2012-08-31 14:47:00 CEST

2012-08-31 14:48:04 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Arion Bank hf. - Ársreikningur

Afkoma Arion banka á fyrstu sex mánuðum ársins 2012


Afkoma Arion banka á fyrri helmingi ársins 2012 var jákvæð um 11,2 milljarða
króna eftir skatta samanborið við 10,2 milljarða króna á árinu 2011. Arðsemi
eigin fjár var 18,8% samanborið við 20,3% á sama tímabili árið 2011. Arðsemi af
reglulegri starfsemi var 11,8% en var 11,2% á sama tímabili árið 2011.
Árshlutareikningurinn fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2012 er kannaður af
endurskoðendum bankans. 

Eiginfjárhlutfall bankans í lok tímabilsins var 22,3% en í lok annars
ársfjórðungs 2011 var það 21,4%.  Krafa Fjármálaeftirlitsins kveður á um 16%
eiginfjárhlutfall. 


Helstu atriði árshlutareikningsins:

  -- Hagnaður eftir skatta nam 11,2 mö.kr. samanborið við 10,2 ma.kr. á sama
     tímabili 2011.
  -- Hagnaður annars ársfjórðungs nam 6,8 mö.kr. samanborið við 7,2 ma.kr. á
     öðrum ársfjórðungi 2011.
  -- Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 7,0 mö.kr. samanborið við 5,8 ma.kr. á
     síðasta ári.
  -- Rekstrartekjur námu alls 24,9 mö.kr. samanborið við 24,5 ma.kr. 2011.
  -- Hreinar vaxtatekjur námu 13,9 mö.kr. samanborið við 11,2 ma.kr. árið 2011.
  -- Arðsemi eigin fjár var 18,8% en var 20,3% árið 2011. Arðsemi af reglulegri
     starfsemi var 11,8% samanborið við 11,2% á sama tímabili í fyrra.
  -- Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var 3,4% á tímabilinu
     samanborið við 3,2% árið 2011.
  -- Launakostnaður hækkar um 12% milli ára, m.a. vegna nýs fjársýsluskatts á
     laun starfsmanna fjármálafyrirtækja sem nemur 5,45%.
  -- Reiknaður tekjuskattur nam 2,9 mö.kr. samanborið við 2,5 ma.kr. á sama
     tímabili 2011, sem er m.a vegna nýs 6% skatts á hagnað fjármálafyrirtækja
     umfram 1 ma.kr.
  -- Eiginfjárhlutfall var 22,3% samanborið við 21,4% á sama tíma 2011.
  -- Lausafjárhlutfall bankans var 32% sem er vel yfir 20% kröfu FME.
  -- Reiðufjárhlutfall bankans var 14%, en FME gerir kröfu um 5%.
  -- Útlán til viðskiptavina í lok tímabilsins námu 578,9 mö.kr., samanborið við
     447,7 ma.kr. á sama tíma 2011. Aukningin skýrist fyrst og fremst af
     yfirtöku á íbúðalánasafni Kaupþings undir lok árs 2011.
  -- Heildareignir námu 880,1 mö.kr., samanborið við 805,3 ma.kr. í lok júní
     2011.
  -- Eigið fé bankans í lok júní 2012 var 125,1 ma.kr. en nam 117,2 mö.kr. í lok
     júní 2011.



Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Afkoma bankans fyrstu sex mánuði ársins er viðunandi og í samræmi við okkar
væntingar. Ég er ánægður með þann stöðugleika sem uppgjörið sýnir. Afkoma
bankans af reglulegri starfsemi var ásættanleg en þrátt fyrir góðan rekstur þá
viljum við sjá þóknanatekjur bankans hækka og kostnað við rekstur bankans
lækka. Að þessum þáttum munum við vinna á næstu misserum. 

Á tímabilinu höfum við selt hluti í félögum sem við höfum þurft að taka yfir og
má þar nefna hluti í Högum, N1, BM Vallá og Pennanum. Þetta hefur gengið vel og
hafði jákvæð áhrif á afkomu bankans upp á um tvo milljarða króna. Einnig hefur
virðisbreyting útlána jákvæð áhrif sem nemur rúmum þremur milljörðum króna. 

Við höfum á þessum fyrstu mánuðum ársins unnið að því að auka fjölbreyttni í
fjármögnun bankans með útgáfu sértryggðra skuldabréfa, jafnt verðtryggðra sem
óverðtryggðra. Markaðurinn hefur tekið útgáfu bankans með jákvæðum hætti og
munum við halda áfram á þeirri braut. 

Eitt helsta verkefni okkar á tímabilinu og fram á veg snýr að þjónustu við
okkar viðskiptavini. Við leitum stöðugt leiða til að gera þjónustu okkar enn
betri og eru í gangi innan bankans fjölmörg stór verkefni sem öll miða að þessu
marki. Rík áhersla hefur verið á vöruþróun og nýlega kynntum við nýtt
snjallsímaforrit, Arion banka appið, sem gerir notendum mögulegt að framkvæma
margþættar aðgerðir með afar einföldum og þægilegum hætti í símanum. Það er
ekki annað að sjá en að viðskiptavinir okkar kunni vel að meta þær nýju vörur
og þá þjónustuþætti sem bankinn hefur kynnt til leiks á undanförnum misserum.“ 



Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka,
haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.