2008-07-31 18:23:53 CEST

2008-07-31 18:24:53 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Skipti hf. - Ársreikningur

- Afkoma Skipta hf. á fyrri hluta árs 2008


- Tekjur aukast um 21% frá sama tímabili árið áður


• Salan jókst um 3,3 milljarða króna á milli ára eða um 21%. Sala nam 18,8
  milljörðum króna samanborið við 15,5 milljarða árið áður. 

• Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 4,1 
  milljarði króna samanborið við 4,3 milljarða fyrir sama tímabil 2007. EBITDA
  hlutfallið var  21,3%. 

• Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 7,9 milljörðum króna
  samanborið við 4,3 milljarða á sama tímabili árið áður. Eftir vexti og skatta
  nam handbært fé frá rekstri 7,1 milljarði króna. 

• Tap Skipta á öðrum ársfjórðungi nam 383 milljónum króna. Tap á fyrri hluta
  árs nam 4,0 milljörðum króna sem skýrist einkum af gengisþróun íslensku
  krónunnar á tímabilinu. 

• Fjármagnsgjöld voru 7,0 milljarðar króna en þar af nam gengistap 3,9
  milljörðum króna. 

• 29% af tekjum samstæðunnar koma af erlendri starfsemi félagsins. 

• Eiginfjárhlutfall Skipta hf. er 39,5%.



Helstu atburðir á öðrum ársfjórðungi

• Síminn, stærsta dótturfélag samstæðunnar, hélt áfram uppbyggingu á langdrægu
  GSM kerfi og hóf uppbyggingu á langdrægu 3G kerfi sem mun gefa notendum kost á
  öflugu háhraðasambandi um allt land og á miðunum í kringum Ísland. 3G þjónusta
  Símans nær nú til um 80% landsmanna. Sjónvarp Símans er í mikilli sókn en í
  júní náði félagið þeim áfanga að vera með 40 þúsund viðskiptavini sem eru með
  sjónvarp yfir ADSL tengingu. 

• Erlend starfsemi Skipta gekk vel á tímabilinu. Upplýsingatæknifyrirtækið
  Sirius IT skilar góðri afkomu og treysti enn verkefnastöðu sína á fjórðungnum.
  Fyrirtækið samdi meðal annars við norsku Vinnumálastofnunina um þróun og
  viðhald á kjarnakerfi stofnunarinnar.  Áætlað verðmæti samningsins er liðlega
  200 milljónar norskra króna eða um þrír milljarðar íslenskra króna. 

• Skipti hafa tekið yfir hluti í tveimur öflugum fjarskiptafélögum í Tékklandi
  af Exista hf. Með því hafa öll félög í eigu Exista á sviði fjarskipta og
  upplýsingatækni verið sameinuð. Hluturinn sem um ræðir jafngildir 8,25% hlut í
  eignarhaldsfélagi sem á annars vegar 39% hlut í T-Mobile Czech Republic (TMCZ)
  og hins vegar 100% í Ceske Radiokommunikace (CRa). TMCZ er leiðandi í
  farsímaþjónustu í Tékklandi með liðlega 40% markaðshlutdeild en félagið er 61%
  í eigu T-Mobile (Deutsche Telecom).  CRa er leiðandi fyrirtæki á sviði
  endurvarps og fastlínu í Tékklandi. Rekstur þessara fyrirtækja hefur gengið
  mjög vel undanfarin ár. Eignirnar falla vel að kjarnastarfsemi og
  fjárfestingarstefnu Skipta. 

• Hinn 19. mars sl. tilkynnti Exista um valfrjálst tilboð í allt hlutafé Skipta
  hf. Tilboðið hljóðaði upp á 6,64 krónur á hlut og var greitt með nýjum hlutum
  í Exista. Tilboðstímabil stóð frá 27. mars til 26. maí og hafði Exista eignast
  99,22% hlutafjár við lok tilboðstímabils. Í kjölfar þess og afskráningar
  Skipta voru útistandandi hlutir innkallaðir og er Skipti nú 100% í eigu
  Exista. 



Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta hf.

