2014-03-04 17:37:25 CET

2014-03-04 17:38:28 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Landsbankinn hf. - Ársreikningur

Landsbankinn: Ársuppgjör 2013


Hagnaður Landsbankans nam 28,8 milljörðum króna  eftir skatta á árinu 2013
samanborið við 25,5 milljarða króna á árinu 2012. Aukningin skýrist einkum af
hærri þjónustutekjum, virðisbreytingum lána og hlutabréfa auk lækkunar  á
kostnaði. 



Steinþór Pálsson  bankastjóri segir:

Afkoma Landsbankans er góð og sýnir traustan rekstur á öllum sviðum. Tekjur
bankans fara hækkandi og á sama tíma hefur verið dregið verulega úr
rekstrarkostnaði. Arðsemi eigin  fjár er ágæt þrátt fyrir hátt
eiginfjárhlutfall. Vegna traustrar lausafjárstöðu í erlendri mynt greiddi
bankinn annað árið í röð stóra fjárhæð  inn á skuld sína við LBI hf. Þá greiddi
Landsbankinn um 10 milljarða króna  í arð á árinu og bankaráð hefur samþykkt að
leggja til við aðalfund bankans að greiddur verði 20 milljarða króna  arður
vegna reksturs ársins 2013. Hagur eigenda, þar með ríkissjóðs sem stærsta
eiganda, af góðum rekstri bankans blasir því við. 

Á árinu 2013 vann bankinn að því að afla sér lánshæfismats frá alþjóðlegu
lánshæfismatsfyrirtæki og í  janúar 2014 veitti Standard & Poor´s 
Landsbankanum lánshæfiseinkunnina BB+ með stöðugum horfum. Þetta auðveldar
bankanum aðgengi að alþjóðlegum fjármálamörkuðum. 

Íþyngjandi skattar hafa verið lagðir á fjármálafyrirtæki og á árinu 2013 hækka
reiknaðir skattar Landsbankans um 8,2 milljarð króna  miðað  við árið á undan
og nema nú 12,3 milljörðum. Augljóst er að svo þungir skattar kunna að hafa
áhrif á kjör til viðskiptavina til lengri tíma. 

Landsbankinn leggur mikla  áherslu á að styðja viðskiptavini sína og hjálpa 
þeim að ná árangri og hafa útlán bankans aukist jafn og þétt og umsvif í
atvinnulífi einnig. Endurskipulagningu fyrirtækja er nú nánast lokið, fjár-
hagsstaða þeirra hefur styrkst og svigrúm til fjárfestinga aukist. 

Þegar á allt er litið var árið 2013 Landsbankanum hagfellt, unnið er að
framtíðarþróun bankans á mörgum sviðum, m.a. í rekstri útbúa og rafrænnar
greiðslumiðlunar. Mikill  árangur hefur náðst við hagræðingu í rekstri og áfram
verður haldið á þeirri braut. 



Helstu stærðir úr rekstri og efnahag

Rekstur:

» Hagnaður Landsbankans nam 28,8 milljörðum króna  árið 2013, samanborið við
25,5 miljarða króna  árið áður. Hagnaður bankans hefur aukist um 13% milli 
ára. 

» Arðsemi eigin  fjár eftir skatta hækkar lítillega, þrátt fyrir hækkun
eiginfjár.  Arðsemin var 12,4% árið 2013 samanborið við 12,0% árið 2012. 

» Hreinar vaxtatekjur námu 34,3 milljörðum króna  á árinu 2013 en árið 2012
námu þær 35,6 milljörðum króna. 

» Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna lækkar lítillega, var 3,1%
á árinu 2013 en 3,2% árið 2012. 

» Hreinar þjónustutekjur námu 5,3 milljörðum króna  og hafa aukist um rúmlega
800 milljónir frá því árið áður, eða um 19%. 

» Að teknu tilliti til verðbólgu hefur raunlækkun rekstrarkostnaðar milli  ára
verið 10,1%. Markmið bankans fyrir árið 2013 var að lækka  rekstrarkostnað
bankans um 5%. 

» Laun og tengd gjöld lækka  um 4% milli  ára, en sú lækkun er að frádreginni
gjaldfærslu launa vegna móttöku hlutabréfa frá LBI hf. þar sem sama  fjárhæð 
er einnig færð til tekna í bókhaldi bankans. 

» Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum lækkar um 9%.

» Kostnaðarhlutfall lækkar einnig milli  ára, var 42,9% fyrir árið 2013
samanborið við 45% árið 2012. 

» Skattar Landsbankans á árinu 2013 voru um 12,3 milljarðar króna  og hækka um
8,2 milljarða króna  milli ára. Reiknaður tekjuskattur hækkar um 4 milljarða,
sérstakur fjársýsluskattur og sérstakur skuldaskattur á fjármálafyrirtæki hækka
um 2 milljarða hvor liður. 

» Stöðugildi í lok árs voru 1.183 og fækkaði um 50 á árinu.



Efnahagur:

» Eigið fé bankans nam í lok árs 2013 um 241,4 milljörðum króna. Það hefur
hækkað um 7% frá áramótum 2012 þrátt fyrir 10 milljarða króna  arðgreiðslu á
árinu. 

» Eiginfjárhlutfall bankans (CAR - Capital Adequacy Ratio) er hátt og vel
umfram kröfur Fjármálaeftirlitsins. Það var 26,7% í lok árs 2013 en 25,1% í lok
árs 2012. 

» Heildareignir bankans námu 1.152 milljörðum í lok árs 2013. Aukningin er um
6% milli  ára og skýrist helst af auknum lausafjáreignum. Bankinn hefur lánað 
rúma 143 milljarða króna  í ný útlán á árinu en vegna afborgana og styrkingar
krónunnar og þar með lækkunar erlendra lána aukast heildarútlán um samtals 14
milljarða króna. 

» Innlán viðskiptavina án fjármálafyrirtækja jukust um 8,5% á árinu eða um 35,6
milljarða. 

» Lausafjárstaða bankans er mjög sterk, bæði í erlendri mynt og í íslenskum
krónum og vel yfir kröfum eftirlitsaðila. Hlutfall lausafjár af innlánum var
49,8% í lok árs 2013 en var 48,4% í lok árs 2012.  Heildarlausafjárstaða
bankans, sem og lausafjárstaða bankans í erlendri mynt, er jafnframt vel umfram
þau viðmið sem sett hafa verið samkvæmt nýjum lausafjárreglum Seðlabankans. 

» Gjaldeyrisjöfnuður bankans er í góðu horfi og eignir í erlendri mynt eru um
14,5 milljarðar króna  umfram skuldir í erlendri mynt. 

» Liðurinn eignir til sölu lækkaði lítillega á árinu, þrátt fyrir að bankinn
hafi eignast Ístak hf. á haustmánuðum. Fyrirtækið hefur verið auglýst til sölu
og búist er við að gengið verði frá sölunni á næstu mánuðum. 

» Heildarvanskil hjá fyrirtækjum og heimilum stóðu í 5,3% í lok árs 2013, en
voru 8,3% á sama  tíma árið áður. 



Helstu þættir í rekstri á árinu 2013

» Landsbankinn gaf í apríl út skuldabréf til LBI hf. að andvirði 92 milljarða
króna  en um leið lét LBI hf. af hendi öll hlutabréf sín í bankanum til
ríkisins og Landsbankans. 

» Nýtt bankaráð tók til starfa að loknum aðalfundi í apríl. Formaður þess er
Tryggvi Pálsson. 

» Landsbankinn lauk í júní fyrstu útgáfu sinni á sértryggðum skuldabréfum og
eru bréfin óverðtryggð með föstum 6,3% vöxtum til þriggja ára. Fjárhæð
útgáfunnar í árslok  nam 1.920 milljónum króna. Samhliða útgáfunni lækkaði
Landsbankinn kjör á óverðtryggðum íbúðalánum. 

» Landsbankinn seldi í júní 25% eignarhlut í fasteignafélaginu Reginn hf. fyrir
rúma 4 milljarða króna, en hafði á árinu 2012 selt 75% í félaginu við skráningu
þess í kauphöll. 

» Landsbankinn eignaðist í september allt hlutafé í verktakafyrirtækinu Ístaki
hf., sem áður var dótturfélag danska verktakafyrirtækisins E. Phil&Søn A/S, en
það var lýst gjaldþrota í ágúst. Sala fyrirtækisins hefur nú þegar verið
auglýst. 

» Samkomulag náðist um dreifingu hlutabréfa í bankanum til starfsmanna samkvæmt
samningi sem gerður var milli  LBI hf., fjármálaráðuneytisins og Landsbankans í
desember 2009. 

