2012-03-29 16:32:45 CEST

2012-03-29 16:33:47 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Skipti hf. - Ársreikningur

Ársreikningur Skipta hf. fyrir árið 2011


                         Afkoma Skipta hf. á árinu 2011

       Tap ársins eftir fjármagnsliði og skatta nam 10,6 milljörðum króna

        Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 6 milljörðum króna



  -- Sala nam 27,6 milljörðum króna samanborið við 33,6 milljarða árið áður.
     Lækkunin skýrist einkum af því að rekstur Sirius IT var í bókum Skipta á
     fyrri helmingi árs 2010.
  -- Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 6
     milljörðum króna samanborið við 5,1 milljarð árið áður. Hækkun EBITDA
     skýrist einkum af hagræðingaraðgerðum sem félagið greip til. EBITDA
     hlutfallið var 21,5% en var 14,9% árið 2010.
  -- Bókfært tap Skipta á árinu nam 10,6 milljörðum króna sem skýrist einkum af
     4,5 milljarða varúðarniðurfærslu á kröfum sem Skipti eiga á banka í
     slitameðferð auk virðisrýrnunar óefnislegra eigna sem nam 2,7 milljörðum
     króna. Tap félagsins nam 2,5 milljörðum króna árið áður.
  -- Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 4,5 milljörðum króna,
     samanborið við 6 milljarða árið áður. Eftir vexti og skatta nam handbært fé
     frá rekstri 1,9 milljörðum króna.
  -- Fjármagnsgjöld voru 10,9 milljarðar króna en þar af námu vaxtagjöld 5
     milljörðum auk þess sem áður nefnd varúðarniðurfærsla er færð á meðal
     fjármagnsliða. Gengistap nam 1,6 milljarði króna.
  -- Vaxtaberandi skuldir námu 60,8 milljörðum um áramót en voru 75,4 milljarðar
     árið áður.
  -- Eiginfjárhlutfall Skipta hf. er 14,5% og eigið fé er 11,5 milljarðar króna.
  -- Skipti hf. gerðu samkomulag við lánveitendur í apríl 2011 sem fól m.a. í
     sér 17,4 milljarða fyrirframgreiðslu lána. Alls greiddi Skipti hf. 22,4
     milljarða í afborganir og vexti árið 2011. Öll lán félagsins eru í skilum
     og Skipti hf. hafa ekki fengið neina niðurfellingu skulda.



Steinn Logi Björnsson, forstjóri Skipta hf:

„Rekstur Skiptasamstæðunnar hefur farið batnandi á árinu sem skýrist helst af
því að við höfum gripið til verulegra hagræðingaraðgerða hjá Skiptum og
dótturfélögum að undanförnu. Sem fyrr er verkefnið  að hámarka arðsemi
rekstrarfélaganna og  tryggja langtímafjármagnsskipan Skipta. Þetta er
áframhaldandi verkefni því fjármagnsliðir eru þungir og takmarkar það svigrúm
okkar.  Lánagreiðslur af langtímalánum og vaxtagreiðslur félagsins voru yfir
tuttugu milljarðar króna á síðasta ári.  Undirbúningur fyrir endurfjármögnun
fyrirtækisins stendur enn yfir en mikilvægt er að horfa til þess að samstæðan
hefur ávallt staðið í skilum og hefur ekki fengið neinar skuldir niðurfelldar. 

Eins og tölur Póst- og fjarskiptastofnunar sýna hefur fjarskiptamarkaðurinn á
Íslandi farið minnkandi á síðustu 3-4 árum, eins og reyndar víðar í Evrópu. Þá
hefur markaðshlutdeild Skiptasamstæðunnar einnig minnkað á sama tíma og erum
við nú með vel innan við helming af heildarmarkaðnum. Þetta hefur sett
verulegan þrýsting á rekstarafkomuna á síðustu árum.  Þessu til viðbótar eru
fjármagnsliðirnir mjög þungir og skuldir miklar eins og ársreikningurinn ber
með sér.  Við teljum mikilvægt að eftirlitsstofnanir, sem félagið á samskipti
við, átti sig á þessari stöðu. Okkur finnst þær hafa ofmetið fjárhagslegan
styrk félagsins þegar staða á einstökum mörkuðum er skoðuð. Við eigum ekki
annarra kosta völ en að leita sífellt að hagræðingarmöguleikum sem hefur borið
nokkurn árangur og munum við halda áfram á þeirri braut. 

