2014-12-05 16:58:55 CET

2014-12-05 16:59:55 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Landsvirkjun - Fyrirtækjafréttir

Rio Tinto Alcan á Íslandi og Landsvirkjun endurskoða rafmagnssamning


Rio Tinto Alcan á Íslandi og Landsvirkjun hafa samið um breytingu á
orkuafhendingu sem endurspeglar betur orkuþörf álversins í Straumsvík. 

Árið 2010 gerðu Landsvirkjun og Rio Tinto Alcan með sér rafmagnssamning sem nær
til ársins 2036. Landsvirkjun reisti Búðarhálsvirkjun til að efna samninginn og
Rio Tinto Alcan réðist í 500 milljóna dollara fjárfestingarverkefni í því skyni
að auka framleiðslu álversins og hefja framleiðslu á verðmætari afurðum. 

Flestum verkþáttum fjárfestingarverkefnis álversins er lokið:

  -- Framleiðsla er hafin á verðmætari afurðum í kjölfar breytinga á
     steypuskála.
  -- Mengunarvarnir hafa verið bættar (uppsetningu nýrra lofthreinsistöðva er
     lokið og þær verða að fullu komnar í rekstur á næsta ári).
  -- Rekstraröryggi hefur verið bætt með endurbótum á aðveitustöð.

Eins og Rio Tinto Alcan hefur áður upplýst hefur framleiðsluaukningin sem
stefnt var að ekki náðst að fullu. Ollu því ófyrirséðar hindranir hvað varðar
bæði öryggismál og tæknilega þætti verkefnisins. Álverið hefur af þeim orsökum
ekki fullnýtt þá orku sem samningurinn frá 2010 felur í sér. 

Samkomulag fyrirtækjanna felur í sér þrennt:

  -- Rio Tinto Alcan skilar Landsvirkjun 35 MW af ónotuðu afli, sem hægt er að
     nota til að auka framboð raforku á íslenskum raforkumarkaði.
  -- Rio Tinto Alcan hefur í nokkur ár möguleika á að endurheimta orku í samræmi
     við þarfir sínar, upp að því marki að aflnotkun álversins verði allt að 422
     MW, enda leitar fyrirtækið nú leiða til að ná áður fyrirhugaðri
     framleiðsluaukningu með öðrum leiðum. Þetta myndi styrkja samkeppnishæfni
     álversins og einnig efla mikilvægt framlag þess til íslensks efnahagslífs.
  -- Rio Tinto Alcan greiðir Landsvirkjun 17 milljónir Bandaríkjadollara, vegna
     kostnaðarins sem það hafði í för með sér fyrir Landsvirkjun að reisa
     Búðarhálsvirkjun fyrr en þörf krafði.

Breytingarnar á samningnum eru báðum aðilum til hagsbóta. Landsvirkjun öðlast
aukna möguleika til raforkusölu og á sama tíma er möguleikum Rio Tinto Alcan
til áframhaldandi vaxtar viðhaldið. 

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar: ,,Landsvirkjun fagnar samkomulaginu,
en með því er greitt úr ófyrirséðum vandamálum sem upp komu við
fjárfestingarverkefni Rio Tinto Alcan. Samkomulagið grundvallast á langvarandi
viðskiptasambandi fyrirtækjanna sem og virðingu fyrir gagnkvæmum
viðskiptahagsmunum."

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi: ,,Við erum stolt af því að
hafa staðið að langstærsta fjárfestingarverkefni á Íslandi á undanförnum árum,
í því skyni að framleiða verðmætari afurðir, auka rekstraröryggi, efla
mengunarvarnir og auka framleiðsluna. Þetta hefur skapað yfir 1.000 ársverk á
tímum þegar íslenskt efnahagslíf þurfti hvað mest á þeim að halda. Samkomulagið
við Landsvirkjun er enn ein staðfesting þess að viðskiptasamband áliðnaðar og
orkuframleiðslu á Íslandi einkennist af gagnkvæmri virðingu og gagnkvæmum
ávinningi."



Frekari upplýsingar:

Magnús Þór Gylfason

Yfirmaður samskiptasviðs

Magnus.Thor.Gylfason@landsvirkjun.is

5159000