2010-04-28 16:59:47 CEST

2010-04-28 17:00:49 CEST


REGULATED INFORMATION

Islandic English
Marel Food Systems hf. - Ársreikningur

Marel kynnir afkomu fyrsta ársfjórðungs 2010


Árið byrjar vel hjá Marel við batnandi markaðsaðstæður

- Tekjur á fyrsta ársfjórðungi 2010 námu 147,2 milljónum evra.  Tekjur af
kjarnastarfsemi voru 128,9 milljónir, sem er 24,9% aukning miðað við sama
tímabil árið áður. [Q1 2009: 103,2 milljónir evra]. 
- EBITDA var 22,6 milljónir evra, sem er 15.3% af veltu [Q1 2009: 0,8 milljónir
evra]. EBITDA af kjarnastarfsemi var 20,9 milljónir evra, sem er 16.2% af veltu
[Q1 2009: 3,9 milljónir evra]. 
- Rekstrarhagnaður (EBIT) var 15,9 milljónir, sem er 10,8% af veltu [Q1 2009:
5,8 milljón evra tap]. EBIT af kjarnastarfsemi var 15,1 milljónir evra, eða
11,7% af veltu [Q1 2009: 1,7 milljón evra tap]. 
- Hagnaður eftir skatta var 5,6 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi 2010 [Q1
2009: 7,0 milljón evra tap]. 
- Sjóðstreymi er sterkt og nettó vaxtaberandi skuldir eru 286 milljónir evra í
lok fyrsta ársfjórðungs 2010 [Q1 2009: 373 milljónir evra]. 
- Pantanabók hefur styrkst í takt við batnandi markaðsaðstæður og er 113,5
milljónir evra í lok fjórðungsins [Q1 2009: 58,8 milljónir evra]. 

Ársfjórðungurinn var góður hjá Marel. Tekjur af kjarnastarfsemi námu 129
milljónum evra, sem er 15% aukning samanborið við ársfjórðunginn á undan og 25%
aukning miðað við sama tímabil fyrir ári. Fyrirtækið náði langtíma EBIT
markmiði sínu sem er 10-12% af veltu. Þessum árangri er að þakka batnandi
markaðsaðstæðum, sterkri stöðu Marel á markaðnum, lægri kostnaðargrunni
fyrirtækisins og þeim ávinningi sem samþættingarferli fyrirtækisins er farið að
skila. 


Theo Hoen, forstjóri:
 „Við erum mjög ánægð með afkomu fyrsta ársfjórðungs. Árið byrjaði vel hjá
Marel. Markaðsaðstæður eru að batna og tekjur hafa enn á ný aukist í samanburði
við ársfjórðunginn á undan. Pantanabókin hefur styrkst og var fjöldi nýrra
pantana hærri en fjöldi afgreiddra pantana fimmta ársfjórðunginn í röð. Við
skilum nú meiri hagnaði og sterkara sjóðstreymi þökk sé þeim aðgerðum sem við
höfum gripið til til að hagræða og skerpa á rekstri félagsins. 

Samþætting Marel og Stork er farin að skila sér. Samþætting dreifikerfanna
gengur samkvæmt áætlun og við erum komin með stöðugt framboð nýrra samþættaðra
vara sem eru viðskiptavinum okkar mjög til hagsbóta og til þess fallin að
styrkja markaðsstöðu fyrirtækisins. Í ljósi þess árangurs sem við höfum þegar
náð horfi ég björtum augum til framtíðarinnar, ekki bara út þetta ár heldur
einnig til lengri tíma litið.“ 

Viðunandi pantanabók 
Markaðsvirkni er góð og hefur aukist á öllum sviðum, sérstaklega í kjúklingi og
fiski, og fer batnandi í kjöti og frekari vinnslu. 

Pantanabók hefur vaxið og er nú viðunandi. Þó fjöldi stærri pantana sé enn ekki
á við það sem hann var fyrir alþjóðlegu fjármálakreppuna eru slíkar pantanir þó
farnar að berast jafnt og þétt, sem er til merkis um bata á mörkuðum. Nýjar
pantanir námu 135 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi 2010 samanborið við 95,5
milljónir evra á sama tíma fyrir ári, og eru tekjur af þjónustu taldar með.
Þetta er fimmti ársfjórðungurinn í röð sem fjöldi nýrra pantana var hærri en
fjöldi afgreiddra pantana. Fyrir vikið hefur tækjapantanabókin styrkst jafnt og
þétt og var hún 113,5 milljónir evra í lok fyrsta ársfjórðungs 2010 samanborið
við 59 milljónir evra á sama tíma fyrir ári. 

Sterkt sjóðstreymi og lægri skuldir
Sjóðstreymi er áfram sterkt og nemur 38,8 milljónum evra fyrir vexti og skatta.
Fjármagnskostnaður hefur lækkað og dregið hefur enn frekar úr gengisáhættu
eftir samkomulag við íslensku bankana þann 4. febrúar síðastliðinn um að breyta
myntsamsetningu sambankaláns sem bankarnir veittu félaginu í maí 2009. 

Efnahagsreikningurinn er sterkur og hafa nettó skuldir lækkað enn frekar í 286
milljónir evra samanborið við 373 milljónir evra fyrir ári síðan. 

Eftir að lokið var við sölu á Food & Dairy Systems og Carnitech A/S, eininga
utan kjarnastarfsemi félagsins, getur Marel nú einbeitt sér að fullu að því að
styrkja enn frekar stöðu sína sem markaðsleiðtogi í þróun og markaðssetningu á
tækjabúnaði og þjónustu við fisk-, kjöt- og kjúklingaframleiðendur, sem og í
auknum mæli á sviði frekari vinnslu. 


Kynningarfundur 29. apríl 2010

Marel boðar til kynningarfundar um afkomu félagsins fimmtudaginn 29. apríl kl.
8:30 í húsnæði félagsins að Austurhrauni 9, Garðabær. Fundinum verður
netvarpað: www.marel.com/webcast 

Birtingardagar fyrir reikningsárið 2010 og aðalfundur 2011

Birtingardagar fyrir reikningsárið 2010:
2. ársfjórðungur 2010   28. júlí 2010
3. ársfjórðungur 2010   27. október 2010
4. ársfjórðungur 2010   2. febrúar 2011
Aðalfundur Marel hf.    2. mars 2011

Frekari upplýsingar veita: 
Erik Kaman, fjármálastjóri. Sími: 563-8072 
Sigsteinn Grétarsson, forstjóri Marel ehf. Sími: 563-8072


Um Marel
Marel er í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja Íslands og er í fararbroddi á
heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á
fiski, kjöti og kjúklingi. Hjá fyrirtækinu starfa um 3.500 manns um allan heim
og starfrækir það skrifstofur og dótturfyrirtæki í meira en 30 löndum, auk 100
umboðsmanna og dreifingaraðila.