2010-08-27 22:14:25 CEST

2010-08-27 22:15:22 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Orkuveita Reykjavíkur - Ársreikningur

Afkomubati hjá Orkuveitu Reykjavíkur


Þrátt fyrir 2,1 milljarðs króna tap á öðrum ársfjórðungi 2010, skilaði
reksturinn 5,1 milljarðs króna hagnaði fyrstu sex mánuði ársins. Helstu
ástæðurnar eru styrking íslensku krónunnar og lækkun fjármagnskostnaðar.
Árshlutareikningur samstæðu OR var samþykktur á stjórnarfundi í dag. 

Gengi íslensku krónunnar styrktist um 8,3% á fyrri helmingi ársins og hefur
styrkst um önnur 2,5% síðan. Greiddir vextir fyrri hluta árs námu 1,1 milljarði
króna. Samsvarandi fjárhæð 2009 var 3,3 milljarðar króna. Vaxtakostnaður lækkar
því á milli tímabila um tvo þriðju, eða 2,2 milljarða. Ástæðan er að á árinu
2009 þurfti OR að leita á íslenskan lánamarkað, þar sem vextir eru meira en
tífaldir meðalvextir erlendra lána OR, sem eru 0,99%. 

Rekstrarhagnaður OR fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, EBITDA, fyrstu
sex mánuði ársins 2010 var 7,1 milljarður króna. Hagnaður fyrir skatta nam 6,1
milljarði. Reiknaðir skattar eru 1,0 milljarður og afkoma tímabilsins því
jákvæð sem nemur 5,1 milljarði króna. 

Árshlutareikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla.

Helstu niðurstöður tímabilsins 1.1. til 30.6. 2010

Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur var með 5.118 milljóna króna hagnaði fyrstu sex
mánuði ársins 2010 samanborið við 10.615 milljóna króna tap á sama tímabili
2009. 
Rekstrartekjur tímabilsins námu 13.561 milljón króna en voru 11.925 milljónir
króna sama tímabil árið áður. 
Hagnaður fyrirtækisins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, EBITDA, var
7.056 milljónir króna samanborið við 5.692 milljónir króna sama tímabil árið
áður. 
Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 2.913 milljónir króna á tímabilinu, en voru
neikvæðir um 14.132 milljónir á sama tímabili árið 2009. 
Heildareignir þann 30. júní 2010 voru 277.703 milljónir króna en voru 281.526
milljónir króna 31. desember 2009. 
Eigið fé þann 30. júní 2010 var 44.924 milljónir króna en var 40.657 milljónir
króna 31. desember 2009. 
Heildarskuldir fyrirtækisins þann 30. júní 2010 voru 232.779 milljónir króna
samanborið við 240.868 milljónir króna í árslok 2009. 
Eiginfjárhlutfall var 16,2% þann 30. júní 2010 en var 14,4% í árslok 2009.
Ýmis mál og horfur
Forstjóraskipti urðu hjá OR 17. ágúst sl. þegar dr. Helgi Þór Ingason tók við
starfinu. 

Stjórn OR hefur treyst tekjustraum fyrirtækisins með mörkun gjaldskrárstefnu og
markmiðssetningu um hagræðingu í rekstri. Ávinnings þessa mun sjá stað á árinu
2010 og styrkja sjóðsflæði og greiðslugetu. 

Áfram er unnið að stækkun Hellisheiðarvirkjunar. Áformað er að taka 4. áfanga
hennar, framleiðslu á heitu vatni, í notkun undir lok yfirstandandi árs og 5.
áfanga virkjunarinnar, framleiðslu á 90 MW rafafls, síðla árs 2011. Samið hefur
verið við Evrópska fjárfestingabankann um fjármögnun helmings 5. áfanga
Hellisheiðarvirkjunar. Viðræður um frekari fjármögnun fyrirtækisins standa
yfir. 

Nánari upplýsingar veitir Helgi Þór Ingason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, í
síma 516-6000