2008-11-04 17:08:44 CET

2008-11-04 17:09:45 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Marel Food Systems hf. - Ársreikningur

- Þriðji ársfjórðungur 2008 - Góð söluaukning og rekstrarafkoma í samræmi við sett markmið


Kröftugur 16,2% innri vöxtur og 9,9% rekstrarhagnaður (EBIT) af kjarnastarfsemi
á þriðja ársfjórðungi 

•  Sala þriðja ársfjórðungs nam 170,6 milljónum evra samanborið við 66,1
   milljónir á sama tíma árið áður.  Jókst salan því um 158,1% á milli ára.  
   Próforma sala Marel Food Systems og Stork Food Systems af kjarnastarfsemi (án
   Food & Dairy deildar Stork) á þriðja ársfjórðungi 2008 nam 157,4 milljónum
   evra, sem er aukning um 16,2% samanborið við sama tímabil árið 2007.
•  Rekstrarhagnaður (EBIT) á tímabilinu var 14,5 milljónir evra, sem er 8,5% af
   sölu, samanborið við 1,8 milljónir (2,7% af sölu) á sama tíma í fyrra. 
   Próforma rekstrarhagnaður (EBIT) af kjarnastarfsemi var 15,7 milljónir evra,
   sem er 9,9% af sölu, samanborið við proforma 7,3 milljónir (5,4% af sölu)
   árið áður. 

   Góður 11% innri vöxtur og 9,1% rekstrarhagnaður (EBIT) af kjarnastarfssemi á
   fyrstu níu mánuðum ársins.

•  Sala fyrstu níu mánuði ársins 2008 nam 389,6 milljónum evra samanborið við
   210,9 milljónir evra á sama tíma árið áður, sem er aukning um 84,7%. Próforma
   sala Marel Food Systems og Stork Food Systems af kjarnastarfsemi fyrstu níu
   mánuði ársins nam 475,2 milljónum evra, sem er aukning um 11,0% samanborið
   við sama tímabil 2007.
•  Rekstrarhagnaður (EBIT) á tímabilinu janúar til september 2008 var 27,9
   milljónir evra, sem er 7,1% af sölu, samanborið við 8,4 milljónir (4,0% af
   sölu) árið áður. Próforma rekstrarhagnaður (EBIT) fyrstu níu mánuði ársins
   var 43,4 milljónir evra, sem er 9,1% af sölu, samanborið við 30,0 milljónir
   (7,0% af sölu) fyrir sama tímabil árið áður og eykst því um 45% á milli ára. 

•  Hagnaður fyrstu níu mánuði ársins 2008 var 15,3 milljónir evra samanborið við
   2,7 milljónir árið 2007. 

•  Nettó vaxtaberandi skuldir eru 384,4 milljónir evra

•  Eigið fé nam 307,5 milljónum evra og eiginfjárhlutfall var 32,5% í lok
   september 2008. 

•  Vel heppnuðu lokuðu hlutafjárútboði, að andvirði 10 milljónum evra, lauk 16.
   október. Tilboð voru að stærstum hluta frá lífeyrissjóðum. 


Hörður Arnarson, forstjóri:

„Við erum ánægð með rekstrarafkomu þriðja ársfjórðungs og afkomu fyrstu níu
mánuði ársins. Proforma afkoma af kjarnastarfsemi fyrirtækisins á þriðja
árfjórðungi einkenndist af sterkum 16% innri vexti. Á sama tíma er sölu- og
stjórnunarkostnaður óbreyttur milli ára, sem veldur því að próforma
rekstrarhagnaður (EBIT) af kjarnastarfsemi fyrstu níu mánuði ársins eykst um
45% á milli ára og er 9,1% af veltu. Þetta er í fullu samræmi við markmið
félagsins. 

Á þriðja ársfjórðungi héldum við áfram að einbeita okkur að samþættingu þeirra
fyrirtækja sem við höfum keypt á undanförnum rúmum tveimur árum, en það hefur
skilað okkur í fremstu röð framleiðanda á búnaði til matvælavinnslu á
heimsvísu. Hagræðingin sem við höfum gripið til hefur skilað þeim bætta
rekstrarárangri sem við sjáum í dag en rekstrarhagnaður Marel Food Systems
hefur farið stighækkandi á árinu. 

