2008-11-05 18:30:07 CET

2008-11-05 18:31:08 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Alfesca hf. - Fyrirtækjafréttir

- Íslenska fjármálakreppan hefur takmörkuð áhrif á rekstur Alfesca


Fjármálakreppan, sem nú hefur áhrif um allan heim, hefur komið hvað harðast
niður á Íslandi. 

En þótt Alfesca sé skráð í íslensku OMX kauphöllinni hafa sviptingarnar í
íslenskum efnahagsmálum ekki haft bein áhrif á rekstur Alfesca enda er félagið
ekki með neina sölustarfsemi á Íslandi. Helstu markaðir félagsins eru á
meginlandi Evrópu og þá sérstaklega í Bretlandi, Frakklandi og á Spáni. 

Heildarsala Alfesca á fjárhagsárinu 2007/08 nam 647,4 milljónum evra og hafði
aukist um 9% frá fyrra ári.  Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir,
EBITDA, nam 62,5 milljónum evra sem er 22% aukning frá fyrra ári. 

Eins og alkunna er hefur efnahagsástandið og horfur á neytendamarkaði í Evrópu
farið versnandi undanfarna mánuði. Hefur þessi þróun haft áhrif á öll fyrirtæki
á neytendamarkaði. En  Alfesca býður upp á breiða vörulínu sem byggir á fjórum
meginstoðum framleiðslunnar og vörurnar eru seldar bæði undir merkjum annarra
og undir vörumerkjum fyrirtækisins sjálfs. Flóra viðskiptavina er fjölbreytt og
frá ólíkum landsvæðum innan Evrópu. Þessi uppbygging rekstrarins gerir
fyrirtækið ágætlega í stakk búið til að mæta þeim áskorunum sem framundan eru.
Vegna erfiðs viðskiptaumhverfis hefur sala ekki aukist eins og búist var við en
eftispurn eftir vörum Alfesca hefur haldist nokkuð stöðug. 

Þar sem helstu viðskiptagjaldmiðlar Alfesca eru evra og sterlingspund hefur
gengisfall íslensku krónunnar hvorki haft áhrif á afkomu félagsins né
fjárhagsstöðu þess. 

Alfesca er arðbært félag með gott fjárstreymi og traustan efnahagsreikning en
eiginfjárhlutfall er 47,6%  og lausafjárstaðan góð. Langtímafjármögnun Alfesca
er í höndum breiðs hóps af stórum evrópskum bönkum sem veitt hafa félaginu 280
milljóna evra sambankalán og tryggt lánalínu sem gildir til  2014. Nettóskuldir
félagsins 30. júní 2008 námu 166,7 milljónum evra. 

Íslensku bankarnir Kaupþing og Glitnir, sem nú eru í gjaldþrotameðferð, tóku
þátt í að lána félaginu ásamt öðrum evrópskum bönkum. En framlag þeirra nam
einungis 30% af heildarupphæð lánsins og er framhald á samstarfinu til
endurskoðunar. En þar sem Alfesca hefur aðgang að lánveitingum hjá öðrum bönkum
sem þátt tóku í sambankaláninu hefur staða Kaupþings og Glitnis ekki áhrif á
greiðsluhæfi félagsins. Að teknu tilliti til þessa og sterkrar fjárhagsstöðu
félagsins eru engin vandkvæði á fjármögnun rekstarins. 

Þann 15. nóvember næstkomandi ber Alfesca að greiða skuldabréf í íslenskum
krónum að fjárhæð sem svarar til  um 12 milljóna evra. Ennfremur eru íslensk
skuldabréf að fjárhæð sem samsvarar um 3 milljónum evra á gjalddaga 1. febrúar
2009 í samræmi við skilmála skuldabréfanna. Alfesca hefur þegar tryggt fjármagn
til greiðslu þessara skuldabréfa. En vegna takmarkana og tæknilegra erfiðleika
í tengslum við erlenda greiðslumiðlun á Íslandi er sú hætta fyrir hendi að
tafir kæmu upp og að umræddar upphæðir verði ekki millifærðar á gjalddaga.
Alfesca vinnur nú að lausn málsins í samvinnu við íslenskar fjármálastofnanir. 

Þess má geta að í ljósi aðstæðna á fjármálamörkuðum telur stjórn Alfesca
viðeigandi að félagið haldi í fjármuni sína. Þess vegna hefur stjórnin ákveðið
að mæla ekki með greiðslu 12 milljóna evra arðs vegna fjárhagsársins 2007/08 á
aðalfundi félagsins sem haldinn verður 18. nóvember næstkomandi. 

Fjármálakreppan á Íslandi og gengisfall íslensku krónunnar hefur haft
umtalsverð neikvæð áhrif á gengi hlutabréfa Alfesca sem skráð eru í íslenskum
krónum. Á yfirstandandi fjárhagsári, sem hófst 1. júlí sl.,  hefur gengi
hlutabréfa félagsins fallið um rúmt 41% . Staða erlendra hluthafa hefur versnað
enn meira vegna rúmlega 30% gengisfalls krónunnar á þessu sama tímabili . 

Á aðalfundi Alfesca í september 2007 voru gerðar samþykktir sem lögðu grunn að
skráningu hlutafjár félagsins í evrum en hún var fyrirhuguð um leið og
stjórnvöld gerðu slíka skráningu mögulega. Því miður var félaginu ekki gert
kleift að skrá hlutafé sitt í evrum en bæði hluthafar og stjórnendur álitu
slíka skráningu þjóna langtímahagsmunum Alfesca auk þess að auðvelda aðkomu
erlendra fjárfesta að félaginu. 
Vegna hinnar óvenjulegu efnahagsþróunar á Íslandi og afskráningar stórra
fjármálafyrirtækja af markaði hefur íslenski hlutabréfamarkaðurinn skroppið
saman og ekki náð að starfa eðilega. Alfesca vonar að skipulegur íslenskur
hlutabréfamarkaður nái sér á strik á ný og að sem fyrst skapist grundvöllur
fyrir eðlilegri verðmyndun hlutabréfa til hagsbóta fyrir hluthafa. Þangað til
mun Alfesca fylgjast náið með endurreisn íslenska hlutabréfamarkaðarins og meta
hvort hann sé framtíðarvettvangur fyrir félagið. 

Alfesca mun kynna afkomu 1. ársfjórðungs fjárhagsársins 2008/09 eftir lokun
markaða 18. nóvember 2008. 



Fréttatilkynning þessi er birt bæði á ensku og íslensku. Ef um misræmi er að
ræða gildir enski textinn.