“Afkoman af reglulegri starfsemi Skipta á tímabilinu er  ágæt og fyrirtækin eru
að ná góðum árangri í rekstri við mjög krefjandi ytri aðstæður. Gengisþróun
íslensku krónunnar var  óhagstæð á tímabilinu og skýrir tap félagsins, þrátt
fyrir gengisvarnir. Skipti halda áfram að vaxa og hlutirnir í
fjarskiptafélögunum tveimur í Tékklandi falla vel að stefnu og starfsemi
Skipta. Bæði félögin eru vel rekin og skila góðri afkomu. Við höfum sett okkur
þau markmið að vöxtur Skipta eigi sér aðallega stað utan Íslands og í samræmi
við þau markmið tökum við nú yfir hlutina í félögunum í Tékklandi.
Fjárhagsstaða Skipta er sterk og rekstur dótturfélaganna gengur vel. Félagið er
því í ágætri stöðu til að takast á við þau spennandi verkefni sem framundan
eru.“ 


Niðurstaða í rekstri fyrstu sex mánuði ársins 2008


Reikningsskilaaðferðir

Reikningsskilaaðferðir eru þær sömu og beitt var við gerð ársreiknings 31.
desember 2007. Stjórn Skipta hf. hefur samþykkt  árshlutareikninginn fyrir
fyrstu sex mánuði ársins 2008. 



Rekstur

Salan á fyrri helmingi árs  2008 nam 18.846 m.kr. samanborið við 15.514 m.kr. á
sama tímabili árið áður, sem er 21% aukning. Þessi aukning skýrist einkum af
innkomu dönsku fjarskiptafélaganna í samstæðuna auk þess sem ágætur innri
vöxtur er hjá félaginu milli ára. 

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) nam 2.223 m.kr. sem er
lækkun um 4% á milli ára. 

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) var 4.060 m.kr. miðað
við 4.317 m.kr. á sama tímabili árið áður. EBITDA hlutfallið er nú 21,3%
samanborið við 27,5% árið áður. Skipti hafa á undanförnum misserum keypt
fyrirtæki í upplýsingatæknigeiranum en sá markaður skilar að jafnaði lægra
EBITDA hlutfalli en fyrirtæki í fjarskiptageiranum. Á það ber hins vegar að
líta að fjárfestingar eru að jafnaði minni í upplýsingatæknigeiranum. Þá eiga
fjarskiptafélög Skipta erlendis ekki fjarskiptanetin sem þau reka þjónustu sína
á og eru því með lægri EBITDA hlutfall en þau fjarskiptafélög sem eiga og reka
sín eigin fjarskiptanet. 

Afskriftir félagsins námu 1.837 m.kr. á árinu samanborið við 2.001 m.kr. fyrir
sama tímabil 2007. 

Tap samstæðunnar eftir skatta nam 3.989 m.kr. samanborið við 2.445 m.kr. hagnað
á sama tímabili 2007. Tapið nú skýrist einkum af gengisþróun íslensku krónunnar
á tímabilinu. 



Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta var 7.934 m.kr. yfir tímabilið en
var 4.330 m.kr. fyrir sama tímabil árið 2007. 

Fjárfestingar samstæðunnar í varanlegum rekstrarfjármunum (CAPEX) námu 1.814
m.kr. á tímabilinu en námu 2.052 m.kr. fyrir sama tímabil 2007. 



Efnahagur

Heildareignir samstæðunnar námu 120.162 m.kr. 30. júní 2008 og jukust eignir um
23% á árinu eða um 22.521 m.kr. 

Eigið fé félagsins nam 47.406 m.kr. í lok fyrri árshelmings 2008 og
eiginfjárhlutfall var 39,5%. 



