2014-09-09 18:05:46 CEST

2014-09-09 18:06:47 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Icelandair Group hf. - Fyrirtækjafréttir

Áframhaldandi vöxtur í millilandaflugi Icelandair Group árið 2015


  -- Áætluð fjölgun farþega um 300 þúsund milli ára
  -- Beint flug til 39 áfangastaða
  -- 12% aukning flugs milli ára
  -- Daglegt flug allt árið til 9 borga: Seattle, Boston, New York, Osló,
     Stokkhólms, Kaupmannahafnar, London, Amsterdam og París.
  -- Birmingham og Portland, Oregon nýir áfangastaðir

Flugáætlun millilandaflugs Icelandair Group fyrir árið 2015 verður sú stærsta í
sögu félagsins og um 12% umfangsmeiri en gert er ráð fyrir á þessu ári. Flug
verður hafið til tveggja nýrra áfangastaða og ferðum fjölgað til ýmissa borga í
Norður-Ameríku og Evrópu. Gert er ráð fyrir að farþegar  verði um 2,9 milljónir
á árinu 2015, en áætlað er að þeir verði um 2,6 milljónir á yfirstandandi ári.
Alls verða 23 Boeing 757 flugvélar nýttar til farþegaflugsins næsta sumar,
tveimur fleiri en á þessu ári. 

Leiðakerfi félagsins hefur meira en tvöfaldast að umfangi frá árinu 2009 og
verða ferðir frá landinu um 10 þúsund á næsta ári en voru um 4.500 fyrir sex
árum. Þá voru farþegar um 1,3 milljónir eða 45% þess fjölda sem gert er ráð
fyrir á árinu 2015. Þessi vöxtur mun hafa í för með sér áframhaldandi eflingu
ferðaþjónustunnar á Íslandi 

Ferðum mun fjölga  næsta sumar til flestra áfangastaða. Þannig verður bætt við
12 flugum vikulega bæði til Norður-Ameríku og Evrópu eða í heild 24 flugum og
farið úr 254 brottförum frá Keflavíkurflugvelli á viku og í 278 brottfarir yfir
háönnina næsta sumar. Portland, Oregon og Birmingham bætast við sem nýir
áfangastaðir en ekki verður framhald á flugi til St. Pétursborgar. 

Sem dæmi um það hvernig leiðakerfi félagsins er að þéttast og styrkjast með
þessum breytingum má nefna að nú verður flogið allt árið til sjö borga í
Norður-Ameríku, en til fjögurra fyrir tveimur árum. Þá er nú flogið daglega
allt árið til sex Evrópuborga og hafa Amsterdam og París bæst við á síðustu
tveimur árum. 

Leiðakerfi félagsins hefur einkum byggt á tengingum á Keflavíkurflugvelli með
morgunbrottförum til Evrópuborga og síðdegisflugi til Norður-Ameríku.
Undanfarin ár hefur félagið verið að byggja upp annan tengibanka, með
brottförum laust fyrir hádegi. Í dag eru tvær daglegar brottfarir í þeim
tengibanka til Norður-Ameríku og fjórar brottfarir til Evrópuborga. Þriðja
daglega brottförin til Norður-Ameríku bætist nú við og fimmta brottförin til
Evrópu. Stækkunin á þessum tengibanka gefur möguleika á tveimur mismunandi
brottfarartímum innan sama dags á áfangastaði, dreifir álagi á
Keflavíkurflugvelli og styður vel við aðal tengibankann. 

Félagið mun hefja áætlunarflug til og frá Portland í Oregonfylki á vesturströnd
Bandaríkjanna 19. maí 2015. Íbúafjöldi  á Portland svæðinu nemur um 2,3
milljónum íbúa.  Portland verður 14. áfangastaður félagsins í Norður-Ameríku.
Flogið verður tvisvar í viku á þriðjudögum og fimmtudögum til 20 október. 

Áður hefur verið tilkynnt um flug til Birmingham í Bretlandi sem hefst í
febrúar 2015. Birmingham verður fimmti áfangastaður félagsins í Bretlandi.
Flogið verður tvisvar í viku, á fimmtudögum og mánudögum frá 5. febrúar 2015. 



Frekari upplýsingar veita:

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sími: 896-1455
Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group, sími: 665-8801