2011-09-14 10:42:23 CEST

2011-09-14 10:43:22 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Icelandair Group hf. - Fyrirtækjafréttir

Icelandair eykur umsvif á næsta ári


  -- Eykur flug um 13% milli ára
  -- Allt að 400 flug á viku - 10 þúsund farþegar á sólarhring
  -- 2 milljónir farþega 2012
  -- Áhersla á framboðsaukningu utan sumars
  -- 52% vöxtur frá 2008  - 700 þúsund fleiri farþegar en 2009
  -- Denver Colorado nýr áfangastaður 

Flugáætlun Icelandair, dótturfélags Icelandair Group, fyrir árið 2012 er sú
stærsta í sögu félagsins og um 13% umfangsmeiri en á þessu ári. Nýr heilsárs
áfangastaður, Denver í Colorado, bætist við og ferðum er fjölgað til ýmissa
borga í Bandaríkjunum og Evrópu. Gert er ráð fyrir að farþegar félagsins verði
um 2 milljónir á árinu 2012, en samkvæmt áætlunum verða þeir 1,8 milljónir á
árinu 2011.  Alls verða 16 Boeing 757 flugvélar nýttar til áætlunarflugsins
næsta sumar, tveimur fleiri en á þessu ári. Flugvélar félagsins munu taka á
loft allt að 400 sinnum á viku yfir sumarið og farþegafjöldinn mun verða um 10
þúsund manns á sólarhring þegar mest lætur. 

Áætlanir Icelandair fyrir yfirstandandi ár eru að ganga eftir og
markaðsrannsóknir gefa til kynna möguleika til arðbærs vaxtar á næsta ári.
Stefna félagsins er að auka ferðamannastraum til Íslands utan háannatímans og
það hafði áhrif á þá ákvörðun að hefja flug til og frá Denver í Colorado allt
árið um kring, en þar er sterkur vetrarmarkaður meðal annars vegna
skíðaferðalaga. 

Mikill vöxtur hefur verið í starfsemi Icelandair á undanförnum árum í samræmi
við stefnumótun Icelandair Group í ársbyrjun 2009 eftir samdrátt vegna
efnahagskreppunnar. Frá 2009 til 2012 er vöxturinn í áætlunarflugi Icelandair
um 52% og farþegum fjölgar úr 1,3 milljónum í 2 milljónir á næsta ári. Í ár er
aukningin um 17% frá síðasta ári og vöxturinn er áætlaður um 13% á því næsta og
hlutfallslega meiri að vetri en sumri. Vetraráætlun 2012-2013 verður stærri en
sumaráætlun Icelandair var fyrir tveimur árum. 

Auk fjögurra vikulegra ferða til nýja áfangastaðarins, Denver í Colorado, mun
Icelandair fjölga ferðum til Washington og Seattle í Bandaríkjunum, til allra
höfuðborga Norðurlandanna og Þrándheims, Stavanger og Bergen í Noregi, til
Billund í Danmörku, til Munchen, Amsterdam, Brussel og Parísar á meginlandi
Evrópu og til Manchester og Glasgow á Bretlandseyjum. Alls verða
áfangastaðirnir 31 á næsta ári. 

Icelandair byggir leiðakerfi sitt á staðsetningu landsins mitt á milli
Norður-Evrópu og Norður-Ameríku. Með leiðakerfinu er Icelandair unnt að þjóna
þremur mörkuðum; heimamarkaðinum á Íslandi, ferðamannamarkaðinum til Íslands og
alþjóðlega markaðinum milli Evrópu og Norður-Ameríku. Um 20% vöxtur er á
ferðamannamarkaðinum til Íslands í ár. Ferðir Íslendinga til útlanda hafa vaxið
jafnt og þétt frá 2008 og gert er ráð fyrir að sú þróun muni halda áfram. Þá
hefur Icelandair náð mjög góðum árangri á þessu ári, líkt og í fyrra, á þriðja
markaðinum sem félagið starfar á, þ.e. á  Norður-Atlantshafsmarkaðinum og þar
eru tækifæri til að styrkja markaðsstöðu Icelandair enn frekar á næsta ári með
nýjum áfangastað og aukinni tíðni. 

Vegna mikillar samvinnu Icelandair við önnur dótturfélög Icelandair Group þá
mun vöxtur hjá Icelandair jafnframt koma fram í veltuaukningu þeirra. Þannig
skapar vöxturinn meiri tíðni fyrir viðskiptavini Icelandair Cargo og aukið
umfang á Keflavíkurflugvelli mun skila sér í meiri veltu hjá Icelandair Ground
Services. Vöxturinn skapar einnig aukin tækifæri fyrir önnur félög innan
samstæðunnar. Stækkun leiðarkerfis Icelandair er í takt við þá stefnu sem
mörkuð var hjá Icelandair Group að byggja vöxt samstæðunnar innan frá. 



Nánari upplýsingar veita:

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sími 896-1455

Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group, sími 665-8801