Þrátt fyrir þunga fjármagnsliði munu Skipti og dótturfélög, nýta það svigrúm
sem skapast, m.a. vegna lítilla framkvæmda við ný íbúðarhverfi, og leggja hátt
í þrjá milljarða á næstu tveimur árum í að ljúka Ljósnetsvæðingu sem mun þá ná
til um 89 þúsund heimila á suðvesturhorni landsins.  Nú þegar hafa 40 þúsund
heimili kost á að tengjast Ljósneti.  Þetta þýðir stóraukinn internethraða og
margar háskerpusjónvarpsrásir hjá stórum hluta þjóðarinnar. Að loknum þessum
áfanga í Ljósnetinu geta um 75% heimila fengið allt að 100Mb/s, sem er talsvert
umfram þau markmið sem fram koma í fjarskiptaáætlun stjórnvalda.  Þetta
verkefni  gengur mjög vel og hefur verið mjög vel tekið af viðskiptavinum
okkar.  Það ásamt batnandi afkomu gerir okkur  bjartsýn á að geta aukið
verðmæti Skiptasamstæðunnar og auðveldað endurfjármögnun hennar.“ 



Helstu niðurstöður í rekstri á árinu 2011


Reikningsskilaaðferðir

Samstæðuársreikningur Skipta hf. er gerður í samræmi við alþjóðlega
reikningsskilastaðla (IFRS) eins og þeir hafa verið staðfestir af
Evrópusambandinu.  Samstæðuársreikningurinn hefur að geyma ársreikning Skipta
hf. og dótturfélaga þess. Stjórn og forstjóri Skipta hf. hefur staðfest
ársreikning samstæðu félagsins fyrir árið 2011. 


Rekstur

Salan á árinu 2011 nam 27.572 m.kr. samanborið við 33.633 m.kr. árið áður, sem
er 18% lækkun. Lækkunin skýrist einkum af því að í júlí 2010 seldi Skipti
Sirius IT og var félagið hluti af samstæðunni fram að miðju ári 2010. Auk þess
seldu Skipti Já í lok árs 2010 og Tæknivörur í ágúst árið 2011. 

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) var 6.006 m.kr. miðað
við 5.076 m.kr. árið áður. Hækkun EBITDA skýrist í meginatriðum af
hagræðingaraðgerðum í rekstri. 

EBITDA hlutfallið var 21,5% en var 22,3% sé ekki tekið tillit til
einskiptiskostnaðar.  EBITDA hlutfallið var 14,9% árið 2010. 

Afskriftir félagsins námu 6.539 m.kr. á árinu samanborið við 9.097 m.kr. árið
áður. Munurinn skýrist einkum af minni virðisrýrnun óefnislegra eigna.
Virðisrýrnun nam 2.710 m.kr. á árinu 2011. 

Tap samstæðunnar eftir skatta nam 10.573 m.kr. samanborið við 2.512 m.kr. tap á
árinu 2010. Tapið nú skýrist einkum af 4.451 m.kr. varúðarniðurfærslu krafna á
banka í slitameðferð auk virðisrýrnun óefnislegra eigna sem nam um 2.710
milljörðum króna. Gengistap nam auk þess 1.628 m.kr. Virðisrýrnun óefnislegra
eigna nam um 4.916 m.kr. árið 2010. 


Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta var 4.451 m.kr. á árinu en var 5.964
m.kr. á fyrra ári. 

Fjárfestingar samstæðunnar í varanlegum rekstrarfjármunum (CAPEX) námu 2.779
m.kr. á árinu en námu 3.264 m.kr. fyrir sama tímabil 2010. 


Efnahagur

Heildareignir samstæðunnar námu 79.368 m.kr. 31. des 2011 og minnkuðu eignir um
25% á árinu eða um 26,3 ma.kr. sem að mestu skýrist af fyrirframgreiðslu til
lánveitenda. Vaxtaberandi skuldir voru 60,8 milljörðum um áramót en voru 75,4
milljarðar árið áður. 

Eigið fé félagsins nam 11.538 m.kr. í lok árs 2011 og eiginfjárhlutfall var
14,5%. 



Nánari upplýsingar um uppgjörið veitir:
Steinn Logi Björnsson, forstjóri Skipta, sími 550-6003.



Um Skipti hf.

Skipti reka fyrirtæki sem starfa einkum á sviði fjarskipta og upplýsingatækni,
á Íslandi og erlendis. Hlutverk Skipta er að sinna sameiginlegri þjónustu
fyrirtækjanna á einum stað, með hagræði og sveigjanleika að leiðarljósi. Innan
samstæðunnar eru Síminn, Míla, Skjárinn, Sensa, Staki, On-Waves  Radiomiðun og
Talenta. Erlendis rekur Skipti fjarskiptafélagið Síminn DK og Sensa DK í
Danmörku.