2008-08-22 15:29:47 CEST

2008-08-22 15:30:55 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Icebank - Ársreikningur

- 6 mánaða uppgjör Icebank 2008


Afkoma Icebank hf. á öðrum ársfjórðungi 2008:
Hagnaður Icebank nemur 560 milljónum króna á  öðrum ársfjórðungi

Verulegur bati varð á rekstri Icebank á öðrum ársfjórðungi þessa árs borið
saman við fyrsta ársfjórðung og varð hagnaður tímabilsins rúmlega 560 m.kr.
Nemur breytingin tæplega 4.000 m.kr. frá fyrsta ársfjórðungi en þá var
reksturinn neikvæður um 3.360 m.kr. Þrátt fyrir þennan bata er afkoma bankans
fyrri hluta 2008 enn neikvæð um tæplega 2.800 m.kr. samanborið við 4.198 m.kr.
hagnað á sama tímabili 2007. 

Mestu munar um mikinn viðsnúning á gengishagnaði milli ársfjórðunga. Hann varð
jákvæður um 513 m.kr. á öðrum ársfjórðungi en var neikvæður um 2.117 m.kr. á
þeim fyrsta. Stafar þetta fyrst og fremst af því að talsvert hefur verið dregið
úr hlutabréfaeign bankans. 

Hreinar þóknanatekjur jukust einnig milli ársfjórðunga, úr því að vera
neikvæðar um tæpar 6 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi í það að verða jákvæðar um
tæplega 155 m.kr. á öðrum ársfjórðungi. Þennan viðsnúning má einkum rekja til
aukinna umsvifa á gjaldeyrismarkaði og vaxandi umsvifa fyrirtækjaráðgjafar, nýs
tekjusviðs sem hóf starfsemi í upphafi ársins. 

Grunnrekstur bankans er áfram mjög öflugur og hafa hreinar vaxtatekjur á fyrri
hluta ársins aldrei verið hærri eða 1.599 m.kr. Sem hlutfall af
rekstrarkostnaði voru hreinar rekstrartekjur 174% sem þýðir að þær einar standa
vel undir öllum rekstrarkostnaði bankans. 

Rekstrarkostnaður bankans lækkar um 100 m.kr. á milli ársfjórðunga og nemur
tæplega 920 m.kr. á fyrstu 6 mánuðum  ársins borið saman við 566 m.kr. fyrir
sama tímabil í fyrra. Veruleg fjölgun hefur orðið í starfsliði bankans milli
ára eða úr 80 stöðugildum í lok fyrri hluta 2007 í 114 í lok sama tímabils í
ár. Vegna vaxandi umsvifa  hefur annar rekstrarkostnaður, einkum
upplýsingatæknikostnaður, hækkað umtalsvert. 

Varúðarfærsla vegna virðisrýrnunar útlána nemur rúmlega 1.618 m.kr. á
ársfjórðungnum en var tæplega 2.280 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi. Nemur því
heildar varúðarfærsla það sem af er þessu ári tæpum 3.900 m.kr. 

Niðurstöðutala efnahagsreiknings var 289 ma.kr. í lok júní og hækkar frá
áramótum um tæp 15%. Stafar það annars vegar af auknum umsvifum á
millibankamarkaði og hins vegar af breytingum á gengi íslensku krónunnar en
verulegur hluti lánasafns bankans er í erlendri mynt, svo sem lán til
sparisjóða. 

Eigið fé hækkar milli ársfjórðunga og nemur tæplega 10,8 ma.kr.
Eiginfjárhlutfall bankans á CAD grunni er nú 10,85% en var 9,1% í lok fyrsta
ársfjórðungs. 

Agnar Hansson bankastjóri:
„Í ljósi erfiðra ytri aðstæðna er ég ánægður með hversu vel rekstur bankans
gengur. Viðsnúningur milli ársfjórðunga sýnir það glöggt, þó vissulega hafi
varúðarniðurfærslur krafna sett strik í reikninginn. Hreinar vaxtatekjur á
öðrum ársfjórðungi voru nánast tvöfalt hærri en rekstrarkostnaður bankans og á
fyrri helmingi ársins voru hreinar vaxtatekjur hærri en nokkru sinni fyrr.
Grunnrekstur bankans stendur þannig styrkum fótum og eigið fé hækkar á milli
ársfjórðunga. Annar ársfjórðungur var dágóður og þriðji ársfjórðungur hefur
farið vel af stað. Því horfi ég björtum augum til framtíðar.“ 

Nánari upplýsingar veitir:
Agnar Hansson, bankastjóri Icebank, í síma 540 4000.

icebank 2q 2008.pdf