Staða og horfur

3G væðing Símans er á fullu skriði. 3G þjónusta Símans nær nú til um 80%
landsmanna og gera áætlanir ráð fyrir að á þessu ári muni þjónustan verða
aðgengileg á 23 þéttbýlisstöðum um land allt. Síminn vinnur einnig að
uppsetningu á langdrægum 3G sendum sem munu þegar fram líða stundir ná til
stærra landsvæðis en hefðbundið 2G þjónustusvæði nær til í dag. Stærra
þjónustusvæði er þó ekki mesti ávinningur viðskiptavina heldur þeir möguleikar
sem þeim mun standa til boða í nýju háhraða farsímaneti. Það hefur alltaf verið
skýr stefna hjá Símanum að kerfisuppbygging standi undir framtíðarþörf markaðar
til fjarskiptaþjónustu og 3G er næsta skref í slíkri uppbyggingu sem arftaki
þeirrar farsímaþjónustu sem við best þekkjum í dag. Sjónvarp Símans er í
mikilli sókn en í júní náði félagið þeim áfanga að vera með 40 þúsund
viðskiptavini sem eru með sjónvarp yfir ADSL tengingu. 

Að undangengnu útboði sömdu  Farice hf. og Míla ehf. um fjarskiptaþjónustu til
tíu ára á fyrsta ársfjórðungi. Samningurinn felur í sér að Míla veitir
fjarskiptaþjónustu til Farice, vegna uppbyggingar Farice á nýja sæstrengnum
Danice og stækkana sambanda á FARICE-1 sæstrengnum. Þessi samningur mun gera
það að verkum að Míla mun margfalda þá flutningsgetu sem fyrirtækið hafði fyrir
og gefa íslenskum fjarskiptafélögum tækifæri á að stækka sín sambönd og þá um
leið efla þjónustuna við sína viðskiptavini. Míla hefur að undanförnu gert
samstarfssamninga við verktakafyrirtæki á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði.
Samningarnir eru liður í því að straumlínulaga starfsemina og vinna með
verktökum á hverjum stað. 

Skipti hafa tekið yfir hluti í tveimur öflugum fjarskiptafélögum í Tékklandi af
Exista hf. Með því hafa öll félög í eigu Exista á sviði fjarskipta og
upplýsingatækni verið sameinuð. Hluturinn sem um ræðir jafngildir 8,25% hlut í
eignarhaldsfélagi sem á annars vegar 39% hlut í T-Mobile Czech Republic (TMCZ)
og hins vegar 100% í Ceske Radiokommunikace (CRa). TMCZ er leiðandi í
farsímaþjónustu í Tékklandi með liðlega 40% markaðshlutdeild en félagið er 61%
í eigu T-Mobile (Deutsche Telecom).  CRa er leiðandi fyrirtæki á sviði
endurvarps og fastlínu í Tékklandi. Rekstur þessara fyrirtækja hefur gengið
mjög vel og vöxtur þeirra hefur verið hraður undanfarin ár. Eignirnar falla vel
að kjarnastarfsemi og fjárfestingarstefnu Skipta. 

Á fyrsta ársfjórðungi var tilkynnt um rammasamning á milli Skjásins og SagaFilm
sem tryggði Skjánum betri rekstur og góða framleiðslu á innlendu dagskrárefni
fyrir SkjáEinn. Samdráttur á auglýsingamarkaði og veiking íslensku krónunnar
hafði áhrif á rekstur Skjásins á fyrri hluta ársins. Vikulega horfðu á bilinu
75-85% Íslendinga á aldrinum 12-80 á SkjáEinn. Markaðshlutdeild SkjásEins mæld
í birtum auglýsingasekúndum var nálægt 40% á öðrum ársfjórðungi. Notkun á
SkjárBíói og fjöldi áskrifenda að SkjárHeimi var meiri en áætlanir gerðu ráð
fyrir á tímabilinu og vegur það upp á móti samdrætti á auglýsingamarkaði. 

Já gaf út Símaskrána 2008 í lok maí með nýstárlegu sniði, en hún var unnin í
samstarfi við rithöfundinn Hugleik Dagsson þetta árið sem birti nýja sögu sína
“Garðarshólma” inni í Símaskránni. Vinsældir vefmiðilsins Já.is héldu áfram að
aukast á öðrum ársfjórðungi, vikulegum innlitum á vefinn hefur fjölgað að
meðaltali um 23% frá fyrra ári og einstökum notendum um 17% að meðaltali frá
fyrra ári. 

