2014-05-21 19:36:17 CEST

2014-05-21 19:37:20 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Arion Bank hf. - Ársreikningur

Afkoma Arion banka á fyrsta ársfjórðungi 2014


Hagnaður Arion banka á fyrstu þremur mánuðum ársins 2014 nam 2,9 milljörðum
króna eftir skatta samanborið við 1,4 milljarða króna á sama tímabili 2013.
Arðsemi eigin fjár var 7,8% samanborið við 4,3% á sama tímabili árið 2013.
Arðsemi af kjarnastarfsemi var 5,9% en var 7,6% á sama tímabili árið 2013.
Heildareignir námu 933,1 milljarði króna samanborið við 938,9 milljarða króna í
árslok 2013. 

Eiginfjárhlutfall bankans í lok tímabilsins var 22,5% en var 23,6% í árslok
2013. 

Helstu atriði árshlutareikningsins:

  -- Hagnaður eftir skatta nam 2,9 mö.kr. samanborið við 1,4 ma.kr. á sama
     tímabili 2013.
  -- Tekju- og bankaskattar námu samtals 2,0 mö.kr. samanborið við 0,7 ma.kr. á
     sama tímabili 2013.
  -- Hagnaður af kjarnastarfsemi nam 1,6 mö.kr. samanborið við 2,1 ma.kr. á sama
     tímabili 2013.
  -- Rekstrartekjur námu 9,0 mö.kr. samanborið við 9,1 ma.kr. á sama tímabili
     árið 2013.
  -- Hreinar vaxtatekjur námu 5,5 mö.kr. samanborið við 6,3 ma.kr. á sama
     tímabili 2013. Lækkunin skýrist einkum af lægri verðbólgu.
  -- Hreinar þóknanatekjur námu 3,1 ma.kr. samanborið við 2,4 ma.kr. á sama
     tímabili 2013. Aukningin er einkum tilkomin vegna hærri þóknanatekna hjá
     eignastýringu og af greiðslukortum.
  -- Annar rekstrarkostnaður nam 2,7 mö.kr. samanborið við 3,3 ma.kr. á sama
     tímabili 2013.
  -- Hrein virðisbreyting er jákvæð á tímabilinu og nemur 2,0 mö.kr. í
     samanburði við 322 m.kr. gjaldfærslu á sama tímabili 2013. Virðisaukning
     útlána til fyrirtækja nemur 2,0 mö.kr. á fyrstu þremur mánuðum ársins en
     niðurfærsla útlána til einstaklinga nemur 0,8 mö.kr. Virðisaukning annarra
     eigna nemur 0,7 m.kr. á tímabilinu.
  -- Arðsemi eigin fjár var 7,8% en var 4,3% á sama tímabili 2013. Arðsemi af
     kjarnastarfsemi var 5,9% samanborið við 7,6% á sama tímabili 2013.
  -- Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var 2,6% en var 3,1% á sama
     tímabili árið 2013.
  -- Kostnaðarhlutfall var 69,0% en var 72,6% á sama tímabili 2013.
     Kostnaðarhlutfall af kjarnastarfsemi nam 66,8% samanborið við 66,7% á sama
     tímabili 2013.
  -- Heildareignir námu 933,1 ma.kr., samanborið við 938,9 ma.kr. í árslok 2013.
  -- Eigið fé bankans var 147,8 ma.kr. en nam 144,9 mö.kr. í lok árs 2013.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Afkoma bankans á fyrsta ársfjórðungi er viðunandi. Hagnaðurinn eykst nokkuð
samanborið við fyrsta ársfjórðung síðasta árs, þrátt fyrir aukna skattbyrði, og
er arðsemi eiginfjár 7,8%. Þrátt fyrir það lækka tekjur bankans og þá fyrst og
fremst vegna lægri vaxtamunar þar sem verðbólga er lægri á tímabilinu en fyrir
ári síðan. Að auki hafa markaðsaðstæður verið með þeim hætti að virði eigna
bankans í verðbréfum og gjaldeyri lækkar á tímabilinu. Við erum þó ánægð með að
þóknanatekjur hækka frá því sem var á sama tímabili fyrir ári en markvisst
hefur verið unnið að því á undanförnum misserum að styrkja grundvöll
þóknanatekna bankans. Hækkunina má fyrst og fremst rekja til eignastýringar og
kortaviðskipta. Einnig hefur á undanförnu ári náðst góður árangur hvað
rekstrarkostnað bankans varðar en hann lækkar á milli tímabila og starfsfólki
bankans fækkar. 

Mikilvægur áfangi náðist í upphafi árs þegar bankinn fékk lánshæfismatið BB+
frá Standard & Poor‘s, fyrstur íslensku bankanna. Lánshæfismat frá alþjóðlegu
fyrirtæki greiðir leið okkar að erlendum lánsfjármörkuðum. Í dag er Arion banki
hins vegar fullfjármagnaður og engin endurfjármögnunarþörf til staðar á næstu
árum en við munum engu að síður, þegar markaðsaðstæður eru réttar, sækja okkur
lánsfé og þá með það að markmiði að bæta gæði fjármögnunar bankans og lækka
fjármagnskostnað.“ 



Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs
Arion banka, haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.