2016-10-25 18:35:23 CEST

2016-10-25 18:35:23 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Íslandsbanki hf. - Fyrirtækjafréttir

Islandsbanki hf. : S&P hækkar lánshæfismat Íslandsbanka í BBB/A-2 með jákvæðum horfum


Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&PGR) hefur hækkað
lánshæfismat Íslandsbanka í BBB/A-2 úr BBB-/A-3 með jákvæðum horfum.

Hækkun á lánshæfismati bankans byggir að mestu á batnandi rekstrarumhverfi í
íslenska bankakerfinu, lækkandi skuldastöðu fyrirtækja og heimila og auknu
aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum. Af þessum sökum hækkar kjölfestueinkunn
(e.anchor) fyrir íslenskar fjármálastofnanir um tvö þrep (e.notch) í bbb- úr
bb+, sem myndar grunninn að lánshæfismati Íslandsbanka.

Jákvæðar horfur á einkunn bankans endurspegla jákvæða þróun í íslensku
efnahagslífi og bankakerfinu, og að bankinn viðhaldi öflugum eiginfjárhlutföllum
meðan bankinn undirbýr sig fyrir mögulegt söluferli.

S&PGR greina ennfremur frá því að eiginfjárstaða Íslandsbanka sé afar sterk.
Einkunn bankans fyrir eigið fé og rekstur (e. Capital and earnings) fer því í
'mjög sterk' úr 'sterk' sem hækkar kjölfestueinkunn hans í 'bbb+', sem er
tveimur þrepum ofar en bbb- kjölfestueinkunnin. En í ljósi mögulegra breytinga á
framtíðareignarhaldi og eiginfjárhlutföllum, kemur til aðlögun um eitt þrep sem
leiðir af sér lánshæfismatseinkunnina BBB.  Vogunarhlutfall Íslandsbanka er afar
gott í alþjóðlegum samanburði og nefnir S&PGR að það geti verið tækifæri fyrir
Íslandsbanka að ná fram hagstæðari samsetningu á eiginfjárgrunni bankans til
undirbúnings fyrir mögulegt söluferli.

Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri

"Það hefur náðst markverður árangur á síðustu tólf mánuðum, bæði í
rekstrarumhverfi bankans og fjármögnun hans. Skuldastaða íslenska ríkisins,
fyrirtækja og heimila í landinu hefur stórbatnað á undanförnum árum og lög um
skref til afléttingu hafta hafa verið samþykkt. Þá gaf bankinn nýlega út 500
milljón evra skuldabréf sem var mikilvægt skref í átt til þess að vera að fullu
fjármagnaður á markaði. Hækkun á lánshæfiseinkunn S&P í BBB/A3 með jákvæðum
horfum, er í takt við þá hagstæðu þróun á vaxtaálagi og aukinn áhuga erlendra
fjárfesta á skuldabréfum bankans sem við höfum þegar séð á undanförnum mánuðum.

Þrátt fyrir afar hátt eigið fé, hefur Íslandsbanki haldið áfram að skila góðri
arðsemi sem samhliða skynsamlegri lausafjárstýringu gerir bankann vel í stakk
búinn til að takast á við möguleg áhrif vegna afléttingu hafta."

Nánari upplýsingar veita:



  * Fjárfestatengill - Tinna Molphy,  tinna.molphy@islandsbanki.is og í síma
    440 3187.
  * Samskiptastjóri - Edda Hermannsdóttir, edda.hermannsdottir@islandsbanki.is
    og í síma 440 4005.


[]