Aðstæður á fjármálamörkuðum eru allsérstakar, svo ekki sé meira sagt.
Fjármálakreppan mun hafa einhver áhrif á allar iðngreinar en við teljum þó að
matvælaiðnaðurinn, þar sem við störfum, verði fyrir minni áhrifum en flestar
aðrar iðngreinar. Neytendur munu eflaust skera niður útgjöld í ferðalög, nýja
bíla og munaðarvörur en þeir munu halda áfram að borða, jafnvel þótt
neysluvenjur þeirra eigi eftir að breytast. Matvælaiðnaðurinn hefur ávallt
lagað sig hratt að breyttum aðstæðum. Þess vegna gerum við ráð fyrir að þó að
hugsanlega hægi á vexti í greininni, verði það til skemmri tíma en í flestum
öðrum geirum.“ 


Horfur 

Afkoman er fyllilega í samræmi við væntingar í upphafi árs en þá var reiknað
með að hún myndi batna umtalsvert þegar liði á árið. Síðastliðin rúm tvö ár
hafa markast af hröðum ytri vexti en á síðustu tveimur ársfjórðungum hefur
áherslan beinst að innri vexti og auknum hagnaði. Samþætting og
endurskipulagning þeirra fyrirtækja sem keypt voru gengur vel og er farin að
skila þeirri hagræðingu sem stefnt var að. Í upphafi árs var gert ráð fyrir að
þessar aðgerðir - þar á meðal samþætting sölukerfa og vörulína fyrirtækjanna,
sem og fækkun starfsfólks - myndi byrja að skila sér að ráði á þessum
ársfjórðungi og að fullu á fjórða ársfjórðungi. Það hefur gengið eftir.
Próforma rekstrarhagnaður (EBIT) þriðja ársfjórðungs er 9,9% af veltu (9,1%
fyrir fyrstu níu mánuði ársins) og yfirlýst markmið félagsins um 9% fyrir árið
í heild eru óbreytt. 

Mikil lækkun á hrávörumörkuðum á undanförnum vikum munu hafa jákvæð áhrif á
fyrirtækið, bæði beint í gegnum lækkun á framleiðslukostnaði vegna lækkunnar á
ryðfríu stáli og óbeint með lækkun á kornverði sem bætir rekstrarafkomu
viðskiptavina fyrirtækisins. 

Enn sem komið er hefur alþjóðlega fjármálakreppan haft óveruleg áhrif á rekstur
félagsins og er reiknað með að afkoma ársins verði að mestu í takt við
væntingar í upphafi árs. Ekki hefur dregið úr fjölda sölusamninga sem unnið er
að, en þess er þó farið að gæta að viðskiptavinir félagsins eru lengur að
tryggja sér fjármögnun sem gæti valdið frestun á verkefnum. Því má búast við að
vöxtur félagsins næstu ársfjórðunga verði minni en verið hefur undafarin ár.
Þegar hefur verið ráðist í aðgerðir til að ná fram frekari stærðarhagkvæmi og
samlegðaráhrifum af samþættingu fyrirtækjanna. 

Matvælaiðnaðurinn er engu að síður vel settur í þessu samhengi og er búist við
að áhrifin verði minni og skammvinnari en í öðrum greinum. Í raun mun
samdráttur í efnahagslífinu á heimsvísu koma til með að skapa tækifæri fyrir
fyrirtæki í matvælaiðnaðinum á næstu misserum. Neysluvenjur fólks munu breytast
og eru þegar farnar að gera það. Neysla ódýrari prótína, fyrst og fremst
kjúklings og fisks, er líkleg til að aukast til muna. Þá munu neytendur án efa
fara sjaldnar út að borða á fínum veitingahúsum og frekar kaupa í auknum mæli
tilbúna rétti í verslunum. Þessi þróun mun koma Marel Food Systems til góða því
hún kallar á framleiðslu á sífellt hagkvæmari vinnslubúnaði og lausnum,
sérstaklega í vinnslu á kjúklingum og fiski, en þar stendur Marel Food Systems
fremst á heimsvísu. Þá auðveldar lækkun vaxta sterkum fyrirtækjum í vinnslu á
matvælum að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar til að svara breytingum á
neysluvenjum fólks. Langtímahorfur fyrirtækisins er því góðar og til lengri
tíma óbreyttar. 
Frekari upplýsingar veitir:

Hörður Arnarson, forstjóri 			
Sími: 563-8000