sem framundan er, hefur Hannes Smárason ákveðið að láta af
starfi sínu sem forstjóri  félagsins. Full sátt er um þau starfslok og mun hann
 taka sæti í stjórn félagsins og styðja við vöxt FL Group með þekkingu sinni og
reynslu. 

FL Group hefur undir stjórn Hannesar náð miklum árangri og hafa umsvif
félagsins margfaldast í stjórnartíð hans. Á þessum tímamótum er ánægjulegt að
tilkynna um ráðningu Jóns Sigurðssonar í starf forstjóra, sem gegnt hefur
lykilhlutverki í félaginu síðastliðin tvö ár.“ 

Hannes Smárason, fyrrum forstjóri FL Group:

„Með þessum breytingum í eignarhaldi FL Group tel ég eðlilegt að ég láti af
starfi mínu sem forstjóri félagsins. Á þeim tíma sem ég heft gegnt starfi
forstjóra FL Group hefur félagið tekið miklum breytingum, frá því að vera lítið
fjárfestingafélag í að vera öflugt alþjóðlegt félag með yfir 400 milljarða
króna í heildareignir og um 4.000 hluthafa. Ég mun taka sæti í stjórn FL Group
og jafnframt koma að Geysi sem kjölfestufjárfestir. 

Samstarf okkar Jóns Sigurðssonar hefur verið einstaklega gott. Ég er viss um að
FL Group mun dafna vel undir hans stjórn og ég hlakka til að vinna með honum
áfram að málefnum félagsins.“ 

Jón Sigurðsson, forstjóri FL Group:

“Í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á hluthafahóp félagsins er ánægjulegt
að fá tækifæri til að taka við starfi forstjóra FL Group. Við munum áfram
stefna að því að efla eignasafn félagsins og fjárhagslegan styrk, þannig að FL
Group geti skilað góðri ávöxtun til hluthafa sinna. Í samvinnu við góðan hóp
stjórnenda munum við kappkosta að efla félagið enn frekar og styðja við okkar
lykilfjárfestingar, ásamt því að sýna aðhald í rekstri.“ 

FL Group hefur einnig tilkynnt í dag kaup félagsins á fasteignafélögum og
væntanlega útgáfu nýs hlutafjár. Nánari upplýsingar má finna í sérstakri
tilkynningu á heimasíðu félagsins, www.flgroup.is. 

Um Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson hóf störf hjá FL Group í september 2005, sem einn af
framkvæmdastjórum félagsins og var ráðinn aðstoðarforstjóri félagsins í
desember 2006. Jón starfaði áður hjá Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka. Jón er
B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Jón er varaformaður stjórnar
Glitnis banka, stjórnarmaður í Tryggingamidstodinni og í Hitaveitu Suðurnesja. 

Upplýsingar veitir:

Halldór Kristmannsson
Framkvæmdastjóri Samskiptasviðs 
Sími: 591 4400 / 669 4476
Póstfang: halldor@flgroup.is

jon_sigurdsson.jpg