2007-12-19 10:16:46 CET

2008-01-07 10:00:00 CET


REGULATED INFORMATION

FL GROUP hf. - Fyrirtækjafréttir

FL Group selur í Finnair


FL Group hefur selt 11,7% eignarhlut í finnska flugfélaginu Finnair og er sala
bréfanna í samræmi við stefnu félagsins um að minnka fjárfestingar tengdar
flugrekstri. Áhersla verður áfram lögð á að styðja vel við núverandi
fjárfestingar í fjármála- og fasteignafélögum, auk þess sem félagið mun leita
áhugaverðra tækifæra í einkafjárfestingum (private equity). Sala bréfanna
fellur einnig vel að þeirri yfirlýstu stefnu stjórnenda Finnair, að auka
dreifingu eignarhalds, en fyrir söluna áttu FL Group og finnska ríkið um 80% af
útistandandi hlutafé félagsins. 

Rekstur Finnair hefur gengið vel á árinu og gaf félagið nýlega út jákvæða
afkomuviðvörun, þar sem búist er við að hagnaður félagsins aukist úr 70
milljónum evra, sem áður var spáð, í 90 milljónir evra á árinu 2007. FL Group
er áfram annar stærsti hluthafinn í Finnair, með 12,7% eignarhlut í félaginu og
styður áfram metnaðarfull vaxtarmarkmið þess. 
 
Fjárhagsleg áhrif
Í lok þriðja ársfjórðungs var heildarvirði hlutar félagsins í Finnair um 22,1
milljarður króna og samsvarar raunverulegu markaðsvirði hlutarins, þar sem FL
Group færir allar sínar eignir á markaðsvirði í árshlutauppgjörum. Samhliða
óróa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og almenna lækkun hlutabréfa í flugfélögum
undanfarna mánuði, hefur markaðsvirði þess hlutar sem nú er seldur lækkað um
2,8 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi. 


Frekari upplýsingar veitir: 

Halldór Kristmannsson
Framkvæmdastjóri Samskiptasviðs 
Sími: 591 4400 / 669 4476
Póstfang: halldor@flgroup.is 



Um FL Group

FL Group er alþjóðlegt fjárfestingafélag með áherslu á þrjú fjárfestingasvið,
FIG, Private Equity og Capital Markets.  FIG hefur umsjón með
áhrifafjárfestingum í fjármálafyrirtækjum og tryggingafélögum.  Private Equity
heldur utan um óskráðar eignir ásamt skráðum eignum sem falla að
fjárfestingarstefnu félagsins.  Capital Markets svið félagsins hefur umsjón með
markaðsviðskiptum sem lúta að skammtíma fjárfestingum sem og framkvæmd afleiðu-
og verðbréfaviðskipta tengdum eignasafni félagsins 
Höfuðstöðvar FL Group eru í Reykjavík en félagið er einnig með skrifstofur í
Lundúnum. FL Group fjárfestir í félögum um allan heim en leggur sérstaka
áherslu á fjárfestingar í Evrópu. FL Group er skráð á OMX Nordic Exchange í
Reykjavík (OMX: FL) og hluthafar félagsins eru rúmlega 4.000 talsins. 

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu FL Group, www.flgroup.is.