2017-02-07 20:52:48 CET

2017-02-07 20:52:48 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Icelandair Group hf. - Ársreikningur

Gott rekstrarár að baki - sterkur efnahagur


  -- Hagnaður ársins eftir skatta var 89,1 milljón USD samanborið við 111,2
     milljónir USD árið 2015.
  -- EBITDA á 4. ársfjórðungi var 2,5 milljónir USD samanborið við 22,9
     milljónir USD á sama ársfjórðungi á síðasta ári.
  -- Lækkun meðalfargjalda og gengisþróun skýra lakari afkomu á fjórða
     ársfjórðungi að mestu.
  -- Heildartekjur jukust um 12% á 4. ársfjórðungi.
  -- Sterk fjárhagsstaða: 44% eiginfjárhlutfall og handbært fé og
     markaðsverðbréf námu 250,1 milljón USD í árslok 2016.
  -- Aukin óvissa í alþjóðlegum flugrekstri.
  -- EBITDA spá fyrir árið 2017 nemur 140-150 milljónir USD.



Björgólfur Jóhannsson, forstjóri

„Rekstrarniðurstaða ársins er sú næstbesta í 80 ára sögu félagsins og
starfsemin gekk í heildina mjög vel á árinu, við krefjandi aðstæður. Félagið
flutti alls tæplega 3,7 milljónir farþega í millilandaflugi og fjölgaði þeim um
20% frá fyrra ári eða um 600 þúsund farþega. Mikill vöxtur er í
hótelstarfseminni og var herbergjanýting mjög góð eða tæp 82%. Innanlandsflugið
gekk einnig vel, þar er 9% aukning í farþegafjölda milli ára og ánægjulegt að
sjá að erlendir ferðamenn nýta sér innanlandsflugið í auknum mæli.
Fraktstarfsemin gekk einnig vel. 

Við upphaf árs er hins vegar ljóst að aðstæður í rekstrinum eru mjög krefjandi.
Eins og við greindum frá í seinustu viku hefur að undanförnu orðið breyting í
bókunarflæði Icelandair til hins verra. Bókanir eru hægari en gert var ráð
fyrir og meðalfargjöld á mörkuðum hafa lækkað umfram spár. Á síðustu dögum hafa
komið fram upplýsingar um að þetta sé þróun sem almennt á sér stað á alþjóða
flugmarkaði. Þróunina má einkum rekja til aukinnar samkeppni en einnig má leiða
líkur að því að óvissa vegna breytinga í alþjóða stjórnmálum hafi áhrif á
eftirspurn. Verkfall sjómanna á Íslandi hefur neikvæð áhrif á fraktstarfsemi
félagsins. Gjaldmiðlar hafa þróast á óhagstæðan hátt miðað við fyrra ár og
olíuverð hefur jafnframt hækkað. Horfur í hótelstarfsemi okkar eru góðar. 

Við  horfum til framtíðar og tökumst á við þessar breyttu aðstæður  með
langtímahagsmuni félagsins í huga. Þegar hefur verið gripið til aðgerða í
rekstri samstæðunnar sem gert er ráð fyrir að skili hagræðingu og auknum
tekjum. Meðal aðgerða eru breytingar á uppbyggingu á fargjöldum og vöruframboði
Icelandair. Þessar breytingar, sem unnið hefur verið að frá því í haust, eru
til að mæta aukinni samkeppni, breyttum aðstæðum á mörkuðum fyrirtækisins og
breytingum á neysluvenjum flugfarþega. Markmið breytinganna er  að ná til nýrra
viðskiptavina auka sýnileika félagsins í leitarvélum gagnvart tilteknum
markhópum og breikka tekjugrunn félagsins. Frá síðastliðnu hausti hefur enn
fremur verið hert verulega á kostnaðaraðhaldi innan félagsins. 

Markmið félagsins er  að aðgerðir á tekju- og gjaldahlið muni skila bættri
afkomu að fjárhæð 30 milljónir USD á ársgrundvelli þegar þær verða að fullu
komnar til framkvæmda í byrjun árs 2018. 

Efnahagsreikningur félagsins er sem fyrr sterkur, eiginfjárhlutfall er 44% og
handbært fé og markaðsverðbréf ríflega 250 millljónir USD. Stefna félagsins
varðandi fjárhagslegan styrkleika hefur alltaf verið rökstudd með því að
rekstrarumhverfi flugfélaga er sveiflukennt. Félagið er því vel í stakk búið að
takast á við þær sveiflur sem um þessar mundir eiga sér stað í rekstrarumhverfi
þess. Við gerum áfram ráð fyrir hóflegum innri vexti á árinu og langtímahorfur
fyrirtækisins eru góðar.“ 



Nánari upplýsingar veita:

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sími: 896-1455
Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group, sími: 665-8801.