» Sértryggð skuldabréf Landsbankans voru tekin til viðskipta á NASDAQ OMX
Iceland þann  10. október, en þetta er fyrstu verðbréf bankans sem skráð eru í
kauphöll. 

» Landsbankinn greiddi út arð í fyrsta skipti til eigenda sinna.  Arðgreiðslan
nam 39% af hagnaði síðasta árs eða tæplega 10 milljörðum króna. Arðgreiðslan
kom til lækkunar á eigin  fé á öðrum ársfjórðungi. 

» Landsbankinn opnaði á árinu fyrsta útibúið af nýrri  kynslóð útibúa við
Hagatorg í Reykjavík. Engar gjaldkera- stúkur eru í útibúinu og höfuðáhersla er
lögð á umfangsmeiri ráðgjöf  og persónulegri þjónustu við viðskiptavini. 

» Bankinn fyrirframgreiddi sem samsvarar 50 milljörðum króna  inn á skuld sína
við LBI hf. í lok árs. 

» Á árinu 2013 var unnið að því að afla bankanum alþjóðlegs lánshæfismats og í
janúar 2014 veitti Standard& Poor‘s bankanum einkunnina BB+ með stöðugum
horfum. 



Helstu verkefni framundan

Rekstur Landsbankans

Búist er við að rekstur Landsbankans verði áfram  traustur líkt og verið hefur.
 Markmið bankans er að ná fram 15% raunlækkun rekstarkostnaðar á árunum 2013
-15 og hefur þegar náðst fram 10% lækkun. 



Endurskipulagning á þjónustu við viðskiptavini

Landsbankinn mun  á árinu 2014 halda  áfram  að þróa og bæta þjónustu sína við
viðskiptavini. Í vor verður opnuð fyrirtækjamiðstöð í Borgartúni 33 í
Reykjavík, þar sem sameinuð verður öll þjónusta við lítil og meðalstór fyrir-
tæki á höfuðborgarsvæðinu. Um leið munu öll útibú bankans á sama  svæði
einbeita sér að þjónustu við einstaklinga. 



Leiðrétting ólögmætra gengistryggðra lána

Landsbankinn lauk á árinu 2013 leiðréttingu endurreiknings á um 18.000 lánum
sem kváðu á um ólögmæta gengistryggingu, þar með talið bílalánum,
fasteignalánum og lánum til fyrirtækja. Samanlögð fjárhæð  þessara leiðréttinga
er um 21 milljarður króna. Í kjölfar dóma Hæstaréttar undir lok árs 2013 sem
vörðuðu uppgreidda saminga og fjármögnunarleigusamninga, liggur fyrir að
leiðrétta og endurreikna þarf um 17.000 lán til viðbótar því sem áður var
talið. Bankinn hefur sett sér það markmið að leiðréttingu allra þessara lána
verði lokið á fyrri hluta þessa  árs. Unnið er að útfærslu á skuldaleiðréttingu
ríkisstjórnarinnar og mun  bankinn hefjast handa við hana  um leið og fyrir
liggur hvernig henni skuli hagað. 



Samningur við LBI hf.

Landsbankinn hf. skuldar LBI hf. 237,7 milljarðakróna í erlendri mynt miðað 
við árslok  2013. Vegna sterkrar lausafjárstöðu greiddi Landsbankinn fyrirfram
jafnvirði rúmra 70 milljarða króna  inn á lánin um mitt ár 2012 og síðan 
jafnvirði 50 milljarða í desember 2013. Engu að síður mætir bankinn stífum
kröfum Seðlabankans um lausafjárstöðu í erlendri mynt. Fjármagnskostnaður
bankans lækkar vegna þessara fyrirframgreiðslna og um leið hefur verið dregið
verulega úr veðsetningu á eignum bankans. Þann  2. október sl. samþykkti
slitastjórn LBI beiðni Landsbankans um viðræður um breytingar á skuldabréfunum.
Skuldabréfin eiga að koma til greiðslu á árunum2014 til 2018 miðað  við
núverandi skilmála. 



Nánari upplýsingar veita:

Kolbrún Guðlaugsdóttir, fjárfestatengill, ir@landsbankinn.is og í síma 410 4014

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi, pr@landsbankinn.is og í síma 410 4011