On-Waves, dótturfélag Símans, sérhæfir sig í að bjóða farsímalausnir um borð í
skemmtiferðaskipum og ferjum, ásamt fraktskipum. Félagið undirritaði á fyrsta
ársfjórðungi samning  við MSC Cruises um GSM þjónustu um borð í
skemmtiferðaskipum félagsins. Um er að ræða samning fyrir átta
skemmtiferðaskip.  Með þessum samningi stækkar markaðssvæði On-Waves
umtalsvert, eða úr um 55 þúsund farþegum og áhafnarmeðlimum í um 88 þúsund
farþega og áhafnarmeðlimi. 

Fyrirtæki Símans í Danmörku; Business Phone og Ventelo voru sameinuð í byrjun
mars undir nýju nafni - Síminn Danmark A/S. Markmið sameiningarinnar var að
nýta betur styrk beggja fyrirtækja og ná fram samlegðaráhrifum félaga í líkum
rekstri. Í dag starfa 65 manns hjá fyrirtækinu sem býður alhliða
fjarskiptaþjónustu til lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Danmörku. Yfir 6.000
fyrirtæki eru í viðskiptum við Símann Danmark  með um 50.000 notendur. 

Rekstur upplýsingatæknifélagsins Sirius IT gekk mjög vel á fyrri hluta ársins. 
Verkefnastaðan var góð og framlegð nær tvöfaldaðist á milli ára. Reksturinn
gekk mjög vel í Danmörku en mest munar um þá hagræðingu sem gerð var í Noregi
og Svíþjóð á síðasta ári sem hefur skilað sér í mun betri rekstrarárangri. 
Almennt má segja að horfur í rekstri Sirius IT séu mjög góðar en félagið
styrkti enn verkefnastöðu sína á öðrum ársfjórðungi. Fyrirtækið samdi meðal
annars við norsku Vinnumálastofnunina um þróun og viðhald á upplýsingakerfinu
Arena, sem er kjarnakerfi stofnunarinnar.  Áætlað verðmæti samningsins er
liðlega 200 milljónar norskra króna eða um þrír milljarðar íslenskra króna.
Samningurinn nær til næstu fjögurra ára, með möguleika á eins árs framlengingu. 

Hinn 19. mars sl. tilkynnti Exista um valfrjálst tilboð í allt hlutafé Skipta
hf. Tilboðið hljóðaði upp á 6,64 krónur á hlut og var greitt með nýjum hlutum í
Exista. Tilboðstímabil stóð frá 27. mars til 26. maí og hafði Exista eignast
99,22% hlutafjár við lok tilboðstímabils. Í kjölfar þess og afskráningar Skipta
voru útistandandi hlutir innkallaðir og er nú Skipti 100% í eigu Exista. 
Á fyrri hluta ársins var gefið út nýtt  hlutafé í Skiptum sem nemur
2.776.226.693 hlutum. 

Nokkur óvissa ríkir um stöðu efnahagsmála á Íslandi, stærsta markaði Skipta,
næstu mánuði og misseri. Búast má við almennt minnkandi eftirspurn og hafa
Skipti hf. og dótturfélög brugðist við þeim aðstæðum með ýmsum aðgerðum sem
allar miða að því ná fram enn betri rekstri félaganna. Stefna hvers félags er
skýr og vel skilgreind. 



Nánari upplýsingar um samstæðuuppgjörið veita:
Brynjólfur Bjarnason, forstjóri, sími 550-6003.
Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Samskiptasviðs, sími 863-6075.



Um Skipti hf.

Skipti hf. er eignarhaldsfélag um rekstur fyrirtækja á sviði fjarskipta,
upplýsingatækni og afþreyingar. Innan samstæðunnar eru Síminn, Míla, Já,
Skjárinn, Sensa, Tæknivörur, On-Waves og Radiomiðun. Erlend dótturfélög eru
fjarskiptafélögin Aerofone í Bretlandi og Síminn Danmark  í Danmörku, og
upplýsingatæknifyrirtækið Sirius IT sem er með starfsemi í Noregi, í Svíþjóð og
Danmörku.