2009-08-31 17:36:32 CEST

2009-08-31 17:37:33 CEST


REGULATED INFORMATION

English Islandic
Lánamál ríkisins - Fyrirtækjafréttir

Tilkynning um útgáfu á nýjum flokki ríkisskuldabréfa


Á dögunum var tilkynnt um fjármögnun Íslandsbanka og Nýja Kaupþings ásamt þróun
viðræðna vegna Landsbankans.  Eigið fé Íslandsbanka er áætlað 65 milljarðar
króna og Nýja Kaupþings 72 milljarðar króna sem lagt verður fram í formi
ríkisskuldabréfa, en fjárhæð eiginfjárframlagsins er háð endanlegu samþykki
Fjármálaeftirlitsins.  Hvað NBI (Nýja Landsbankann) áhrærir þá hafa
ríkisstjórnin og skilanefnd Landsbankans farið þess á leit við
Fjármálaeftirlitið að fá lengri tíma til þess að ná endanlegri niðurstöðu um
endurfjármögnun og greiðslur fyrir eignir sem færðar voru úr gamla
Landsbankanum yfir í þann nýja. 

Til fjármögnunar eiginfjárframlags bankanna gefur ríkissjóður út nýjan flokk
ríkisskuldabréfa. Hámarksfjárhæð útgáfunnar er 300 ma.kr. og ber flokkurinn
mánaðarlega vexti sem taka mið af vöxtum á viðskiptareikningum
fjármálafyrirtækja í Seðlabanka Íslands.  Gjalddagi flokksins er 9. október
2018 en að öðru leyti er vísað í meðfylgjandi útgáfulýsingu. Stefnt verður að
skráningu flokksins í Kauphöllinni en ekki verður um að ræða viðskiptavakt á
honum. 

Glitni og Kaupþingi mun gefast kostur á að kaupa meirihluta hlutafjár ríkisins
í Íslandsbanka og Nýja Kaupþingi.  Nýti þeir þann rétt hefur ríkisstjórnin
samþykkt að leggja nýju bönkunum tveimur til fé í formi víkjandi lána til að
mæta eiginfjárþörf þeirra að hluta en þau lán munu nema 4% af áhættugrunni
þeirra. 

Ef af kaupum gömlu bankanna á þeim nýju verður er samkomulag um að afhenda
hluta af ríkisskuldabréfunum til baka til ríkisins. Glitnir mun hafa frest til
30. september 2009 til kaupanna og Kaupþing til 31. október 2009.