2014-07-18 18:00:11 CEST

2014-07-18 18:01:12 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Lánamál ríkisins - Fyrirtækjafréttir

Stefna í lánamálum ríkisins 2014-2017


Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur birt stefnu í lánamálum ríkisins 2014 -
2017. Er þetta í fjórða sinn sem slík stefna er birt. Helstu breytingar sem
orðið hafa frá síðustu útgáfu snúa að viðmiðunarreglum fyrir samsetningu
lánasafns, en vægi verðtryggðra lána er minnkað og vægi óverðtryggðra lána er
aukið. Einnig er gerð breyting á markmiði um innlenda innstæðu í Seðlabankanum,
úr 80 milljörðum króna í um 60 - 70  ma.kr. að jafnaði. 

Helstu markmið við lánastýringu ríkisins eru:

•           Að tryggja að lánsfjárþörf og fjárhagslegum skuldbindingum
ríkissjóðs sé mætt með lágmarkskostnaði til lengri tíma litið, að teknu tilliti
til varfærinnar áhættustefnu. 

•           Að tryggja að endurgreiðsluferill lána sé í samræmi við
greiðslugetu ríkisins til lengri tíma litið. 

•           Að viðhalda og stuðla að frekari uppbyggingu á skilvirkum frum- og
eftirmarkaði með innlend ríkisverðbréf. 

•           Að höfða til breiðs hóps fjárfesta í ríkisverðbréfum og nýta
fjölbreytta fjármögnunarmöguleika. 

Uppbygging markflokka ríkisbréfa miðar að því að hver flokkur verði nægilega
stór til að tryggja virka verðmyndun á eftirmarkaði. Árlega verða gefnir út 2,
5 og 10 ára markflokkar ríkisbréfa. Til að draga úr endurfjármögnunaráhættu er
stefnt að því að endurgreiðsluferill ríkisverðbréfa verði sem jafnastur. Þá er
stefnt að því að meðallánstími verði 4 ár að lágmarki. 

Lán ríkissjóðs í erlendum gjaldmiðlum eru einkum tekin til að styrkja
gjaldeyrisforða Seðlabankans. Stefnt er að reglulegri útgáfu markaðsskuldabréfa
ríkissjóðs á alþjóðlegum mörkuðum og höfða skal til fjölbreytts hóps fjárfesta. 

Í stefnunni kemur einnig fram að ríkissjóður hefur fengið óháða aðila til að
taka út hagkvæmni vaxtaskiptasamninga. Áætlað er niðurstaða úttektarinnar liggi
fyrir í haust. Einnig er fyrirhugað að breyta skuldabréfi Seðlabanka Íslands í
óverðtryggt afborgunarbréf með lokagjalddaga 2043. Þetta hefur áhrif á
endurgreiðsluferil ríkissjóðs sem og samsetningu þar sem hlutfall óverðtryggðra
lána eykst við þessa breytingu. 

Fjármála- og efnahagsráðuneytið ber ábyrgð á lánaumsýslu ríkisins, mótar stefnu
í lánamálum og tekur ákvarðanir um útgáfu verðbréfa. Lánamál ríkisins, sérstök
deild innan Seðlabankans, sér um framkvæmd stefnunnar í samræmi við samning
milli bankans og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. 



Nánari upplýsingar veitir Esther Finnbogadóttir í síma 5459200 eða í tölvupósti
esther.finnbogadottir@fjr.is.