2007-11-20 14:02:46 CET

2007-11-20 14:02:46 CET


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Icebank - Árshlutareikningar

- 9 mánaða uppgjör 2007


Sókn Icebank skilar góðum árangri:
Heildareignir ríflega tvöfaldast á árinu 
- hreinar vaxtatekjur jukust um 66% frá því í fyrra


Mikill vöxtur einkenndi starfsemi Icebank á þriðja ársfjórðungi og heldur
bankinn áfram að styrkja stöðu sína. Sérstaklega hafa viðskipti við önnur
fjármálafyrirtæki vaxið. Þó svo að þessi ársfjórðungur hafi ekki skilað nema 65
m.kr. í hagnað eftir skatta þá er hagnaður fyrstu níu mánuði ársins 4.263 m.kr.
eftir skatta og arðsemi eigin fjár 47,3%. Í ár birtir bankinn í fyrsta sinn
ársfjórðungsleg uppgjör sem könnuð eru af endurskoðendum bankans en
samanburðarfjárhæðir síðasta árs eru það ekki. Uppgjörið er unnið samkvæmt
alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS). 

Þriðji ársfjórðungur 2007

•  Hagnaður nam 65 m.kr. eftir skatta á þriðja ársfjórðungi samanborið við
   2.399 m.kr. á öðrum ársfjórðungi. 

•  Hagnaður á hvern hlut dróst saman frá öðrum ársfjórðungi, úr 2,10 kr. í 0,06
   kr. 

•  Heildareignir uxu um rúmar 80 ma.kr. í ársfjórðungnum, eða 68,7%. Vöxturinn
   er aðallega til kominn vegna aukinna útlána og krafna á fjármálastofnanir og
   afleiðusamninga við viðskiptavini. 

•  Fjölgun starfsfólks á þriðja ársfjórðungi nemur 10% og var fjöldi stöðugilda
   88 í lok hans. 

Fyrstu níu mánuðir ársins 2007

•  Hagnaður nam 4.263 m.kr. eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið
   við 6.195 m.kr. á síðasta ári. 

•  Hreinar vaxtatekjur jukust um 66% á milli ára á meðan hagnaður af
   verðbréfaeign dróst saman um tæp 50%. Hér munar mest um sveiflu í verðmæti
   eignarhlutar bankans í Exista. 

•  Hagnaður á hvern hlut var 4,22 kr. samanborið við 9,43 kr. á sama tíma í
   fyrra. 

•  Arðsemi eigin fjár var 47,3% samanborið við 94,9% á sama tímabili 2006.

•  Kostnaðarhlutfall var 14,2% miðað við 7,1% fyrir sama tímabil árið 2006. 

•  Vaxtamunur jókst úr 1,9% á síðasta ári í 2,0% nú.

•  Starfsfólki bankans hefur fjölgað um 26% og taldi 88 stöðugildi í lok
   tímabilsins. 

Fjölgunin hefur verið á öllum sviðum bankans. 

Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri:
„Icebank hefur styrkt stöðu sína í viðskiptum við fjármálafyrirtæki með
áberandi hætti á ársfjórð-ungnum og þannig byggt á reynslu síðustu 20 ára sem
þjónustu- og seðlabanki sparisjóðanna. Þetta kemur fram í örum vexti
efnahagsreiknings bankans sem fór upp fyrir 200 ma.kr. í lok ársfjórðungsins og
hefur því ríflega tvöfaldast frá áramótum. Það eru fyrst og fremst vaxtaberandi
eignir sem eru að aukast og þar af leiðandi hafa hreinar vaxtatekjur bankans
vaxið mikið. Er nú svo komið að hreinar vaxtatekjur eru nánast tvöfalt hærri en
allur rekstrarkostnaður bankans. Það er einsdæmi meðal íslenskra
fjármálafyrirtækja og þótt víðar væri leitað. Þar með verður bankinn betur í
stakk búinn að mæta andbyr á verðbréfamörkuðum eins og raunin varð á þriðja
ársfjórðungi. Nýlega var tilkynnt um kaup bankans á Behrens Fyrirtækjaráðgjöf
og fyrstu skrefin í að opna eignarhald bankans. Framundan eru því spennandi
tímar með áframhaldandi sókn.“ 

Frekari upplýsingar veita:
Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri, finnur@icebank.is, sími 540 4000.
Hafdís Karlsdóttir framkvæmdastjóri, hafdis@icebank.is, sími 540 4000.
Nálgast má uppgjörið í heild sinni á www.icebank.is.