2012-11-28 14:11:31 CET

2012-11-28 14:12:33 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Arion Bank hf. - Ársreikningur

Afkoma Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins 2012


Afkoma Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins 2012 var um 14,5 milljarða króna
eftir skatta samanborið við 13,6 milljarða króna fyrstu níu mánuði ársins 2011.
Arðsemi eigin fjár var 15,9% samanborið við 17,6% á sama tímabili árið 2011.
Arðsemi af reglulegri starfsemi var 11,9% en var 11,3% á sama tímabili árið
2011. Árshlutareikningurinn fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2012 er
óendurskoðaður. 

Eiginfjárhlutfall bankans í lok tímabilsins var 22,5% en í lok árs 2011 var það
21,2%. 


Helstu atriði árshlutareikningsins:

  -- Hagnaður eftir skatta nam 14,5 mö.kr. samanborið við 13,6 ma.kr. á sama
     tímabili árið 2011.
  -- Hagnaður þriðja ársfjórðungs nam 3,3 mö.kr. samanborið við 3,5 ma.kr. á
     þriðja ársfjórðungi 2011.
  -- Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 10,9 mö.kr. samanborið við 8,9 ma.kr.
     fyrstu níu mánuði ársins 2011.
  -- Rekstrartekjur námu alls 34,4 mö.kr. samanborið við 34,0 ma.kr. fyrir sama
     tímabil á árinu 2011.
  -- Hreinar vaxtatekjur námu 20,1 ma.kr. samanborið við 16,8 ma.kr. fyrstu níu
     mánuði ársins 2011, en aukningin er einkum tilkomin vegna stærra lánasafns
     eftir kaup bankans á íbúðalánasafni frá Kaupþingi.
  -- Arðsemi eigin fjár var 15,9% en var 17,6% á sama tímabili í fyrra. Arðsemi
     af reglulegri starfsemi var 11,9% samanborið við 11,3% á sama tímabili í
     fyrra.
  -- Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var 3,3% á tímabilinu
     samanborið við 3,2% á sama tímabili í fyrra.
  -- Launakostnaður hækkar um 7% milli ára, m.a. vegna nýs fjársýsluskatts á
     laun starfsmanna fjármálafyrirtækja, sem nemur 5,45%.
  -- Reiknaður tekjuskattur nam 3,4 mö.kr. samanborið við 3,1 ma.kr. á sama
     tímabili árið 2011, en hlutfallslega hærri tekjuskattur er m.a. tilkominn
     vegna nýs 6% skatts á hagnað fjármálafyrirtækja umfram 1 ma.kr.
  -- Eiginfjárhlutfall var 22,5% samanborið við 21,2% í árslok 2011.
  -- Lausafjárhlutfall bankans var 31% sem er vel yfir 20% kröfu FME.
  -- Reiðufjárhlutfall bankans var 18%, en FME gerir kröfu um 5%.
  -- Útlán til viðskiptavina í lok tímabilsins námu 572,5 mö.kr., samanborið við
     561,6 ma.kr. í árslok 2011.
  -- Heildareignir námu 876,2 mö.kr., samanborið við 892,1 ma.kr. í árslok 2011.
  -- Eigið fé bankans í lok september 2012 var 128,4 ma.kr. en nam 114,6 mö.kr.
     í lok árs 2011.



Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Afkoma fyrstu níu mánuði ársins er vel viðunandi og í samræmi við okkar
áætlanir. Það eru jákvæð merki í rekstrinum. Arðsemi af reglulegri starfsemi
bankans þessa fyrstu níu mánuði ársins er um 12% sem er vel ásættanlegt. Enn
fremur er uppgjörið nú frekari staðfesting á þeim stöðugleika sem verið hefur í
rekstri bankans undanfarin misseri og er okkur mjög mikilvægur. 

Bankinn hefur á síðustu mánuðum bætt við nýjum þjónustuþáttum sem vel hefur
verið tekið af viðskiptavinum okkar. Þar má nefna Startup Reykjavík sem er
ætlað frumkvöðlum og nýsköpunarfyrirtækjum, Arion banka appið, bílafjármögnun í
samstarfi við FÍB og nýjar lausnir fyrir foreldra í fæðingaorlofi. Við leggjum
mikið upp úr því að vera áfram í forystu í vöruþróun á fjármálamarkaði. 

Það er mikilvægt fyrir okkur að viðhalda sterku eiginfjárhlutfalli en í
septemberlok var það 22,5% og er það vitnisburður um fjárhagslegan styrk
bankans. Umhverfið verður áfram krefjandi. Enn er nokkur lagaleg óvissa, þótt
úr henni hafi dregið. Einnig er óvissa um stöðu stærstu atvinnuvega og
fjárfesting hefur ekki náð sér á strik svo nokkru nemi. Þá er margt óljóst um
afnám gjaldeyrishafta og áfram blikur á lofti í alþjóðlegu umhverfi. Það er
jákvætt að á undanförnum misserum hefur mikill árangur náðst í uppbyggingu
bankans og raunar í íslensku efnahagsumhverfi þannig að grunnundirstöður
áframhaldandi uppbyggingar eru fyrir hendi“. 



Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka,
haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.