2015-12-30 14:10:20 CET

2015-12-30 14:10:20 CET


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Orkuveita Reykjavíkur - Fyrirtækjafréttir

Skilyrði fyrir arðgreiðslum OR samþykkt


Reykjavík, 2015-12-30 14:09 CET (GLOBE NEWSWIRE) -- Eigendur Orkuveitu
Reykjavíkur (OR) hafa samþykkt tillögu stjórnar um fjárhagsleg skilyrði fyrir
því að arður verði greiddur til eigenda í framtíðinni. Bjarni Bjarnason
forstjóri segir samþykktina afar mikilvæga og að hún sýni hve eigendur
Orkuveitu Reykjavíkur telji mikilvægt að tryggja góðan rekstur og traustan
fjárhag OR til framtíðar. 

Samhljóða samþykkt

Eigendur OR eru þrír; Reykjavíkurborg (93,5%), Akraneskaupstaður (5,5%) og
Borgarbyggð (1%). Sveitarstjórnir allra eigenda hafa nú samþykkt tillögu
stjórnar um að OR greiði eigendum ekki arð nema að fjárhagsstaða fyrirtækisins
uppfylli tiltekin skilyrði. Þau snúa meðal annars að eiginfjárhlutfalli,
lausafjárstöðu, skuldsetningu og hlutfalli hagnaðar sem greiða má út í formi
arðs. Tillagan var samþykkt samhljóða af öllum sveitarfélögunum. 

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR

Samþykkt eigendanna á arðgreiðsluskilyrðunum, sem svo rík samstaða er um, sýnir
skýran vilja þeirra til að standa vörð um þann árangur sem hefur náðst í að
rétta við reksturinn og koma fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur í gott horf.
Sameiginlegt átak eigenda, stjórnar og starfsfólks hefur skilað því að
markmiðum Plansins um bætta sjóðstöðu var náð á miðju árinu 2015, einu og hálfu
ári á undan áætlun. 

Hlutverk OR er að veita íbúum góða þjónustu á sanngjörnu verði. Mér sýnist að
dótturfélögin – Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur – standi sig
prýðilega í þeim efnum og þau stefna að því að gera enn betur. 

Arðgreiðsluskilyrðin

Samþykkt um arðgreiðsluskilyrði er gerð í samræmi við ákvæði í eigendastefnu
OR. Í henni er gert ráð fyrir að stjórn samþykki arðsstefnu fyrir fyrirtækið,
sem hljóta skuli staðfestingu eigenda. Í samþykktinni eru fjárhagslegir
mælikvarðar, sem uppfylltir skulu, áður en til arðgreiðslu kemur og
arðgreiðslur mega ekki brjóta gegn. 

Skilyrðin eru þessi:

                                       2016-2018   2019- 
1.Veltufjárhlutfall                     >1,0   >1,0
2. Eiginfjárhlutfall                    >35%   >40%
3. FFO vaxtaþekja                       >3,5   >3,5
4. RCF / nettó skuldir                  >11%   >13%
5. FFO / nettó skuldir                  >13%   >17%
6. Hlutfall arðs af hagnaði hvers árs     ≤50%     ≤50%  

Samkvæmt Planinu, aðgerðaáætlun sem OR hefur unnið eftir frá árinu 2011, er
ekki greiddur arður á gildistíma þess. Planið er í gildi til ársloka 2016. 


         Nánari upplýsingar:
         Bjarni Bjarnason
         forstjóri OR
         617 7710